25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

33. mál, friðun á laxi

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Þetta mál er búið að vera æðilengi á leiðinni. Samt hafa ekki aukist röksemdir þeirra, sem vilja afnema þessi lög frá 6. júní 1923.

Jeg vil fyrst snúa mjer lítið eitt að áliti hv. meiri hl. Þar er haldið fram, að þingið í fyrra hafi samþykt undanþáguna af því, að talið var, að vatnsmagn árinnar væri nægileg trygging fyrir því, að laxinn gæti gengið upp þrátt fyrir netin, og því hafi ekki verið mótmælt í Árnessýslu. Ekki hafa enn komið mótmæli frá sjálfum bændum, nema ef telja ætti nafnlaust brjef það, sem hv. frsm. meiri hl. las upp. En ástæðan til að breyta hlýtur þá að vera sú, að vatnið í Ölfusá hafi minkað síðan í fyrra. (EP: Það er hvergi sagt). Það er einmitt sagt, að nú sje hvorug ástæðan fyrir hendi. (EP: Ekki lengur trygging fyrir því). Tryggingin er sú sama og í fyrra, nema ef vatnið í Ölfusá hefir minkað. En fyrir því eru engar sannanir. (EP: Þetta er útúrsnúningur). Þá hefi jeg leyft mjer að taka fram nokkur atriði í nál., en rifja sum upp aftur. Mjer sýnist það ærinn stuðningur mínu máli, að þeir menn, sem þarna eru vel kunnugir, telja, bæði í fyrra og nú, að óhætt megi treysta á vatnsmagn árinnar. Við meðferð málsins í fyrra tóku í sama streng bæði í hv. Ed. og Nd. tveir leiðtogar Íhaldsflokksins. Hæstv. fjrh. (JÞ) er vel kunnugur í Flóanum, og tel jeg víst, að hv. flokksbræður hans taki vitnisburð hans gildan. Ef jeg man rjett, voru það aðeins tvö atkvæði á móti þessum lögum í fyrra hjer í deildinni.

Það er máske rjett að taka það fram nú, að í fyrra, áður en það frv. kom frá hv. Nd., bar jeg fram frv., sem gekk í þá átt að banna þvergirðingu í veiðiám, eins og nú er gert með laxakistum sumstaðar á landinu. Á Laxamýri er laxagangan stífluð með kistum, svo að varla nokkur lax kemst upp fyrir. Mitt frv. gekk í þá átt að banna kisturnar, með því að þær gerðu að engu veiðina ofar í ánni. Hv. Ed. áleit þetta ekki nægilega sannað og vísaði frv. til hæstv. stjórnar. Þetta hefir verið borið undir sýslunefnd hlutaðeigandi sýslu, og kemur væntanlega svar til núverandi hæstv. stjórnar nú í vor. Getur hún þá á næsta þingi borið fram frv. um laxamálið í heild sinni, og var sú tilætlun þingsins í fyrra. Í fyrra þóttist hv. Ed. ekki sjá sjer fært að taka til greina kröfu frá 60–70 bændum í Þingeyjarsýslu, sem þeir höfðu sent Alþingi á undirskriftaskjali frá 1918 og beðið um, að Laxá væri opnuð hjá Laxamýri. Allir veiðieigendur í Þingeyjarsýslu hafa mikinn skaða af núverandi ástandi — nema bóndinn á Laxamýri Jeg vil benda hv. 1. þm. Rang. á það, að það er alt annað að þvergirða bergvatn með laxakistu eða Ölfusá, þar sem meginállinn, 30–40 faðmar og hyldjúpur, er opinn og öndverður fyrir laxinn. Jeg lít svo á, að í laxamálið þurfi að taka á miklu breiðari grundvelli en gert hefir verið. Sumstaðar á landinu ríkir gamalt ranglæti, sem þó ekki er kvartað undan nema svo sem einu sinni á 20 árum, af því að menn búast ekki við neinni leiðrjettingu. Í öðru lagi er veiðin víðast hvar stunduð sem rányrkja; þarf að koma nýju skipulagi á klakið. Það er engin meining í því, a' einn maður kosti klakið við hverja á, eins og nú tíðkast við Sogið. (EP: Hann selur seiðin). Til Reykjavíkur, en ekki Árnessýslu. Ef þingið álítur það óskaplega mikið ranglæti að hafa stutt net við bakkana á hinni breiðu og straumhörðu Ölfusá, getur það ekki komist hjá að rökstyðja það rjettlæti að breyta þvert ofan í mótmæli þeirra 60 bænda í Þingeyjarsýslu, sem telja sig beitta ranglæti með gerðri þvergirðingu ágætrar veiðiár hjá Laxamýri.

