20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (1878)

82. mál, samvinnufélög

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg verð að segja, að það er ekki í mína þágu, að alt er nú komið í bál og brand út af þessu máli, en þær umræður eru algerlega fyrir utan þetta frv., sem hjer liggur fyrir. En það er eins og ekki sje hægt að minnast svo á þetta mál, að alt sje ekki komið í bál og brand.

Hv. þm. Str. (TrÞ) þóttist ekki geta skilið, hver hagnaður væri að því fyrir okkur að fylgja fram þessu máli. En þá verð jeg að segja það, að mjer er engu síður óskiljanlegt, hvaða ávinning samvinnumenn sjá sjer í því, að snúast í móti þessu máli, sem miðar áreiðanlega, eins og jeg hefi þrásinnis sýnt fram á, til þess að auka samvinnufjelagsskapinn, tryggja hann og færa hann út á víðara svið. En út af orðum háttv. 2. þm. Eyf. (BSt) um það atriði, að þjóðfjelagið hefði rjett til þess að miða þau rjettindi, er það veitti þessum fjelagsskap, við ákveðið skipulag, þá er auðvitað, að þjóðfjelagið veiti því fyrirkomulagi styrk og rjett, sem hefir reynst að miða til bestra þrifa fyrir fjelagsskapinn, og það er einmitt það fyrirkomulag, er hjer um ræðir.

Háttv. þm. sagði ennfremur, að sameiginleg ábyrgð væri nauðsynleg til að tryggja lánstraustið út á við, en þessu er alls ekki svo varið með Kaupfjelag Borgfirðinga. Það nýtur fullkomins lánstrausts, þrátt fyrir það, þó ábyrgðirnar sjeu ekki nema fyrir hverja deild, en hitt er vitanlega aðalatriðið, að viðskiftin sjeu rekin á hyggilegum grundvelli.

Háttv. þm. Str. (TrÞ) vildi draga það út af orðum háttv. þm. Mýra. (PÞ) um fyrirkomulag Kaupfjelags Borgfirðinga, að ákvæðið um samábyrgð hefði aldrei verið annað en pappírslög. Það er undarleg þrákelkni þetta, þegar búið er að lýsa því ótvírætt yfir þrásinnis, að fjelagið starfaði í 5 ár undir þessu fyrirkomulagi. Háttv. þm. Str. sagði, að ef þetta hefði ekki verið tómt pappírsákvæði, þá hefðu bankarnir ekki látið samábyrgðina lognast út af. En bankarnir hafa aldrei haft yfir neinu að klaga, því fjelagið hefir altaf staðið í skilum. Það, sem hallaði undan fæti fyrir fjelaginu um tíma, meðan það starfaði á grundvelli hinnar sameiginlegu ábyrgðar, er nú fullkomlega jafnað, og nýtur fjelagið óskoraðs trausts.

Hv. þm. Mýra. (PÞ) var að benda á það, að menn yrðu í þessu máli að gera upp með sjer, hvort væri meira virði, þessi ívilnun og það hagræði, sem henni fylgdi, eða glundroðinn, sem hún kynni að valda fyrir samvinnufjelögin. Það virtist nú sem þessi hv. þm. (PÞ) væri ekki alveg ugglaus um, að þetta gæti leitt til glundroða á samvinnulögunum. En á þingi í fyrra tók hann það skýrt fram, að þetta gæti ekki valdið neinum glundroða, og á það vitanlega alveg eins við nú og þá, og hygg jeg, að þar liggi aðrar orsakir til, að hann er nú ekki svo skeleggur í þessu máli eins og hann var á síðasta þingi.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) gekk í gegnum hreinsunareldinn í fyrra í þessu máli, og getur verið, að það hafi vakið hjá honum einhverjar óþægilegar endurminningar nú.