19.03.1924
Efri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (1915)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Mjer finst það ekki hlýða, að þetta mál fari svo úr deildinni við 3. umr., að ekki sje enn minst á, hve óviðurkvæmileg þessi ráðstöfun er, sem hjer er farið fram á. Jeg vil sjerstaklega benda á, að gera mætti ráð fyrir, að núverandi meirihl. hv. deildar vildi spara í þinghaldi alt sem spara má, þar sem sá sami hv. meirihl. grípur nú til þess óyndisúrræðis, sem það er, að fella niður úr útgáfu Alþingistíðindanna umræðupartinn, verk, sem út hefir komið síðan Alþingi var endurreist. En það er einmitt sá sami meirihl., sem ræður því, að mörgum þús. kr. er eytt að óþörfu í þinghaldið. Hefði þessum hv. meirihl. verið alvara með að spara, hefði hann átt að athuga, hvort ekki væri hægt að hverfa til gamalla og góðra siða, sjerstaklega hvað starfsmannahaldið snertir. Það var þessi sami hv. meirihl., sem rjeð kosningu forseta og gat þannig haft ráðin í hendi sjer um þessi mál. Jeg vil benda á, að síðan kaup var svo hátt sem það er nú, var sjálfsagt að halda ekki fastlaunaða þingskrifara, heldur gera þingskriftirnar að samningsvinnu. Það er öllum kunnugt, að í fyrra höfðu þingskrifararnir í Ed. ekkert að gera langt fram eftir þingi. Vitanlega á þingið að haga sjer eins og hver hagsýnn vinnuveitandi mundi gera, og reikna út, hve langan tíma miðlungs þingskrifari er að vinna úr og ganga frá hálftíma ræðu. Eftir því á að greiða fyrir það. Sýnir best aðsóknin að þessu starfi, að auðvelt hefði verið að fá nógu marga til þess, þótt þessi leið hefði verið farin. En jeg er sannfærður um, að með þessu hefði sparast helmingur af kaupi skrifaranna. Eru stöðugt að hrúgast upp fleiri og fleiri embætti hjer. Árið 1900 voru aðeins 2–3 þingsveinar. Nú má varla þverfóta fyrir þeim. Má jeg síst skilja, hver er þörf á þessum fjölda, því að starf þeirra ætti ekki að þurfa að vera mikið annað en að hlaupa á milli prentsmiðjanna og þinghússins. Og jeg geri ráð fyrir því, að við kæmumst af án flestra þeirra, og munum við ekki vanir því að hafa marga þjóna hversdagslega. Teldi jeg fullnóg þótt þingsveinar væru ekki fleiri en um aldamótin. Við talsímann hjerna eru hafðir tveir verðir, sem hafa hátt upp í þingmannskaup. Mundi duga að hafa þar dreng með lítið kaup, en nú eru þar 2 stúlkur. Smátt og smátt hefir á skrifstofunni verið fjölgað mönnum meira en þörf var á. Auk þess hefir skrifstofustjórastarfið verið gert að föstu embætti. Skjalavörður er nú sjerstakur maður, og á lestrarsal eru nú tvær stúlkur. Jeg vil skjóta þessu til forsetanna tveggja, sem hjer eru í deildinni, að það eru ekki síst hinir mörgu starfsmenn Alþingis, sem nú halda uppi þinkostnaðinum. Dettur mjer í hug: „maður líttu þjer nær.“ Það hafa heyrst raddir um það, að þessi störf bæri að skoða sem sjerstaka atvinnugrein fyrir Reykjavík. Og verður ekki sjeð, að hinn sparsami meirihl. hafi fallist á skoðun þessa.

Svo jeg viki að frv., er eitt, sem enn hefir ekki verið athugað. Það er gert ráð fyrir, að ef hætt yrði að prenta umræðupart Þingtíðindanna, þyrfti að hreinskrifa nokkur eintök af ræðunum. Mundi það eitt kosta nokkur þúsund krónur. Þótt feld yrði niður útgáfa Þingtíðindanna nú, yrði það að eins um stundarsakir. Þau yrðu prentuð aftur eftir skamma stund, og væri þá öllu því fje kastað á glæ, sem eytt yrði til að afskrifa ræðurnar, því að til prentunarinnar þarf ekki nema eitt eintak. Þessir sömu menn og konur, sem standa að þessu sparnaðarfrv., sýna enga sparsemi í starfsmannahaldi við þingið, þar sem þó auðveldlega mætti spara stórmikið fje.

Við 1. umr. þótti það goðgá, er því var hreyft, að það hefði ekki verið merkilegra atriði en prentsmiðjustyrjöld, sem komið hefði þessu máli af stað 1909. Þetta er staðreynd. En jeg tek það sem dæmi, að það hafa aldrei verið nema lítilfjörlegar ástæður, meira að segja auðvirðilegar, sem hafa valdið því í hvert skifti, að menn hafa viljað loka þinginu og leyna kjósendur því, sem þar fer fram.

Jeg vildi óska þess, að þessi fjórða tilraun yrði sú síðasta, og að þetta mál kæmi aldrei framar á dagskrá þingsins.