01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

1. mál, fjárlög 1925

Þorleifur Jónsson:

Jeg á eina brtt. á þskj. 261, um 10 þús. kr. hækkun til flóabáta. Í fjárlögum þessa árs eru áætlaðar 75 þús. kr. til flóabáta. Mun það vera verkefni samgmn. að úthluta þessum styrk. Jeg hefi heyrt, að búið hafi verið að úthluta 52 þús. kr., aðallega til tveggja báta, áður en þing kom saman, svo nefndin hafi aðeins fengið 23 þús. kr. til úthlutunar, og hefi jeg ekki heyrt, hvernig sú skömtun hafi gengið. Býst jeg við, að það hafi gengið erfiðlega, og mun þá ekki síður erfitt að úthluta á næsta ári aðeins 60 þús. kr. til sömu ferða.

Það er nú auðsætt mál, að bátastyrkurinn sem í frv. stendur fyrir 1925, er alt of lítill, því víðar þarf að styrkja bátaferðir en á Faxaflóa og Ísafjarðardjúpi. Flestir munu vera samdóma um það, að ekki megi draga mikið úr samgöngum á sjó, þó að þröngt sje í búi hjá ríkissjóði. Hagur landsins batnar síst við það, að sumir landshlutar verði samgöngulausir eða samgöngulitlir á sjó, enda hefir fjvn. sýnt, að hún viðurkennir þetta, með því að nema ekki mjög við nögl sjer styrkveitingar til samgangna á sjó, þar sem hún leggur til, eftir tilmælum Eimskipafjelags Íslands, að styrkurinn til Esju verði hækkaður um 80 þús. kr. Þá hefir hún enn komið inn í fjárlögin 45 þús. kr. styrk til Goðafossferðanna og leggur þar að auki til, að stjórninni verði heimilað að greiða fjelaginu enn 60 þús. kr., ef þörf gerist. Fjvn. hefir þannig viljað sýna, að hvað sem öðru liði, yrði þó að sjá landsmönnum fyrir þolanlegum samgöngum.

Jeg skal játa það, að fyrir mjer vakir meðfram sú ástæða, að verði þessi styrkur aukinn, býst jeg frekar við, að Austfirðingar, og þá sjerstaklega Hornfirðingar, hefðu meiri not af honum. Allar þær samgöngur, sem jeg hefi sjeð, að ætlaðar sjeu Austur-Skaftfellingum á þessu ári, eru 4 Esjuferðir, einu sinni í austurleið og þrisvar í suðurleið. Þetta er að vísu betra en ekki neitt, en þó eru 4 ferðir um hásumarið alveg ófullnægjandi. Auk Esjuferðanna þarf Hornafjörður að fá einhvern styrk til samgangna seinni hluta vetrar, frá vertíðarbyrjun fram í maímánuð, og eins að haustinu. Á seinni árum hefir allmikil útgerð verið í Hornafirði, og nú munu um 30 vjelbátar ganga til fiskjar þaðan, flestir af Austfjörðum. Menn, sem fara þangað til sjósóknar, þurfa auðvitað að fá ferðir til þess að komast heiman og heim, og enn er nokkur vöruflutningur, sem annast þarf um þetta leyti, salt- og beituflutningur, flutningur á fiski austur, flutningur á pósti o. s. frv. Nú hefir komið beiðni frá útgerðarmönnum í Hornafirði um 8000 kr. styrk til bátaferða í vetur og vor, og sendi jeg hana til hv. samgmn. og brjef með, þar sem jeg fór fram á, að styrkur yrði veittur til bátaferða síðla vetrar og vor, og svo að haustinu; en eftir till. nefndarinnar að dæma, virðist hún ekki hafa tekið undir þessa málaleitun. Þó munu allir menn geta skilið, að brýn nauðsyn er á samgöngum milli Hornafjarðar og Austfjarða um þetta leyti. Að haustinu þurfa einnig að vera ferðir til flutninga að og frá verslunum, til þess að flytja afurðir út og nauðsynjavörur inn. Síðastliðið haust voru 5000 kr. veittar til ferða milli Austfjarða og Hornafjarðar, og má þá heita viðunandi, ef ríflegur styrkur fengist einnig til vetrar- og vorferða.

Af nál. meiri hl. samgmn. sje jeg, að aðeins 4000 kr. eru ætlaðar til bátaferða „milli Hornafjarðar og Austfjarða, þar með Lagarfljótsbátur.“ Jeg verð að játa, að mjer kemur undarlega fyrir sjónir, að Lagarfljótsbátur skuli tekinn þarna með, og veit jeg ekki, hve mikinn hluta styrksins hv. meiri hl. samgmn. ætlar honum. Sje það eitthvað, t. d. 500–1000 kr., tel jeg lítið gagn af styrk þeim, sem ætlaður er til samgangna við Hornafjörð. Nefndin ætlast að vísu til, að þessum styrk sje aðeins varið til flutningaferða að haustinu, en það er mjög órýmilegt að veita ekki einnig styrk til vetrar- og vorferðanna, þar sem um mikla nauðsyn er að ræða, eins og jeg hefi áður lýst. Það er ekki hlaupið að því að fá bát til þessara ferða, nema fyrir talsverða upphæð. Útgerð vjelbáta er enn mjög dýr, mannahald kostnaðarsamt og olía ennþá í háu verði, svo að kröfur bátanna hafa ekki lækkað mikið, þegar um fáar ferðir er að ræða. Í hitt eð fyrra voru 29000 kr. veittar til þessara ferða, og minnist jeg þess, að útgerðarmaðurinn kvartaði sáran undan því, að hann hefði skaðast á útgerðinni.

Jeg býst við því, að verði styrkurinn til bátaferða hækkaður um 10000 kr., muni sæmileg upphæð geta fengist til haustferðanna á þessum, slóðum, og einhver töluverður styrkur til ferða seinni hluta vetrar og vor. Það var með þetta fyrir augum, sem jeg flutti hækkunartillöguna, er jeg vænti, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja.

Jeg býst við því, að styrkurinn, sem bátnum Skaftfellingi er ætlaður, sje heldur lágur, og verði því að hækka hann. Jeg teldi ágætt, ef komast mætti af með þær 18000 kr., sem hv. minni hl. samgmn. hefir ætlað til ferða á Faxaflóa, en smeykur er jeg um, að enginn bátur muni fást til þess að taka ferðirnar að sjer fyrir þá upphæð, og má því ekki reiða sig á, að ekki þurfi við hana að bæta. Tel jeg því vissara að áætla 70 þús. kr. til bátaferðanna alls. Það er 5000 kr. minna en veitt er á þessu ári, og þar sem það reynist fullerfitt að úthluta þeim styrk, hygg jeg þetta síst of hátt. Það er eflaust það allra minsta, sem það má vera.