27.02.1924
Neðri deild: 9. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (1816)

31. mál, fiskveiði í landhelgi

Sigurjón Jónsson:

Hv. flm. frv. þessa (ÁF) hefir nú lýst því, hvernig sjútvn. klofnaði í málinu. Við, sem erum í meirihluta, leggjum til, að frv. verði felt, en það, sem jeg hefi nú á móti frv. að segja, tala jeg þó aðeins fyrir eigin munn og á minn kostnað.

Jeg skal þá fyrst taka það fram, að frv. þetta er ekki rjett orðað, því það hefði átt að vera frv. til laga um heimild handa stjórninni til að veita undanþáguna, og á þeim grundvelli tel jeg mjer óhætt að ræða um frv., en stjórnin mun telja sjer skylt að veita hana samkvæmt yfirlýstum vilja þingsins.

Markmið fiskiveiðalöggjafarinnar frá 19. júní 1922 var það, að vernda þessa atvinnu fyrir oss sjálfa og tryggja oss nokkra sjerstöðu gagnvart erlendum þjóðum, sem reka hjer við land samskonar atvinnuveg. Og það var ekki að ástæðulausu og út í bláinn, að þau lög hafa verið sett, því að þau eru endurtekning af eldri lagaákvæðum um þessi sömu efni og sprottin af langri reynslu. Og það mun mála sannast, að hefðum vjer haft allar dyr opnar, þá hefði oss aldrei tekist til lengdar að halda uppi samkepninni við aðrar þjóðir. Enda gengu lögin frá 1922 gegnum þingið með almennu fylgi háttv. þm. þá, svo sýnilegt er, að þeim hefir verið ljós nauðsynin á að grípa hjer í taumana. Og sú hefir raunin orðið á, að vinsælust hafa lögin orðið meðal þeirra manna, sem annast láta sjer um þennan atvinnuveg, útgerðina, en það eru útgerðarmenn. Og þó lögin hafi mestmegnis tekið upp eldri lagaákvæði og fyrirmæli, þá hafa þau orðið þar skýrari og ákveðnari og almenningi um leið kunnari.

Viðvíkjandi því, sem tekið hefir verið fram, að hv. þm. þeim, sem þá sátu á þingi, hafi varla verið ljóst, hvað þeir voru að gera með lögunum, þá get jeg ekki farið að taka það alvarlega, því jeg er þess fullviss, að allflestir þm. hafi alls ekki verið í neinum vafa um, tilhvers lögin tækju, þó jeg hinsvegar vilji ekki bera neinar brigður á játningu hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að honum hafi verið það óljóst. Það sem hjer með þessu frv. er farið fram á, er þá það, að slegið verði af þessum verndarlögum, og jeg vænti, að flestir háttv. þm. sjeu sömu skoðunar og jeg í því, að ekki sje um að ræða neina lítilfjörlega tilslökun á ómerkilegum pappírslagabókstaf, eins og hv. flm. (ÁF) var svo óheppinn að láta sjer um munn fara, heldur sje með þessu verið að rýra í stórum stíl mikilsvarðandi verndarlög, sem mjer er fullljóst, að standa á heilbrigðum grundvelli og sem fjárhagslegt sjálfstæði vort á í eina sína veigamestu stoð.

