21.03.1924
Neðri deild: 29. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (2041)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Árni Jónsson:

Jeg tel hv. meirihl. fjvn. hafa verið fremur óhygginn í valinu, er hann hallaðist að þessari leið til sparnaðar. Aðalefni þessa frv. er það, að koma kvöð, sem hvílt hefir hjer á ríkissjóði, yfir á bæjar- og sveitarsjóði landsins. Eftir gildandi lögum fá kennarar í sveitum helming launa sinna greiddan af viðkomandi hreppi, en kennara í kaupstöðum fá 2/3 launanna greiddan úr bæjarsjóði. Það er því auðsýnilegt, að miklu munar fyrir bæjar- og sveitarfjelögin, ef þau verða nú einnig að borga dýrtíðaruppbót að sínum hluta.

Það er auðvitað gott og blessað, að hv. fjvn. hafi hag ríkissjóðsins fyrir augum, — og það væri gott, ef bæjar- og sveitarfjelögin gætu valdið þessari byrði, en því er nú ver, að það er víðar pottur brotinn en pottur ríkissjóðsins. Jeg er viss um það, að ef þetta frv. næði fram að ganga, þá myndi það hafa þau áhrif, að bæjar- og sveitarfjelögin myndu segja kennurunum upp unnvörpum, sökum þess, að þau sæju sjer ekki fært að rísa undir þeirri byrði.

Myndi það geta haft mikinn hnekki í för með sjer fyrir alþýðumentun þessa lands, og tel jeg varhugavert að hrapa svo að því að stofna til slíks.

Jeg verð þó að telja það til bóta, að segja megi upp kennurunum með 3 mánaða fyrirvara. Það hefir verið svo til þessa, að sveitarfjelögin hafa ekki getað fækkað kennurunum, þótt þau væru alveg á heljarþröminni. Þekki jeg dæmi til þess, að sveitarfjelag vildi hætta að standa í þeim kostnaði, en varð að sitja með kennarann, og endaði það svo, að það varð að biðja Alþingi að hlaupa undir bagga. Verð jeg undir öllum kringumstæðum að líta svo á, að úr því að bæjar- og sveitarsjóðir verða að borga svo mikið af rekstrarkostnaði skólanna, þá beri þeim einnig að hafa meiri íhlutunarrjett um það alt en þeir hafa haft til þessa. Er í rauninni mjög ósanngjarnt, að ríkið ákveði einsamalt tölu kennaranna og laun þeirra, og segi svo bæjar- og sveitarfjelögunum að borga brúsann.

Úr því jeg stóð nú upp, skal jeg svo gera nokkra frekari grein fyrir skoðun minni yfirleitt í þessu máli.

Barnakennarar eru eflaust albest launaða starfsmannastjettin á þessu landi. Þegar litið er á undirbúning þeirra og starfstíma, þá mun óhætt að fullyrða, að engir menn sjeu hjer betur launaðir. Flestir ganga þeir aðeins í gegnum fermingarundirbúninginn og svo 2 ára nám á kennaraskólanum. Stöðu þeirra er þannig háttað, að þeir geta unnið fyrir tvennum árslaunum. Fyrst geta þeir unnið fyrir fullu sumarkaupi og hafa svo sín föstu kennaralaun að vetrinum. Yrðu þeir annars að vinna fyrir mjög lítið kaup að vetrinum, ef ekki væri hlaðið svo undir þá með þessum lögum. Jeg er auðvitað ekki að lá þeim, þótt þeir taki við því sem að þeim er rjett; það myndi sjerhver gera í þeirra sporum. En hitt er nokkuð efamál, hvort börnin græða altaf að sama skapi sem launin eru hækkuð við kennarana. Þótt kennarar fullnægi ef til vill ýmsum skilyrðum til kenslu betur nú en áður, þá verð jeg að efast um hitt, að driffjöður þeirra til starfsins sje ávalt betri, en það atriði er, eins og menn vita, mjög mikilsvert. Jeg álít fyllilega, að barninu sje betur borgið hjá þeim kennara, sem ekki hefir sóst eftir stöðunni launanna vegna, heldur af áhuga fyrir málinu og af því, að hann vildi fórna sjer fyrir það. Hjá slíkum manni tel jeg barnið betur komið en hjá hinum, sem lærðari er, en aðeins hugsar um launin. Og þótt mikil þekking sje nauðsynleg þeim mönnum, sem fræðslustarfi gegna, þá er hitt þó meira vert, að þeir menn, sem til þess veljast, sjeu andlega heilbrigðir og góðir menn. Efast jeg um, að með hinu nýja fræðslufyrirkomulagi hafi náðst eins mikið í þessa átt og af er látið. Eru unglingarnir, sem nú koma úr barnaskólunum, betri, hæfari og heilbrigðari en hinir, sem komu frá heimilunum áður? Eða eru unglingarnir nú á dögum fróðleiksfúsari eða vita þeir meira en unglingarnir í gamla daga? Jeg held ekki. Jeg held, að nú sjeu unglingarnir ófróðari og hafi enga löngun til þess að mentast meira. Skoðanir manna í þessum efnum hafa breyst mikið síðustu árin, síðan þetta fræðslufyrirkomulag, sem nú er, fór að sýna sig í reynslunni. Þegar það komst á, gerðu gömlu mennirnir sjer von um, að nú myndi engin fáfræði framar hamla framgjörnum unglingum þessa lands, og þeir öfunduðu æskulýðinn, sem nú væri að alast upp og gæfist kostur á að öðlast þá mentun, sem þeim var varnað sakir örðugs fjárhags, eða þá að þeir urðu að verja hverri frístund sinni til að ná í. Þeir skildu því ekkert í því eftir á, þegar þeir hittu fyrir sjer æskulýð, sem var miklu fáfróðari en áður gerðist, þegar þetta fræðslufyrirkomulag var ókomið. Jeg veit ekki, hvort þetta frv. má kallast spor í þá átt að leggja niður núverandi fræðslufyrirkomulag, en eins og það er, get jeg ekki greitt því atkvæði mitt. En hefði komið fram frv. þess efnis, að fresta framkvæmd fræðslulaganna um nokkurn tíma, þá hefði jeg hiklaust greitt því atkvæði mitt.