25.03.1924
Neðri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

1. mál, fjárlög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hefi yfirleitt ekki mikið að segja í þessu máli, því að jeg átti sæti í fjárveitinganefnd og er henni því yfirleitt samþykkur. Það er því langt frá því, að jeg þurfi að deila á háttv. nefnd, þar eð jeg er henni samþykkur um flestar till. hennar. Jeg hefi því ekki annað hlutverk við þessar umræður en mæla með þeim fjárveitingum og niðurskurðum, sem nefndin leggur til og mjer þykir mest um vert að fái fram að ganga.

Háttv. 2. þm. Rang. (KlJ) lagði á móti nokkrum fjárveitingum, sem eru mjer mikið áhugamál. Skal jeg þar fyrst nefna það, að hann taldi það of hátt, sem nefndin áætlar til fjárkláðakostnaðar. Hann upplýsti ennfremur, að enginn slíkur kostnaður hefði orðið á síðastliðnu ári. Þetta eru alveg nýjar upplýsingar, eða að minsta kosti eru þær það fyrir nefndina, því að henni var ekki kunnugt um það fyr, að svo hefði verið.

Jeg hjelt, að fjárkláðinn væri því miður ekki svo fátíður, að ekki þyrfti neinu fje að verja til að stemma stigu fyrir honum, því að árin 1920–1922 var þessi kostnaður allmikill. Árið 1920 var hann 21 þús. kr., árið 1921 32 þús. kr. og árið 1922 57 þús. kr. Og mjer finst ekki vera gott um það að segja, hvað mikill þessi kostnaður kunni að verða árið 1925, og mjer finst það væri enginn skaði skeður, þó að þessi liður yrði eitthvað lægri en hann hefir verið áætlaður, því það verða víst samt nógu margir liðir í fjárlögunum, sem reynast of lágir. Það er líka auðsætt. ef tekið er meðaltal þessa kostnaðar á árunum 1920–1922, þá muni hann ekki vera of hátt áætlaður. Jeg vil því mæla með því, að þessi till. nefndarinnar sje samþykt, því fari svo, að þessi liður reynist of hár, þá sparast það fje, sem afgangs verður. Fari svo aftur á móti, að mikill kostnaður verði við þetta, þá er ekkert undanfæri að greiða að minsta kosti það, sem þarf til baðlyfja, því ríkissjóður er að lögum skyldur til að láta af hendi baðlyf endurgjaldslaust, ef þess þarf með til útrýmingar kláðanum.

Þá mintist sami háttv. þm. á styrk til markaðsleitar fyrir ísl. afurðir. Mjer skildist hv. þm. halda því fram, að ekki væri þörf fyrir neinar sendiferðir til markaðsleitar á næstunni, og því væri till. nefndarinnar nógu há. Jeg held, að það þyrfti þó að fá meira fje til þessa, því það þarf þó að minsta kosti að leita að markaði fyrir okkar kjöt. Og jeg sje ekki eftir, þó að 15–20 þús. kr. færu til þess, því það er líka víst, hvar er helst að leita að slíkum markaði, og það má segja, að það sje lífsnauðsyn fyrir heila stjett í landinu, bændastjettina, að slíkur markaður sje útvegaður.

Sami hv. þm. mintist ennfremur á styrk til byggingarfróðs manns til þess að leið- beina mönnum við húsagerð og byggingar í sveitum. Jeg var mjög hikandi viðvíkjandi þessari fjárveitingu, og jeg verð ennþá meira hikandi nú, eftir að hv. þm. hefir lýst yfir því, að þessi maður hafi ekki gert minsta gagn. Jeg verð þó að segja það, að það kemur mjer mjög undarlega fyrir sjónir, því jeg veit, að það eru margir bændur í sveitum, sem vilja leita til hans og telja nauðsynlegt að hafa slíkan mann til leiðbeiningar. Jeg skal viðurkenna það, að jeg er í klípu viðvíkjandi þessu máli og á ekki gott með að mynda mjer skoðun í því. Jeg hefi heyrt, að maður þessi hafi ennfremur komið ókurteislega fram við ríkisstjórnina, og mjer skilst, að hann hafi verið sviftur styrknum. (KlJ: Hann hefir verið sviftur honum frá 1. apríl að telja). Fyrst svo er, þá skoða jeg atkvæðagreiðsluna um þetta mál sem úrskurð um það, hvort maður þessi skuli njóta styrksins áfram. Ef samþykt verður, að hann skuli njóta styrksins 1925, þá skoða jeg það sem yfirlýsingu þingsins um, að hann skuli einnig njóta hans það sem eftir er þessa árs.