Hv. þm. talaði um að hafa sterkt eftirlit með ólöglegum veiðum, þ. e. haustveiðum, í Árnessýslu. Þær veiðar munu eiga talsverðan þátt í fækkun laxins. En það er ómögulegt að hindra þær með keyptu aðhaldi; menn verða sjálfir að sjá, hvað þeir gera sjer mikinn skaða. Sumstaðar ofan til í Árnessýslu er vatnið í veiðiánum svo tært, að vel er hægt að gersópa hyljina með ádrætti.

Gamlir menn austanfjalls segja, að eins og menn hafi brotið ofan til í sýslunni með því að veiða á haustin, þá hafi verið föst venja hjá bændum við Ölfusá að láta netin liggja um helgar. Þetta var látið óátalið. En laxarnir komust upp eftir samt. Þessari venju verður ekki breytt með því að fella lögin úr gildi. Aðhaldið verður að koma frá fólkinu sjálfu. Hv. frsm. meiri hl. mintist á, að þetta mál væri hitamál. Veiðieigendur þurfa að finna, að þeir hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta. Frv. mitt frá í fyrra um skipulagsbundið klak, með stuðningi af almannafje, stefndi í þessa átt.

Þegar tveir aðiljar með sameiginlegri sök deila, er venjulegt, að hvorugur vill láta sinn hluta. Hv. þingdeildarmenn ættu að sjá, að það er engin leið til að gera neitt í þessu máli, sem skynsamt gæti talist, nema byggja fyrst brú á milli deiluaðilja, — og hugsa málið á nýjum grundvelli. Bændur í Árnessýslu, sem búa á veiðijörðum, þurfa að gera samtök um klakið. En það er misskilningur, að jeg hafi stungið upp á að hafa sameiginlega veiði. Það væri líka vitleysa. En klakið á að vera sameiginlegt og kostað af hverjum bónda í hlutfalli við veiðina.

Það voru viss atriði í ræðu hv. þm., sem jeg vildi taka til athugunar. Mjer er persónulega kunnugt um, að á tveim veiðijörðum ofan við Ölfusárbrú, Laugardælum og Kiðjabergi, veiddist vel síðastl. sumar. Jeg veit, að hv. þm. gerir ekki ráð fyrir, að áin verði þvergirt ofan við Laugardæli. En á Kiðjabergi veiddist fremur vel. Jeg þekki minna til í sýslunni ofan til, en jeg býst við, að það sje rjett hermt, að lítið hafi veiðst á sumum jörðum þar. En það eru altaf áraskifti að veiðinni, sem stafar eingöngu af breytingu á laxgengdinni. Síðastl. sumar var kalt, og hefir það kannske haft sín áhrif. Mjer skildist hv. frsm. meiri hl. gera ráð fyrir, að hjá einhverjum þeim, sem ekki vilja breyta lögunum, kynni að liggja til grundvallar gestrisni meðtekin á þessum stöðvum. Vil jeg minna á það, að ef jeg og fleiri hafa orðið fyrir gestrisni Árnesinga, þá mundu þessar dylgjur ekki síst ná til hæstv. fjrh., sem dvalið hefir langdvölum á þessum stöðvum.

Þar sem hv. frsm. meiri hl. vildi tortryggja flokksbróður minn, hv. 2. þm. Árn. (JörB), að hann segði satt í þessu máli, þá nær það sama til hv. 1. þm. Rang. (EP) gagnvart hæstv. fjrh. (JÞ), og í raun og veru gagnvart flokksbræðrum hans öllum, sem samþyktu frv. í fyrra, og sem hefðu þá átt að gera það af eigingjörnum hvötum.

