17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

29. mál, hæstiréttur

Frsm. (Jón Magnússon):

Ræða hæstv. forsrh. (SE) hefir í raun og veru ekki gefið mjer tilefni til andsvara. En því vil jeg svara bæði honum og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), að jeg get ekki skilið, að það á nokkurn hátt geti rýrt álit hæstarjettar, þó að dómendur kjósi sjer sjálfir dómsforseta. En telji hv. þm. Seyðf. þetta mjög óheppilegt ákvæði; getur hann komið með brtt. til 3. umr., því að jeg þori ekki fyrir nefndarinnar hönd að lofa því, að þetta atriði veiði fært í það horf, er hann óskar. En hvernig fer um þetta, tel jeg ekkert aðalatriði.

Þá get jeg heldur ekki fyrir nefndarinnar hönd sagt, hvað gera eigi við ritara hæstarjettar, ef embættið verður lagt niður. En jeg þykist vita, að nefndin telji núverandi hæstarjettarritara eiga alt gott skilið. En þar sem hann er maður á besta aldri og mjög vel starfhæfur, er þess að vænta, að hann þurfi ekki að bíða lengi þar til hann gæti fengið embætti aftur.

Það var mikið talað um það í launanefndinni, hvernig ætti að fara með menn, er svona stæði á um. Og kom öllum saman um, að ekki væri hægt að setja þá á biðlaun, þegar eftirlaunin væru afnumin, því að það væru greinar af sama stofni. En nefndinni kom aftur saman um, að væri embætti lagt niður, þá kæmi það til kasta þingsins, og því yrði að treysta, að það gerði vel við manninn, ef embætti hans væri lagt niður. En allshn. hefir ekki tekið afstöðu til þessa.

Hvað snertir hinn skriflega málaflutning, sem hv. þm. Seyðf. var að tala um og taldi mjög æskilegan, get jeg vísað til nefndarálitsins, því að þar sjest, að nefndin er ekki fjarri þeirri breytingu og hyggur, að það, sem hún leggur til, megi mikið bæta úr þeirri misfellu og sje stórt spor í áttina að hafa skriflegan málaflutning við hæstarjett. Því að jeg býst við, að rjetturinn muni verða fús að breyta til og taka upp hinn skriflega málaflutning, ef þess væri óskað.