15.03.1924
Efri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (1943)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Jeg get verið hv. frsm. meirihl. sammála um það, að langar ræður hafi hjer yfirleitt ekki mikið að þýða, því að þær breyta ekki afstöðu manna til málsins. En að því leyti, sem hjer koma fram ólíkar skoðanir, verður ekki hjá því komist að gera grein fyrir þeim frá báðum hliðum.

Við höfum búið við það fyrirkomulag frá því Alþingi var endurreist, að hafa þing aðeins annaðhvert ár. Altaf varð samt við og við að halda aukaþing. En eftir 1910 var altaf haldið þing á hverju ári, og einusinni tvisvar á ári, og að síðustu var það lögfest, að þing skyldi vera á hverju ári. Mjer finst þetta koma nokkuð þessu máli við, einkum að því er snertir suma hv. meðdeildarmenn mína, þá, er sátu á þingi, þegar þessi venja myndaðist.

Og hvað ráðherrafjölguninni viðvíkur, finst mjer það koma töluvert þessu máli við, að það var einmitt háttv. 4. landsk. þm. (JM), sem var einna mest við hana riðinn, því að það var hann sem myndaði stjórn, þegar ráðherrum var fjölgað, og það var þá ekki hægt að mynda stjórn öðruvísi en með 3 ráðherrum. Og síðan hafa ráðherrar ætíð verið annaðhvort 2 eða 3, og það jafnt síðan stríðið hætti, og háttv. 4. landsk., sem manna mest hefir mótað meðferð þessara mála á síðari árum, af því að hann hefir verið stjórnarforseti, hefir ekkert hugsað um að breyta því, fyr en nú, þótt hann haldi fram, að þetta hafi verið aðeins bráðabirgðaráðstöfun. Er það líka sannarlega engin ástæða til að breyta þessu, því að ástandið er þannig nú, að þau störf, sem ráðherrar þurfa að inna af hendi nú, eru engu minni eða einfaldari en þau hafa verið, síðan ráðherrum var fjölgað, og ráðherraefni munu ekki vera svo mikið efnilegri nú en áður, að ástæða sje til að ætla, að þeir geti unnið meira en eins eða tveggja manna verk.

Hvað þingflokkana snertir, þá veit jeg ekki betur en það hafi verið jeg, sem fyrstur kom fram með þá hugmynd á seinni árum, að hafa þing annaðhvert ár. Að minsta kosti kom það fyrst fram í því blaði, sem jeg hefi skrifað mikið i, nefnilega Tímanum.

Þegar frv. um þetta efni kom fram í þinginu í fyrra, var því almenn ánægja yfir því í Framsóknarflokknum, og flokkurinn samþykti að styðja að því, að þingafækkunin næði fram að ganga, svo framarlega, að ekki væru gerðar neinar aðrar verulegar efnisbreytingar á stjórnarskránni, en þá var komið fram með ýmsa „fleyga“, sem sýnilega voru til þess ætlaðir að drepa frv., og urðu líka til þess. Jeg skal geta þess, að það er ekki rjett í mínu nál., að það hafi staðið í stjórnarskrárfrv. hv. 1. þm. Skagf. (MG) í fyrra, að landritaraembættið skyldi stofna. En þessi breyting var undirskilin.

Og jeg get getið þess, úr því jeg er farinn að kalla brtt. „fleyga“, að það var einmitt sú brtt., um að taka upp aftur landritaraembættið, sem varð frv. að fótakefli, og jeg er hræddur um, að raunin verði hin sama nú. Og mjer finst það mjög óheppilegt að leggja svo mikla áherslu á atriði, sem enginn sparnaður getur orðið að, eins og það að hafa landritara í staðinn fyrir ráðherra.

