31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (2030)

87. mál, einkasala á tóbaki

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg lít svo á, að ekki sje neinn skaði skeður, þótt frv. þessu sje vísað til nefndar. Þykir mjer eðlilegast, að fjhn. athugi þetta mál, eins og önnur mál, sem varða svo mjög ríkissjóðinn. Jeg verð annars að líta svo á, að ekki sje rjett að bera saman tóbakseinkasöluna hjer og sumstaðar annarsstaðar. Á Frakklandi er það svo, að ríkiseinkasalan hefir einkaleyfi til að búa til tóbaksvörur, en aðeins hráefnin eru flutt inn. Afstaðan þar er því alt önnur.

Jeg skil annars ekki í því, hve langan tíma það ætlar að taka að afgreiða þetta mál til nefndar. Mjer finst það lítið þýða að ræða það svo mjög á þessu stigi, heldur fremur, þegar það kemur til 2. umr., það er að segja, ef nefndin vill láta það ganga fram nú.