31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (2032)

87. mál, einkasala á tóbaki

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg get ekki setið á mjer lengur með að gera nokkrar aths. við ýmislegt af því, sem sagt hefir verið, því mjer virðast þessar umr. undarlegar orðnar.

Fyrir hálfu ári síðan vorum við allir í baráttunni út um alt land, og börðumst af alefli um þingsætin. Í baráttunni milli tveggja höfuðflokka þingsins var aðallega rætt um frjálsa verslun. Var þá óspart kastað framan í Framsóknarmennina, að þeir vildu einkasölu á öllu og þar á meðal tóbaki. Hinir hrópuðu hátt, og sögðust vilja vera frjálsir menn í frjálsu landi og losa þjóðina undan öllu einokunarhelsi. Þegar svo komið er inn í þessa hv. deild, þá ber einn af forvígismönnum þessarar stefnu fram þetta frv. um að afnema einkasöluna á tóbaki, enda kom það engum á óvart. En viti menn! Rís ekki hæstv. fjrh. (JÞ), formaður Íhaldsflokksins, upp gegn frv., maðurinn, sem hefir látið blað flokksins básúna þessa stefnu. Og því næst rís upp hv. þm. Ak. (BL) og afneitar einnig tvisvar, áður en hv. flm. talar þrisvar, einmitt sá maðurinn, sem barðist harðlegast gegn forstjóra þeirrar stofnunar, sem hjer er um að ræða. Nú vill hvorugur þessara manna afnema tóbakseinkasöluna.

Þegar jeg minnist kosningahríðarinnar, þá man jeg ekki eftir, að meira moldviðri hafi verið þyrlað upp en gert var í þessu máli, af þessum hv. þm. Væri ekkert um það að segja, ef þeir hefðu ætlað sjer að standa við það. En svo er ekki, og er þetta því eitthvert stærsta „blöff“, sem á Íslandi hefir verið framið. Það er ekki svo að skilja, að jeg sje að kvarta undan þessu; jeg vildi bara láta það sjást svart á hvítu.

Að lokum vil jeg svo benda á eitt atriði í ræðu háttv. þm. Ak. Hann sagði sem svo: — Jeg er sannfærður um það, að einkasalan er til bölvunar fyrir þjóðina, en jeg vil nú samt að hún fái að kenna á henni, a. m. k. eitt árið enn, svo hún geti gengið vel úr skugga í þessu efni. Þetta er sama aðferðin og notuð var í Spörtu forðum til þess að fæla unglinga frá ofdrykkju, er þrælarnir voru fyltir og piltarnir látnir horfa á aðfarir þeirra.

Hv. þm. Ak. sagði um hv. þm. V.-Ísf., að hann væri mikill skólamaður. Jeg held, að það verði ekki sagt um hv. þm. Ak., að hann sje mikill uppeldisfræðingur.