Ef vjer lítum á þessi tvö frv. til breytinga á stjórnarskránni, sem hjer liggja fyrir á þskj. 21 og 22, þá finst mjer að mætti tákna þau þannig, að annað frv., það frv., sem aðeins fjallar um þingafækkunina og að ráðherrar skuli vera tveir, sje frv. til breytingar á stjórnarskránni. En hitt finst mjer mætti vel nefna frv. til aukningar skrifstofuvaldsins á Íslandi, eða um minkun kjósendavaldsins í landinu. Það er þar horfið inn á þá braut að breyta undirstöðunni undir valdinu í landinu. Því hefi jeg farið fram á það í nefndinni að fella burt úr frv. á þskj. 21 allar breytingar aðrar en þær, sem eru í frv. á þskj. 22. Jeg vildi sjá, hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi um þingafækkunina, því að að því getur orðið mikill sparnaður, og það er samkvæmt óskum kjósenda yfirleitt, að þingum sje fækkað. En um hitt, að lengja kjörtímabilið og taka upp aftur landritaraembættið, hefir ekki komið fram nein krafa frá þjóðinni, og því ekki ástæða til að vera að gera slíkar breytingar, enda má segja, að það sje að fara aftan að þjóðinni að gera slíkt að henni fornspurðri.

Jeg skal líka geta þess, að jeg hefi fallið frá kröfunni um að lögbinda tölu ráðherra. Það er ekki vegna þess, að mjer hafi snúist hugur, heldur til þess, að frekar verði hægt að ná samkomulagi, svo að hægt væri að sameinast um aðalatriðið, sem er fækkun þinganna. Sú venja er nú þegar komin á, að ráðherrar sjeu 2, og þótt stjórnarskráin hefði ekki neitt ákvæði um það, þá býst jeg þó við, að sú venja mundi haldast og verða óskrifuð lög. Og jeg fyrir mitt leyti hefði ekkert á móti því, þó að sú venja myndist, að eitthvað af okkar stjórnarlögum yrði óskrifað. Og mjer finst, að slíkt mætti vel vera, því að í sjálfu móðurlandi þingræðisins er einmitt stjórnarskráin óskrifuð lög, sem myndast hafa með venju.

Jeg þykist nú hafa gert nægilega grein fyrir því, hversvegna jeg hefi fallið frá því að fækka ráðherrum með breytingu á stjórnarskránni. Það er nefnilega vegna þess, að það hefir þegar myndast sú venja, að þeir væru aðeins tveir. Aðalatriðið fyrir mjer er að spara á þinghaldinu. Það gæti vel verið, að jeg gæti síðar orðið með þinghaldi á hverju ári, ef fjárhagurinn batnaði, og einkum ef vinnubrögðum þingsins yrði hagað svo, að þingið stæði ekki nema mánuð eða sex vikur. T. d. ef þingið yrði flutt til Þingvalla árið 1930, þá gæti vel verið, að jeg yrði með því að hafa þing á hverju ári, því að það er líklegt, að kostnaðurinn yrði minni þar. Yfirleitt vil jeg, að alt sje gert, sem hægt er, til þess að minka kostnað við þingið og hafa það sem styst. Því hefi jeg hugsað mjer að bera fram till. til breytingar á þingsköpunum, þannig, að fjárveitinganefnd sje kosin í lok hvers þings fyrir næsta þing á eftir, og svo komi hún saman og taki til starfa nokkru fyr en þing byrjar, svo að þingið gæti orðið sem styst. Og fleiri ráð en þetta eina mætti sjálfsagt finna til að stytta þingið, og það er sjálfsagt að gera eins og hægt er, jafnt þó að það sje háð aðeins annaðhvert ár.

Hæstv. forsrh. (SE) benti á, að það mundi verða þing á hverju ári, þó að lögákveðið væri, að það skyldi heyja annaðhvert ár, því að auka þing mundi oft verða kvatt saman. Jeg skal játa það, að það er mjög líklegt, að aukaþing mundu verða stundum, en aukaþing eru venjulega nokkru styttri en fjárlagaþing.

Mjer skildist á hæstv. forsrh., að hann mundi hafa kvatt þingið saman nú, þótt ekki hefði verið skylda til þess, og mjer finst líka, að full ástæða hefði verið til þess, og það mundi nú á þessum tímum oft vera ástæða til að kveðja þingið saman, þótt ekki væri skylt að halda það nema annaðhvert ár.

