15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

130. mál, útsvarsálagning erlendra vátryggingafélaga

Tryggvi Þórhallsson:

Þó að hæstv. fjrh. (JÞ) sje nú sestur í helgan stein í þessu máli, verð jeg að ónáða hann, vegna þess að jeg varð of seinn til þess við 1. umr. þessa máls; en mjer kemur það afarkynlega fyrir sjónir, hvernig hæstv. fjrh. hefir snúist við þessu máli. Þegar hjer var fyrir þremur árum síðan rætt um skattfrelsi samvinnufjelaganna, sem þó eru ólík þessum fjelögum, hafði þessi sami hv. þm. á móti því, og var þó sýnt, að þau gyldu með því móti tvöfaldan skatt. En nú þegar beiðni er fram komin frá innlendu fjelagi um að rjetta hlut þess gegn erlendum keppinautum, rís hæstv. fjrh. öndverður upp móti þessu frv. og vill á engan hátt líða það, að stuggað verði nokkuð við þessum erlendu fjelögum, sem reka svo arðsama atvinnu hjer á landi. Jeg hefi lagst á móti því, að Reykjavíkurbær næði sjer í útsvarstekjur af Landsversluninni og öðrum slíkum þjóðþrifafyrirtækjum, en þegar erlend gróðafyrirtæki eiga í hlut, vil jeg sannarlega hjálpa til, að náð verði í skottið á þeim, þar sem hver eyrir af gróða þeirra færi ella út úr landinu. Tel jeg það vera beina skyldu Alþingis að hjálpa Reykjavíkurbæ til að ná útsvörum af þessum og öðrum því líkum fjelögum.

Það er meira að segja svo, að hjer eru margar erlendar verslanir í bænum, en eigendur þeirra sitja í Kaupmannahöfn og þangað fer ágóðinn af versluninni. Jeg gæti fyrir mitt leyti gefið Reykjavík undir fótinn með það, að stuðla að því, að sjerstakur skattur yrði lagður á slíkar verslanir og styðja með því hina innlendu verslunarrekendur og þá kaupmenn, sem hjer eiga heima, því þeir nota það fje, sem verslunin gefur þeim í aðra hönd, til þess að veita fólki hjer atvinnu, þó ekki sje nema við það að gefa hjer út blöð, sem hvort sem er hafa ekki meiri áhrif en svo, að þau geta talist saklaus. Og loks vil jeg geta þess, út af því, sem hæstv. fjrh. sagði, að þessi útsvarsálagning gæti orðið til þess, að öll iðgjöld hækkuðu, að jeg álít svo mikla nauðsyn á því, að vátryggingarstarfsemin verði sem fyrst innlend, að það sje ekki nema gott, ef þessi skattur gæti flýtt fyrir því.