25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í C-deild Alþingistíðinda. (2195)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jakob Möller:

Jeg get fullvissað hv. þm. Borgf. um það, að refsiákvæði, sem eru ranglát að almenningsdómi, geta aldrei verið sem uppeldisskóli á heiðarlega menn. Þau vinna ávalt á móti tilgangi sínum. Þau gera ekki annað en ala upp í mönnum virðingarleysi fyrir öllum lögum. Og öll refsiákvæði, sem ná einungis til sumra, en ekki allra, verða altaf talin ranglát og geta ekki verið sem skóli í löghlýðni, heldur í ólöghlýðni. Fari löggjöfin inn á þá braut að leggja þyngri refsingar við brotum innlendra manna, verður það óefað skoðað sem fylsta ranglæti af þeim mönnum, sem fyrir því verða.

Það liggur í hlutarins eðli, að ekki verður gert ráð fyrir öðru en að þeir skipstjórar leiti sjer atvinnu erlendis, sem brotlegir hafa orðið. Hvað eiga mennirnir að gera, þegar þeir eru sviftir atvinnunni? (PO: Þeir eiga að sjá að sjer í tíma). Það gæti komið fyrir þá alveg óvart að veiða fyrir innan landhelgi. Landhelgislínan er ákaflega mjó, eins og kunnugt er, og þarf ekki að muna miklu til þess að vera fyrir innan hana.

Hv. þm. Borgf. segir, að jeg sje talsmaður innlendra útgerðarmanna. En hann hefir þá gert sig að talsmanni fyrir hina útlendu. Jeg segi fyrir mig, að jeg kýs fremur að vera málssvari þeirra innlendu. Jeg hefi bent á aðra leið, sem nær jafnt til útlendinga og innlendra manna. Hv. þm. Borgf. vill ekki fara þá leiðina, heldur einungis refsa innlendum mönnum.

Annan eins barnaskap hefi jeg aldrei heyrt sem þann að láta sjer til hugar koma, að þegar innlendum skipum sje algerlega bægt frá landhelginni, þá hætti útlendu skipin að veiða þar. Hver lifandi maður getur lagt trúnað á slíka fjarstæðu? Það er þó kunnugt, að erlendir togarar veiddu mikið í landhelgi löngu áður en nokkur íslenskur botnvörpungur var til. Ekki hafa þeir verið þá til að teyma útlendingana inn í landhelgina. Mig furðar á því, að nokkur maður skuli láta sjer aðra eins fjarstæðu um munn fara.

Hv. þm. Borgf. kvað þann galla vera á hækkun sektanna, að það kæmi ekki niður á skipstjórunum. En í öðru orðinu segir hann, að útgerðarmenn hvetji skipstjórana til þess að veiða í landhelgi. En verði sektirnar svo geysiháar, að það borgi sig alls ekki að eiga á hættu að verða tekinn í landhelgi, þá mundu útgerðarmenn hætta að hvetja skipstjóra sína til þessara lögbrota, og láta þá fara, ef þeir gerðu það. Með því að uppræta algerlega alla hagnaðarvon, má koma í veg fyrir landhelgisbrot. En það verður ekki gert með því að refsa skipstjórunum, því að lengi má komast í kring um þau ákvæði. Jeg vil því undirstrika það, að þessi leið til að vernda landhelgina er ekkert annað en gönuhlaup.