Jeg tek þetta fram til að sýna það, að jeg tel alls ekki víst, þótt þingum væri fækkað að lögum, að ætið yrði hægt að komast af með þing annaðhvert ár.

Í frv. háttv. 4. landsk. eru þrjú meginatriði fyrir utan þingafækkunina. Og um eitt þeirra, það, að hæstirjettur skuli skera úr um gildi kosninga, skal jeg taka það fram, að mjer finst það ekki skifta mjög miklu máli, en jeg vil þó ekki greiða atkvæði mitt með því, ef það stofnar í hættu aðalbreytingunni. Um hitt, fækkun ráðherra ásamt stofnun landritaraembættisins og lenging kjörtímabilsins, er aðal meiningarmunurinn. Með þessari breytingu finst mjer vera verið að stíga spor aftur á bak og koma á aftur fyrirkomulagi, sem ekki á hjer lengur við. Enda eru brtt. þessar betur til þess fallnar að tefja málið en verða þjóðinni til gagns.

Jeg vil leiða nokkur rök að því, að ekki sje holt að minka áhrif þjóðarinnar á meðferð mála.

Það sjerstaka fyrirbrigði, sem kallað er gengi, virðist nú vera að koma þjóðinni á vonarvöl. Ef íslenska krónan fellur í verði, eins og peningar Miðevrópuþjóðanna, þá verða þjóðareignirnar keyptar upp af erlendum auðmönnum. Og við verðum þá eins og útlendir borgarar í ókunnu landi. Og það er að vísu vitanlegt, að gengi getur alveg eins fallið, þótt ráðherrar sjeu tveir eða þrír. En það, sem jeg vildi benda á, að hver þjóð á svo mikið undir stjórn landsins, að ófært er að láta velferð heils lands hvíla á lífi og heilsu eins manns. Gengishrunið í löndunum stafar af óstjórn á fjelagsmálunum. Sje stjórn landanna veik, kemur ólánið fram í ótal myndum.

