25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (2194)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Þýtur í sama skjá og áður, og gerist hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem fyr, ærið harðsnúinn forsvarsmaður trollaraskipstjóranna, þessara illræmdu landhelgisbrjóta hjer í Reykjavík. Segir hann, að þessi ákvæði muni ekki koma að gagni, landhelgin verði jafnflöt fyrir útlensku botnvörpungunum og áður. En þetta er alls ekki rjett. Mjer er mjög vel kunugt um það, að íslensku botnvörpungarnir ganga á undan hinum í að fara í landhelgi til veiða og teygja hina blátt áfram inn fyrir á eftir sjer. Þegar þeir erlendu sjá íslensku botnvörpungana innan við línuna, hugsa þeir, að sjer sje líka óhætt að fiska þar. Íslendingarnir vita, hvað varðskipinu líður. Því þeir, sem loftskeyti hafa, fá stöðugt vitneskju um það frá útgerðarmönnum. Þetta vita útlendingarnir. þannig eru íslensku skipstjórarnir potturinn og pannan í landhelgisbrotunum, og mikið af yfirgangi og lögbrotum útlendinga á rót sína að rekja til íslensku skipstjórana. Gæti þetta ákvæði orðið til þess, að Íslendingar hættu að veiða í landhelgi, mundu erlendir botnvörpungar verða þar minna að veiðum en áður, og væri þá strax mikið unnið við samþ. frv. og landhelginni betur borgið. Má vel vera, að enn hærri sektir væru heppilegt úrræði, en nú liggur engin till. fyrir um slíka breytingu, og er því þá ekki til að dreifa.

Það hefir verið sagt, við umr. um þetta frv., að það mundi verða til þess að flæma skipstjórana úr landi. En þetta ber ekki með sjer mikið traust á mönnunum. Jeg hygg, að þetta mundi þvert á móti gera þá að betri og löghlýðnari borgurum.