Þá lagði sami háttv. þm. móti hækkun styrksins til Búnaðarfjelags Íslands. Þar er jeg ekki á sama máli og hv. þm., því jeg býst við, þótt samþyktur verði styrkur sá, sem nefndin leggur til að veittur verði Búnaðarfjelaginu, að því veitist fullerfitt með að komast af með hann. Það er líka þess að gæta, að það er ekki Búnaðarfjelagið eitt, sem nýtur þessa styrks, heldur og búnaðarsamböndin um alt land. Búnaðarfjelagið hefir veitt smástyrki til jarðabóta úti um alt land, og reynt með því að örva menn til framkvæmda, og slíkt getur auðvitað gert hið mesta gagn, því að jarðræktin er að mínum dómi eitt hið besta og nauðsynlegasta fyrir landið í framtíðinni. Sömuleiðis hefir fjelagið styrkt menn til náms í útlöndum, en fjelagið hefir nú ákveðið það, — í samræmi við gerðir þingsins, — að styrkja ekki neina nýja menn, heldur aðeins hjálpa þeim til að halda áfram námi, sem þegar eru byrjaðir á því.

Það er að sönnu svo, að einn af starfsmönnum Búnaðarfjelagsins hefir sagt upp stöðu sinni, en að því verður ekki neinn sparnaður fyrir fjelagið. Fjelagið á að vísu erfitt með að fá annan mann í hans stað, en það mun þó ekki líða á löngu áður maður verður fenginn, því það starf, sem þessi maður hafði með höndum, er svo þýðingarmikið, að það má ekki með nokkru móti falla niður. Þessi maður er vatnsvirkjaráðunauturinn, og það starf er þýðingarmikið.

Um jarðræktarstyrkinn er það að segja, að þó að svo líti út, sem um 35 þús. kr. nýja fjárveitingu sje að ræða, þá er þó ekki nema um 25 þús. ný að ræða, því 10 þús. af þessum styrk eru tekin frá búnaðarfjelögunum. Þetta er sú minsta fjárhæð, sem hægt er að komast af með, ef jarðræktarlögin eiga að ná tilgangi sínum, að hvetja bændur til jarðabóta. Og þegar þess er gætt, að ekki á að veita eins mikið og jarðræktarlögin gera ráð fyrir, og þar að auki aðeins veittur styrkur til jarðabóta eftir einum kafla jarðræktarlaganna, þá er ekki hægt að segja, að langt sje gengið. Auk þess er þetta aðeins áætlunarupphæð, þannig, að ekki verður yfir það farið, en það getur líka orðið minna, ef lítið yrði unnið að jarðabótum, sem styrktar yrðu. En jeg fyrir mitt leyti vona, að það verði enginn afgangur af þessu fje, því ef svo færi, þá væri það vegna þess, að mjög lítið væri unnið að jarðabótum á árinu, en það tel jeg illa farið, því að mínum dómi er jarðrækt nauðsynlegri en flest annað. Jeg man ekki betur en að í aths. við stjfrv. sje talað um, að nauðsynlegt sje að veita fje í þessu skyni, og sýnir það, að stjórnin hefir haft þetta í hyggju, en líklega ekki sjeð sjer það fært vegna fjárhagsins. En annars ætla jeg ekki að fara frekar út í þetta mál. Háttv. frsm. tók það fram, að það væri ekki tilætlunin að veita styrk til þúfnabana eða nýbýlagerðar. Jeg er þar á sama máli, en álít þó óhjákvæmilegt að verja nokkru fje til að halda við og áfram með það, sem þegar hefir verið unnið í Mosfellssveit, því annars er það verk alt ónýtt. Jeg vil því mælast til þess, að hv. deild samþykki þessar 35 þús. kr., því það eru ekki margir liðir í fjárlagafrv., sem mjer er eins sárt um og einmitt þessi.

