12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (2100)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Einar Árnason:

Það virðist nú komið fyllilega í ljós, að nefndin hafi ekki skilið 1. gr. frv. (SE: Það þýðir ekki að tala við hv. þm. um þetta, og vil jeg því sýna honum lögin!. (Flettir upp lögum nr. 75, 28. nóv. 1919, og sýnir EÁ)). Það þarf ekki að sýna mjer þessi lög, jeg býst við, að jeg þekki þau eins vel og hv. frsm., og veit eflaust betur en hann, hvernig þau eru framkvæmd í sveitunum. Skal jeg því upplýsa háttv. þm. um það, að þau fræðsluhjeruð, sem ekki hafa þurft að láta kenna 24 vikur til þess að öll börn á skólaskyldualdri nytu minst 8 vikna kenslu, hafa ekki fengið neitt af launum kennaranna greitt úr ríkissjóði. En með 1. gr. frv. á þskj. 245 komast kennarar þessara litlu hjeraða einnig undir launalögin frá 28. nóv. 1919, og jeg er alls ekki á móti, að þessum hjeruðum sje sýnd sú sanngirni. Því að það má ekki gleymast, að enn þá er í gildi það ákvæði fræðslulaganna, að börn þurfi ekki að njóta meira en 8 vikna kenslu, og meðan svo er, er það ekki sanngjarnt, að þau hjeruð, sem t. d. þurfa ekki nema 16 vikur til þess að kenna hverju barni minst 8 vikur, fái ekki styrk úr ríkissjóði eins og þau, sem láta kenna 24 vikur, einungis af því, að þar eru fleiri börn.

Annars finst mjer, að hv. mentmn. hefði ekki veitt af að fá, þó ekki hefði verið nema 8 vikna fræðslu í þessum málum, til þess, að hún hefði eitthvað getað skilið í þeim.