28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í C-deild Alþingistíðinda. (2070)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hafði ekki gert ráð fyrir því að taka til máls að þessu sinni, en þar sem jeg sje, að hart er veist að einstökum mönnum og að fjvn., verð jeg að gera grein fyrir minni afstöðu í þessu máli. Hitt þykir mjer litlu skifta, þótt þm. Reykv. gangi hart hver að öðrum, því þar eigast þeir einir við, sem jeg hirði aldrei þótt bitist. En það var viðvíkjandi orðum, sem beint var til fjvn., sem jeg tók til máls, sjerstaklega voru það orð hv. 4. þm. Reykv. (MJ), þar sem hann lagði út af orðum hæstv. atvrh. (MG). Hann sagði meðal annars, að það væri tilgangur nefndarinnar að fara aftan að fræðslulögunum og losna við alla fræðslu á þann hátt. Sömu orð fjellu frá háttv. þm. V.-Ísf. Jeg mótmæli því, að þetta hafi verið tilgangur nefndarinnar. Hún hefir aldrei ætlað að ríða slig á fræðsluna í landinu. Jeg get vitnað í því efni til ummæla háttv. 2. þm. Eyf. (BSt). Nefndinni gekk hið sama til og þegar hún samdi till. sínar um skólana; hún vildi koma á samræmi milli þess, sem kaupstaðirnir og sveitirnar legðu til fræðslumálanna. Eins og sakir standa, er svo miklu erfiðara að stunda fræðsluna í sveitum en kaupstöðunum, en þó greiðir ríkissjóður miklu meira til fræðslunnar í kaupstöðunum. Þetta var það, sem jeg vildi leiðrjetta, og fram á það fer þetta frv., að komið sje samræmi á það, sem ríkissjóður verði til kenslu í kaupstöðum og í sveitum. Það á því alls ekkert skylt við það, að ráðist sje á fræðslufyrirkomulagið í landinu. — Að lokum vil jeg segja það, að þegar hjer í dag er rætt um talsvert merkileg mál, þ. e. fræðslumálin, finnur hæstv. forsrh. (JM) ekki ástæðu til þess að vera hjer viðstaddur. þegar fjárlögin voru til umræðu, kom fram umkvörtun um, að hann væri þá hvergi nálægur, og einnig nú finn jeg ástæðu til að kvarta yfir því, að hann er hjer ekki viðstaddur.