Þá er selurinn í Ölfusá. Virðist nokkuð undarlegt að rækta heila hjörð af rándýrum, eins og gert er á tveim bæjum við Ölfusá, og láta hagsmuni þessara tveggja jarðeigenda spilla laxveiði í allri ánni. Þarna eru mörg hundruð selir, sem löggjafarvaldið friðhelgar. Það var þessi sama hv. deild, sem hindraði í fyrra, að selurinn væri ófriðaður á þessum bæjum. Sú skoðun, að selur í laxám spilli ekki veiðinni, er svo vitlaus, að jeg býst við, að hv. 1. þm. Rang. (EP) standi einn uppi á þeim hólum. Dráp laxa um hrygningartímann og selurinn í veiðiánum eru höfuðmeinin í laxveiðamálinu austanfjalls.

Það var dálítill misskilningur hjá hv. frsm. meiri hl., að jeg hefði haldið því fram, að sýslunefndin hefði seilst út fyrir sín takmörk. Jeg sagði, að það liti út fyrir, að hún hafi misbrúkað vald sitt með því að stytta veiðitímann. Það stendur sem sje skýrt í lögunum, að þingið hafi úrskurðarvaldið um lengd veiðitímans. Og það kemur ekki þinginu við, hvað samþykt er með 9:7 atkvæðum á sýslufundi um það efni. Sýslunefndum er einungis falið að ákveða, hvenær megi byrja veiði og hvenær skuli hætta. En þar finst mjer sýslunefndin hafa misbeitt valdi sínu, þegar hún bannaði þeim niður frá að leggja net fyr en um miðjan júní, þó Borgfirðingar byrji 15. maí.

Jeg verð að halda því fram, að þar sem sýslunefnd Ámessýslu sýnist beita tvo hreppa, Sandvíkur- og Ölfushrepp, ofríki með því, hvernig hún ákveður veiðitímann, þá sje ástæða fyrir þingið að bæta þessum hreppum upp svona meðferð á þann hátt, að þeir megi nota sem best, þó innan sanngjarnra takmarka, þann stutta tíma, sem þeim er úthlutaður til veiðinnar.

Því hefir að vísu verið haldið fram, að þessar ákvarðanir sýslunefndar um veiðitímann sjeu gerðar í samráði við og með samþykki bænda í áðurnefndum 2 hreppum. Jeg hefi spurst fyrir um þetta og fengið þær upplýsingar, að það sje ekki rjett, enda væri það undarlegt, að þeir hefðu lagt samþykki sitt á það, að þeir væru hindraðir í að veiða, bæði síðari part maí og fyrri hluta júnímán., þar sem þeir hafa lítil not af veiðinni eftir að komið er fram í ágúst, með því að laxinn er þá að mestu genginn upp úr.

Í brjefi, sem hv. frsm. meiri hl. las upp, er sagt, að hægt sje að stokkleggja Ölfusá hjá brúnni. Jeg vil mótmæla því, að slíkt sje hægt með þeim tækjum, sem enn eru þekt. Straumþungi árinnar er svo mikill, að ef þverleggja ætti þar með netum, sem þyldu hann, þá mundi sá útbúnaður kosta tugi þúsunda. Netin eru nú lögð undan straumnum, oftast örskamt út frá bakkanum. Eru bygðar stuttar bryggjur fram í ána og netin lögð frá þeim. Þau eru aldrei lögð beint út í ána, enda væri slíkt ekki viðlit, sakir straumþungans.

Ástæður þær, sem báðar hv. þingdeildir tóku til greina í fyrra, þegar þær samþyktu undanþáguna, eru því enn óbreyttar, og því engin ástæða til að hrófla við þessum lögum nú. Enn er sami ómöguleikinn að stöðva laxgönguna með netum, er víðast hvar taka aðeins 1/20 breidd árinnar. Alt skraf um stokkleggingu sýnir aðeins, að einstakir menn í upphreppum sýslunnar hafa gert mál þetta að hitamáli og blásið talsvert upp ýmiskonar ósannindum í sambandi við það. Það sýnist sem sje vera búið að stokkleggja sannleikann í þessu máli.