05.05.1924
Neðri deild: 63. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2362 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Jeg vil aðeins taka það fram, að sje frv. sjálft varhugavert, eins og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) talaði um, þá eru hans brtt. miklu varhugaverðari. Það eru nefnilega bankarnir, sem öllum framar eiga aðild þessara mála. Og tilgangurinn með frv. er auðvitað sá, að tryggja gengið og koma í veg fyrir skaðlegar sveiflur á því, og með eftirliti sínu með gjaldeyrinum ætti nefndin að geta spornað við því, að af vöntun á gjaldeyri hlytust á örðugum tímum þau vandræði, sem valdið gætu meira falli. Og kæmust bankarnir í kreppu með yfirfærslur, þá ætti hún að geta skipað svo málum, að ekki hlytust vandræði af. Hvað þagnarskyldu nefndarinnar viðvíkur, þá getur það ekki komið til mála, að henni sje gefið leyfi til að blaðra í allar skattanefndir á landinu um fjárhag einstakra manna. Annars er mjer ekki kunnugt um, að menn hjer búsettir starfi með fje sitt erlendis. Jeg hygg, að slíkt sje heldur fágætt.

Þá vil jeg að lokum leggja áherslu á það, að til örþrifaráða sem þessara — en það kalla jeg þegar gjaldeyrir er tekinn af mönnum, — eigi ekki að grípa fyr en sjeð verður, að þess sje full þörf. Hv. 2. þm. Reykv. er auðvitað á gagnstæðri skoðun. Hann vill grípa hvert tækifæri til þess að taka fram fyrir hendurnar á mönnum og vill gera leik að því að kreppa að frjálsum atvinnurekstri. Slíkt er auðvitað hreinn sósíalismi og andstætt stefnu okkar hinna, svo lengi sem eignarrjetturinn er viðurkendur. En einstakra manna eignarrjett álítum við ekki rjett að skerða í þágu þjóðfjelagsins nema ýtrasta nauðsyn krefji.