Jeg get heldur ekki gert lítið úr afleiðingum þeirrar stefnu, sem þetta frv. felur í sjer. Háttv. flm. sagði, að hjer væri aðeins um lítilfjörlega tilhliðrun að ræða. En sjeum við einu sinni komnir inn á þá braut, verður erfitt að láta staðar numið. Færi svo, að við sýndum þá tilhliðrunarsemi við Hafnfirðinga, að við veittum þeim þessa undanþágu, býst jeg við að aðrir komi á eftir, og verður þá erfitt að neita þeim um það, sem Hafnfirðingum var leyft. Í öðru lagi segir heilbrigð skynsemi oss, að ef vjer veitum borgurum einnar þjóðar, sem vjer njótum „bestu kjara“ hjá, einhverjar ívilnanir, verður oss óhægt að neita borgurum annarar þjóðar, þar sem eins stendur á, um samskonar hlunnindi. Jeg tel sjálfsagt, að hæstv. stjórn gefi upplýsingar um þetta atriði, að því leyti sem það viðkemur viðskiftum vorum við erlend ríki. En mjer sjálfum er það fullljóst, að erfitt muni að stöðva sig á þessari braut; því er svo varið um þetta, að ef vjer rjettum út litla fingurinn, er þegar tekið í alla höndina. En ef svo fer, eru verndarlög annars aðalatvinnuvegar þjóðarinnar orðin að hjegóma. Jeg lít svo á þetta mál, að hjer sje um raunverulegt sjálfstæðismál þjóðarinnar að ræða, og jeg vitna til þess, sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði í einni ræðu sinni í gær, að þá væri eigi verið að ræða um raunverulegt sjálfstæðismál. Skil jeg því ekki í öðru en að bæði háttv. þm. Str. og aðrir, sem hafa svipaðan hugsunarhátt og hann, álíti þetta mál, sem hjer ræðir um, raunverulegt sjálfstæðismál. Efa jeg því ekki, að þeir menn, sem meta mest fjárhagslegt sjálfstæði í atvinnuvegum sem öðru, sjeu mjer sammála um þetta. Þá sýnist mjer sem háttv. flm. þessa frv. slái niður sín eigin rök með greinargerðinni fyrir frumvarpinu. Þar stendur, að atvinnuleysisvandræði Hafnfirðinga stafi af því, að erlendir menn hafi rekið þar atvinnu um alllangt skeið, en síðan horfið þaðan á braut, og standi því vinnulýður bæjarins eftir atvinnulaus. Þykir mjer það vera að slá niður sín eigin rök, að háttv. flm. leggur til með þessu frv., að haldið sje aftur inn á þá sömu braut, sem svona hefir gefist. Jeg hygg, að heppilegra væri að taka alveg nýja stefnu í þessu máli og sporna heldur við því, að erlend togaraútgerð kæmi þar aftur. 6 togarar í viðbót við það, sem þar er, hlýtur að þurfa fleira verkafólk en Hafnfirðingar geta látið í tje, og afleiðingin yrði sú, að ennþá fleira verkafólk flyktist þangað að úr nærsveitum og ef til vill víðar að, og að síðustu mundi það enda með því að standa atvinnulaust eftir, eins og nú hefir átt sjer stað. Því eigi munu Hafnfirðingar geta ráðið því, hversu lengi þessi atvinna varir, fremur en hingað til. Háttv. flm. tók það rjettilega fram, að nú væru erfiðir tímar til þess að byrja ný atvinnufyrirtæki, en þó þurfi þeirra með, til þess að bjargast úr þessum vandræðum. En jeg lít svo á, að með því að veita þessa undanþágu, tefjum vjer fyrir því, að stofnað verði þar til nauðsynlegra framkvæmda á þjóðlegum grundvelli. Komi þessir 6 erlendu togarar, dregur það dug úr mönnum að byrja á innlendum fyrirtækjum. Það er að vísu satt, að tímarnir eru erfiðir, þegar peningar eru í jafnlágu verði og þeir eru nú, en rentur háar. Samt vil jeg segja það sem mína sannfæring, að svo hefir þó lýst framundan, að nú væri ekki óálitlegt að hefjast handa, ef unt væri. Hinsvegar vona jeg, að eitthvað muni rætast úr fyrir Hafnfirðingum, þó þetta frv. verði felt. Hefi jeg dálitla ástæðu til þeirrar vonar, enda þótt jeg eigi geti eða hafi heimild til að segja hv. þingdeild frá því, á hvern hátt það megi verða. Það er svo langt fjarri öllum sanni, að fiskiveiðalögin frá 1922 sjeu ómerkilegir pappírsbókstafir; öllu fremur eru þau hornsteinar undir sjávarútvegi okkar og skilyrði fyrir því, að þessi atvinnuvegur dugi okkur og komi þjóð okkar að fullum notum. Þess vegna hika jeg eigi við að leggja það til við hv. þingdeild, að þetta frv. verði felt.