Því hefir verið haldið fram í nál. meirihl., að betra eftirlit yrði með embættismönnum landsins, ef altaf væri fastur maður í stjórninni, sem hefði þetta eftirlit. En jeg veit ekki betur en að stjórnarráðið eigi nú að hafa þetta eftirlit og að það heyri aðallega undir skrifstofustjórana. Og í þeim efnum hafa þeir mikið vald. Jeg vil því undirstrika það, að jeg tel mjög óheppilegt að láta annan ráðherrann, sem kallast þó landritari, vera æfilangt fastan starfsmann, því að ef hann reynist illa, getur verið erfitt að losna við hann. Vjer höfum þess mýmörg dæmi, að vont getur verið að losna við slíka miður heppilega menn í föstum embættum. Vjer verðum því að hverfa að öðru en þingstjórn, ef hætta á við lýðstjórnina, t. d. einveldi eins manns eða heilla stjetta, fyrirkomulagi, eins og nú er í Ítalíu eða Rússlandi. Hvortveggja er stjórnarfar, sem eigi byggist á vilja borgaranna í landinu. En ef vjer viljum halda fast við það fyrirkomulag, sem nú er löghelgað: að borgararnir ráði hverjir stjórni landinu, þá getur þessi breyting ekki átt við. Jeg hefi áður gert grein fyrir því, að jeg vil í engu rýra vald þetta, svo að það verði nafnið tómt. Við val forsætisráðherra gera menn oft aðrar kröfur til hans en að hann sje beinlínis duglegur stjórnari. En eins og öllum er kunnugt, fer það ekki altaf saman, að þeir, sem eru kanske vel fallnir að hafa á hendi frammistöðu í veislum og koma fram fyrir hönd þjóðarinnar innanlands og utan, sjeu duglegir og öruggir stjórnarar. Getur þetta þó komið fyrir, en er þó ekki hægt að ganga að því vísu. Jeg teldi það því mikinn skaða, ef í viðbót við þá skerðing á valdi borgaranna, sem stofnun landritaraembættisins hefir í för með sjer, yrðu ef til vill oft valdir í ráðherrastöðu menn, sem betur eru fallnir til að halda veislur og tala við hispursmenn um ljettvæga hluti og þýðingarlitla heldur en að ráða fram úr erfiðum vandamálum. Jeg teldi heldur enga bót ráðna á þessu með því að lengja kjörtímabilið, eins og hv. 4. landsk. (JM) vill, heldur þvert á móti, að með því sje aukið við ólagið. Álít jeg það tæplega siðferðilega rjett. Annað mál væri, hvort eigi bæri að stytta kjörtímabilið. Hv. 4. landsk. (JM) vill lengja kjörtímabilið úr 4 og 6 árum í 8 og 12 ár. Jeg álít 4 ár fulllangt og kysi skemri tíma, þótt jeg ekki farifram á það nú. Munar það mjög miklu, hve kjósendur hafa meiri tök á þingmönnum sínum, ef kjörtímabilið er stutt, heldur en ef það er langt. Það er algengt í Englandi, að stjórnin leysi upp þingið, og ef hverfa ætti að nýrri venju í þeim efnum hjer á landi, mundi jeg ekki greiða atkvæði á móti lenging kjörtímabilsins í 6 ár. En hjer hefir aldrei verið rofið þing af sömu ástæðu og t. d. í Englandi, eins og nú nýverið, er það kom til greina, hvort hefja skyldi tollvernd eða ekki. Þess vegna þýðir ekki að vitna í venjur Englendinga um þetta. Í hinu pólitíska uppeldi þjóðarinnar eru kosningar stór liður. Jeg vil leggja áherslu á það, að borgararnir skapa sjálfir sína eigin gæfu. Þegar þess er gætt, að búast má við, að aukaþing verði haldin töluvert oft, fellur burt sú ástæða hv. 4. landsk. (JM), að þingmenn hafi aldrei sæti nema á tveim þingum milli kosninga. Þeir geta vel haft 3 þingsetur og stundum máske 4, á meðan þessir vandræðatímar standa. Og þótt þingmennirnir eigi ekki sæti nema á 2 þingum, geri jeg ekki mikið úr tapinu fyrir þingstörfin, en legg aðaláhersluna á, að fulltrúarnir verði með hæfilega löngu millibili að leggja gerðir sínar undir dóm þjóðarinnar. Jeg tek það fram, að jeg álít, að landkjörtímabilið ætti ekki að vera nema 4 ár, en til að stofna ekki aðalmálinu í hættu, hefi jeg ekki borið fram brtt. um það.

Með landskjörinu finst mjer hafa verið sókst eftir því að gefa sæti á þingi nokkrum mönnum, sem ekki eru fulltrúar sjerstakra kjördæma og geta að því leyti verið óháðir hjeraðsóskum. Aftur á móti gæti það verið mjög óheppilegt fyrir landið, að þeir sætu á þingi mjög lengi án endurkjörs. Þótt jeg kysi ýmsar breytingar á stjórnarskránni, tel jeg ekki unt að koma þeim í framkvæmd í skyndi, og greiði því atkv. á móti öllum brtt á þingskjali 21, nema þeim, sem lúta að þinghaldi annaðhvert ár. Og þótt brtt. minnihl. yrðu feldar, mundi jeg ekki greiða atkv. á móti frv. til 3. umr., enda vænti jeg þess, að hv. meirihl. komi þá með brtt., sem geri frv. aðgengilegra. En ef hv. meirihl. gerir meiri háttar efnisbreytingar við 3. umr., mun jeg ef til vill koma með efnisbreytingar. Því að ef á annað borð eru gerðar verulegar efnisbreytingar, munar ekki neinu, hvort brtt. eru einni fleiri eða færri. En jeg hefi haldið mjer frá brtt af því, að jeg hefi viljað, að athygli þingsins gæti í þessu máli beinst sem mest að því, sem er aðalatriðið.