16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2223 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

109. mál, skattgreiðslu hf Eimskipafélags Íslands

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Hv. þm. Ak. (BL) hefir tekið fram sumt af því, sem jeg ætlaði að segja, og get jeg því verið stuttorðari en ella.

Mjer hefði ekki komið á óvart, þótt hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefði haldið þá ræðu, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hjelt áðan, en mjer kom hún mjög á óvart úr þeirri átt. (MJ: Er hv. þm. að óska eftir því, að jeg taki einnig til máls? Sje svo, þá skal sú bón fúslega veitt). Nei, þess er víst engin þörf. Mig furðaði einkum á því, þegar hv. 2. þm. Reykv. hjelt því fram, að þingið væri hjer að seilast inn á svið, sem Reykjavíkurbæ bæri einum að ráða. Að þetta olli mjer slíkrar furðu, stafar af því, að jeg veit ekki betur en að hv. þm. hafi fyrir skömmu síðan samþykt frv. mjög svipað þessu. Það var frv. um útsvar ríkisstofnana. Hann hefir víst einnig greitt atkvæði með samvinnulögunum, þar sem einnig er ákvæði um undanþágu frá útsvarsskyldu. Hv. þm. hjelt því fram, að ef þetta yrði samþykt, þá myndu fleiri koma á eftir, t. d. togarafjelögin o. fl. Slíkt held jeg að ekki geti með nokkru móti komið til greina. Það er nefnilega mjög mikill munur á gróðafyrirtækjum einstakra manna og slíku þjóðþrifafyrirtæki sem þessu. Þótt nú sje ef til vill svo komið, að talsvert af hlutum fjelagsins sje á höndum fárra manna, þá var fjelagið upphaflega stofnað sem þjóðþrifafyrirtæki, og það hefir til þessa verið rekið sem slíkt.

Hv. þm. (JBald) sagði, að þá ætti heldur að veita fjelaginu beinan styrk úr ríkissjóði. Jeg veit nú ekki betur en að ríkið geri þetta. Verði brtt. meiri hluta nefndarinnar samþykt, þá verða þessi lög bara til þess að tryggja það, að Reykjavíkurbær geti ekki sýnt fjelaginu neitt ranglæti. Og get jeg ekki sjeð, að neitt sje hægt að hafa á móti því. Hv. þm. sagði, að þetta væri sama sem að taka lamb fátæka mannsins. Sú líking á hjer alls ekki við. Það er ómögulegt að líkja Reykjavíkurbæ við fátæka manninn, en Eimskipafjelaginu við hinn ríka. Því mun frekar vera öfugt varið.

Þá kvaðst hv. þm. efast um, að umráðin yfir fjelaginu væru hjá þjóðinni. Jeg veit nú ekki betur en að ríkisvaldið hafi mikil ráð um stjórn fjelagsins. Að vísu fer atkvæðamagn eftir fjármagni hluthafa, en ríkið hefir trygt sjer þann íhlutunarrjett, að það ætti með öllu móti að vera fullkomlega trygt.

Þá kem jeg að því, sem í rauninni er mergurinn málsins, en það er, að hv. þm. kvað ekki hafa verið gengið neitt á rjett fjelagsins í álagningunni. Það geta nú náttúrlega verið nokkuð skiftar skoðanir um það, hvað menn kalla að ganga á rjett, en eftir því, sem það er venjulegast skilið, þá held jeg, að það hafi einmitt átt sjer stað hjer. Jeg gat þess áðan, að það útsvar, sem lagt hefði verið á fjelagið, hefði, samkvæmt brjefi borgarstjóra, verið 8,7% af nettóágóða fjelagsins. Þótt jeg rengi nú ekki þessa tölu, þá er samt nokkuð mismunandi, við hvað er miðað, er talað er um nettóágóða. Jeg hefi nú fengið upplýsingar um, að ágóðinn hafi verið talinn áður en afskrifað hafi verið af verði skipanna. Eins og menn vita, nemur það 3%, sem afskrifað er, og þegar búið er að því, lítur ágóðinn nokkuð öðruvísi út. Sje litið á málið frá þessari hlið, þá verður útsvarið mjög hátt — og það er í rauninni ómögulegt að líta á málið frá annari hlið. Jeg veit að vísu ekki mikið um útsvör hjer í bænum, en jeg á bágt með að skilja, að svo mikið sje hlutfallslega lagt á aðra gjaldendur bæjarins. Jeg hefi hjer fyrir framan mig tölur, sem sýna þetta að nokkru, en jeg sje ekki beina ástæðu til þess að lesa þær upp. Þó vildi jeg benda á þær.

Eins og jeg gat um áðan, þá þykir mjer, þegar teknar eru til greina brtt. meiri hl., sem kenni helst til mikillar eigingirni hjá hv. þm. Reykv. vegna síns kjördæmis, ef þeir geta ekki fallist á frv. með þeim breytingum. Jeg ætla því að vona, að þeir sjái sig um hönd.