Þá ætla jeg að minnast á eina brtt. hv. fjvn., því þar var jeg í andstöðu við nefndina, og það er styrkurinn til kvennaskólans hjer í Reykjavík. Nefndin leggur til, að styrkurinn sje lækkaður úr 19000 kr. niður í 16000 kr., og sje veittur gegn því skilyrði, að 3000 kr. komi á móti úr bæjarsjóði Reykjavíkur. Mjer er illa við þetta skilyrði, því komi ekki þessar 3000 kr. frá bæjarsjóði, þá er ekki heimilt að greiða neitt til skólans. Og þótt skilja mætti þetta þannig, að greiða megi þessar 16 þús. kr. án þess nokkuð komi á móti frá bæjarsjóði, sem ekki er heimilt, þá er jeg samt á móti þessari brtt. Þetta er skóli, sem margir nemendur sækja víðs vegar af landinu og er rekinn mjög ódýrt, þrátt fyrir það, þó hann verði að greiða mikla húsaleigu, því sjálfur á skólinn ekkert hús. Jeg hefi minst á það við borgarstjóra, hvort hann mundi vilja beita sjer fyrir því í bæjarstjórninni, að bærinn legði fram þessar 3000 kr., en hann tók því fjarri og sagði, að bærinn mundi alls ekki greiða meira en hann hefir gert undanfarið. Og hann sagði, eins og eðlilegt er, að slíkt gæti ekki komið til mála, því skólinn væri landsskóli en ekki bæjarskóli. Í honum eru nemendur af öllu landinu. (HK: Ætli það sje þó ekki einna mest úr Reykjavík!). Jú, en það mætti þá með alveg eins miklum rjetti kalla t. d. mentaskólann bæjarskóla, ef fara ætti eftir því. Jeg tek fyllilega undir það, sem hv. frsm. sagði, að launakjör við þennan skóla eru mjög lág. T. d. hefir forstöðukona skólans aðeins fjórðungslaun við það, sem aðrir skólastjórar hafa. Þó stjórnar hún skóla, sem hefir á annað hundrað nemendur. Jeg get því greitt atkvæði með brtt. þeirri, sem komið hefir fram frá einum hv. þdm., en alls ekki með brtt. nefndarinnar. Annars finst mjer það vera auðsær hlutur, að það er ekki hægt að leggja niður þennan eina kvennaskóla, sem veitir „real‘‘-mentun, því hvert á þá kvenfólkið að sækja slíka mentun? Það er ekki til neins að segja sem svo, að það geti farið í gagnfræðadeild mentaskólans, því hann er altaf fullskipaður, og sama er að segja um lýðskólana. Hv. þm. verða því að gera sjer það ljóst, að ríkið verður að leggja skólanum svo mikið fje, að hann geti starfað óhindraður.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsætisráðherra sagði, vil jeg geta þess, að jeg er honum ekki sammála um sum atriði, og enda fæst. Jeg vorkenni t. d. alls ekki háskólasjóðnum að leggja fram það fje, sem fjvn. stingur upp á. (MJ: Sú tillaga hefir verið tekin aftur.). Já, hún hefir verið tekin aftur í bili, en hún mun eiga að koma fram við 3. umr.

Þá mintist hæstv. forsrh. á fjárveitinguna til Þingvalla, og skal jeg geta þess, að jeg sje ekki mikið eftir því, þó sú fjárveiting falli niður. Mjer finst hún sáralitla þýðingu hafa. Og jeg mundi greiða atkvæði á móti henni, enda þótt ríkissjóður hefði nóg fje, hvað þá þegar eins er ástatt og nú.

Að því er snertir veðurathuganirnar, þá er það alls ekki meiningin að draga neitt úr veðurskeytunum. Það á að leggja niður veðurathuganastöðina eins og hún er nú, en láta landssímann annast um veðurskeytin, svo það á alls ekki að þurfa að ganga neitt út yfir sjómenn, því þeir eiga að geta fengið upplýsingar um veðráttu á öðrum stöðum jafnt eftir sem áður.