15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

Rannsókn kjörbréfa

Jón Kjartansson:

Það eru einkum tvö atriði í ræðu hv. 2. þm. Reykv. (JBald), sem jeg vildi leyfa mjer að taka til athugunar. Hann ávítar kjörbrjefadeildina fyrir að hafa opnað atkvæðaumslag Guðrúnar Halldórsdóttur. Atkvæði þetta var ekki tekið gilt af kjörstjórn, vegna þess að rjettur maður, hreppstjóri, hafði ekki vottað um kosninguna. Var kjörstjórnin vitanlega í fullum rjetti þar. En nú hafði samskonar kæruatriði frá annari kosningu legið fyrir kjörbrjefadeildinni, og hún orðið ásátt um að láta þennan galla við svo búið standa í þetta skifti, einkum þar sem vitanlegt var, að þetta var mjög víða brotið um alt land. Áleit deildin því rjett, að sömu reglu yrði fylgt með þessa kosningu. Þess vegna taldi deildin rjett, að atkvæði Guðrúnar Halldórsdóttur bæri að taka gilt, og því væri rjett að opna umslagið og sjá hverjum atkvæðið tilheyrði. Jeg kann illa við, að kjörbrjefadeildin sje ávítuð fyrir það, sem hún hefir rjett gert.

Þá er hitt, að 2 eða 3 kjósendur hafi kosið á tveim stöðum. Jeg og allir aðrir hv. þm. í kjörbrjefadeildinni litum svo á, að við þessu gætu kjörstjórnir ekki gert. Samkv. 32. gr. kosningalaganna eru kjörstjórnir skyldar að taka á móti atkvæðum allra þeirra, sem á kjörskrá standa. Ef hjer er um brot að ræða, þá er það af hálfu kjósandans, en ekki kjörstjórnar.

Þá vil jeg fyrir mína hönd og allrar kjörbrjefadeildarinnar mótmæla því, að hún hafi verið hlutdræg í úrskurðum sínum. Hún kom sjer t. d. saman um að taka gild atkv., sem á stóð: „Haraldur Gummuson“, „Gumundsson“, „Göðmundsson“ o. s. frv., sem að dómi hv. 2. þm. Reykv. ættu líklega öll að teljast ógild. Einnig vildi hún taka gild atkv.: „Herra Haraldur Guðmundsson“ og „Sigur Sigurjón Jónsson“, en í engu myndi það breyta úrslitum.

Hvað sem segja má um það, hvort rjett væri af kjörstjórnum að ógilda öll vafaatkv., þá er hitt víst, að Alþingi hefir undanfarið gengið hina brautina. Hafa úrskurðir þess allir á síðari árum verið bygðir á því, hvort vilji kjósandans kæmi greinilega í ljós eða ekki. Þau atkvæði hafa verið úrskurðuð gild, sem sjá hefir mátt á, hvern kjósa átti, enda virðist það sanngjörn regla.

Þá skal jeg geta þess, að það var einróma álit kjörbrjefadeildarinnar, að hvorki undirkjörstjórnir nje yfirkjörstjórn Ísafjarðar hafi beitt hlutdrægni við umræddar kosningar.