27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (1956)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Jeg býst við, að það þyki ekki neitt óeðlilegt, þó að þeir landsk. segi nokkur orð, áður en þeir eru leiddir að skurðarborðinu. Fyrst vil jeg láta hrygð mína í ljósi yfir því, að háttv. flm.þskj. 21 skuli ekki hafa orðið við áskorunum um að falla frá nokkrum atriðum frv. Jeg greiddi frv. atkv. til að gefa háttv. flm. kost á að gera bragarbót, í von um, að meginatriði frv., þingafækkunin, kæmist þá gegnum þingið. Í frv. er sem sje gert ráð fyrir einum ráðherra og óralöngu kjörtímabili fyrir kjördæmakjörna, en sjerstaklega þó landsk. Og þetta gerist samhliða því, að háttv. flm. brýtur svo stórkostlega í bága við kenningar sínar, með því að mynda þriggja manna stjórn. Hafa þau býsn orðið, síðan málið var hjer til 2. umr. Einn þm. í Nd. sagði við mig fyrir ca. hálfum mánuði, að þrátt fyrir alt myndi háttv. 4. landsk. eiga eftir að mynda stjórn með mörgum ráðherrum þvert ofan í frv. sitt. Þetta sagði hann, áður en mikil líkindi voru til, að sú spá mundi rætast. Hann virðist hafa fundið það á sjer, að þó að hv. flm. (JM) væri að leitast við að rífa niður þetta fyrirkomulag, mundi fara nú eins og 1917, að hann vildi glaður taka við völdum og mynda þriggja manna stjórn. Það er samt langt frá, að jeg ásaki hæstv. forsrh. (JM) fyrir að hafa snúist í þessu máli, þegar til framkvæmda kom, þó að jeg álíti, að reynslan sje búin að sýna, að það er nægilegt, að tveir skipi stjórn. En það er mikill styrkur fyrir minn málstað, að hæstv. forsrh. (JM) skyldi snúast yfir á mitt mál í verkinu, og jafnvel ganga lengra en jeg, samhliða því sem hann hefir í ræðum sínum lagst á móti þessari stjórnarskipun.

Jeg mintist á það við fyrri umr. þessa máls, hversu óviðkunnanlegt það væri fyrir landsk. þm. að lengja kjörtímabil sitt um 4 ár, án þess að spyrja kjósendur. Jeg hefði vonast eftir því, að landsk. þm. myndu ekki nota umboðsrjett sinn til að koma í gegn svo eigingjarnri breytingu. En það fór á annan veg.

Það mun rjett álitið hjá háttv. 1. landsk., að með landskjörinu er ætlast til þess, að nokkrir menn eigi sæti á þingi, sem ekki sjeu háðir svo mjög vilja kjósenda í ákveðnum hluta landsins, en geti verið frjálsari að fylgja sínum skoðunum óhræddir við of tíðar uppkosningar. En hvernig stendst þessi „theoria“ í virkileikanum? Mjer finst landskjörið hafa að talsvert miklu leyti mistekist. Vil jeg út af því nefna nokkur mál, sem dæmi um það, hvernig meirihl. hinna landskjörnu hefir komið fram. Í fyrra var borið fram frv. um að herða eftirlit með vínsmyglurum — rýra atvinnu stórglæpamanna og úrþvætta þjóðfjelagsins. Meirihluti landskjörnu þm. feldi málið við 1. umr. í vetur hafa nokkrir þeirra gert tilraun til að loka þinginu fyrir þjóðinni, svo að hún fengi ekki að sjá, hvað fulltrúar hennar gerðu. En hv. Nd. hefir bjargað sóma þingsins í því máli.

Jeg vil nefna annað dæmi út af þál.till. um að skipa sparnaðarnefnd og að undirbúa skipun ólaunaðrar nefndar, til að vinna að gagngerðri breytingu á embættakerfi landsins.

Helmingur hinna landsk. hefir gert sitt til að draga úr góðum árangri þessara till. og spilla fyrir málinu. Jeg held því, að hv. 1. landsk. hljóti að fallast á það, að eins og kjörið hefir tekist nú, er hægt að sanna, að þær vonir, sem menn höfðu gert sjer um landskjörið, hafa ekki rætst nema að sumu leyti. Í viðbót við þessi almennu atriði er það öllum kunnugt, hvernig hefir tekist til með einn landsk. Óhætt er að segja, að hann hefir ekki gert meira gagn hjer í deildinni en það, að komast hefði mátt af með einfaldan grammofón, er sagt gat já eða nei við atkvæðagreiðslur, að boði annars manns. Að öðru leyti mætti halda, að þessi hv. 3. landsk. þm. (HSn) væri mállaus.

Ef landskjörið verður ekki lagt niður, vil jeg vona, að betur takist með það framvegis heldur en þessi tilfærðu dæmi benda á um nútíðina. Því mun jeg greiða atkv. með brtt., meðfram til þess að gefa Nd. tækifæri til að segja álit sitt um málið. Ef Nd., sem hefir ekki eigin hagsmuna að gæta, álítur rjett að fækka þm., má skoða það að nokkru leyti sem dóm þjóðarinnar.

Það er athyglisvert, að það er sami maður, sem gerir tilraun til að loka þinginu, svifta kjósendur rjetti sínum, minka vald þjóðarinnar í sínum eigin málum, en auka skrifstofuvöld í landinu, en vill jafnframt auka í heimildarleysi þingmenskuumboð sitt, sem hann hefir þannig farið með, án leyfis kjósenda. Slík spor hræða.

Jeg mun greiða atkv. með frv. til Nd., því að jeg álít rjett að leggja okkar gerðir undir hennar dóm, og síðan þjóðarinnar í heild.