28.04.1924
Efri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

56. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaðar við alþingiskosningar

Frsm. (Jónas Jónsson):

Jeg held, að hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) taki þetta helst til óstint upp vegna hreppstjóranna. En það er alveg óþarfi. Þetta er engin árás á þá, heldur á fyrirkomulagið sjálft, því það er óneitanlega freisting fyrir þessa mörgu menn að fara ógætilega með þetta vald sitt. Mjer er kunnugt, að það er víða mikil óánægja meðal manna út af þessu fyrirkomulagi, óánægja, sem ekki er bundin við nein viss nöfn, heldur risin upp vegna þess, að menn eru komnir að þeirri niðurstöðu, að fyrirkomulagið sje í eðli sínu ólæknandi, þegar ca. 200 mönnum eru fengin kjörgögn í hendur og þeir látnir tala við sjúka menn og sjá um, að þeir kjósi. Sje þetta borið saman við þá venjulegu kjörathöfn, sem reynt er að gera eins ópersónulega og mögulegt er, þá sjer maður þegar, hversu ólíkur blær er á báðum þessum kosningaathöfnum. Jeg hefði verið með því að vísa máli þessu til stjórnarinnar, ef jeg áliti það ekki gagnslaust. Undirstaða málsins er svo sjúk, að hún verður ekki læknuð með stjórnarráðsrannsókn. Þó að jeg sætti mig við, að stóra kosningafrv. verði vísað til stjórnarinnar, þá er alt öðru máli að gegna um þetta, þar sem jeg álít, að þetta hafi í fyrra verið samþykt meira sem tilraun en til frambúðar. Jeg greiði því atkvæði með frv., því jeg er sannfærður um, að heimakosningar verða aldrei framkvæmanlegar, svo að gagn sje að.