22.04.1924
Efri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í C-deild Alþingistíðinda. (2255)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. þm. Rang. hefir gefist upp við öll rök, og er það eitt af þeim fáu dæmum, sem jeg hefi sjeð um gáfnaneista í fari hans. Í stað þess hefir hann sagt ýmsa skrítilega hluti um það, hvernig hundar í Rangárvallasýslu haga sjer gagnvart gestum, og hversu hann fer að, þegar hann ætlar sjer að „dumpa“ við kosningar. Úr því ekki er annað fyrir hendi, verður að athuga líka þessa hlið á máli hans. En áður en jeg kem að því, vil jeg víkja fáum orðum að vörn hæstv. atvrh. (MG) fyrir hinum óþörfu embættum.

Á næsta ári verða engir vitar bygðir og engin þörf á aðstoðarmanni. Þykir mjer það alldrýldin framkoma hjá vitamálastjóra að hafa í hótunum að hlaupast á braut frá starfa sínum, ef hann fái ekki þessum vilja sínum fram komið.

Sú var tíðin á stríðsárunum, að aðeins var einn maður við vitamálin, og gekk vel. Voru þó bygðir margir vitar á þeim tíma. Nú á enga vita að byggja, heldur aðeins halda bygðum vitum við. Ef vitamálastjóri skyldi forfallast eða falla frá, vill svo vel til, að landið hefir í þjónustu sinni annan mann, sem er nákunnugur vitamálum vorum og tekið gæti við stjórn þeirra, a. m. k. til bráðabirgða. Hv. 2. þm. Rang. (EP) gleymdi líka að geta þess, að jeg hafði stungið upp á því í nefndinni, að hægt mundi, ef til vill, að nota til þessa aðstoðarstarfs silfurbergsverkfræðinginn. (EP: Hvernig átti meirihl. nefndarinnar að rannsaka það?) Tel jeg líklegt, að hv. stjórn hafi getað gefið fullnægjandi skýringu á því, ef til hennar hefði verið leitað. (EP: Er maðurinn hjer?) Já, hann er hjer, og mundi vafalaust rísa undir því, þótt störf hans væru dálítið aukin.

Ekki kemur mjer á óvart framkoma hv. 2. þm. Rang. í máli aðstoðarlæknisins á Ísafirði. Sýnir hún, sem margt annað hjá sama hv. þm., að hann er ekki djúphugull um ýmsa hluti; veður mest á yfirborðinu. Ekki hygg jeg þó, að hann haldi viljandi illu fram, heldur er honum það óafvitandi, en af innri, meðfæddri þörf. (EP: Þm. er altaf góðgjarn!) Já, maður lærir það af prestum og próföstum. Þá hjelt hv. 2. þm. Rang. því fram, til stuðnings máli skógræktarstjóra, að girðingin við Rauðavatn sje í góðu lagi. Þetta var mjög óheppilegt dæmi, því að það er á allra vitorði, að girðing þessi er í mjög ljelegu ásigkomulagi. Veit jeg, að hv. atvrh. (MG) mundi fúslega lána hv. þm. (EP) einn af landssjóðsbílunum þangað uppeftir, ef þingmaðurinn vildi sjá girðinguna með eigin augum. (Atvrh., MG: Jeg hefi engan bíl!) Þá er hægt að hafa það eins og þegar konungurinn kom, að leigja bíla. — Annars vita það allir, að þessi girðing hefir legið niðri í mörg ár og geitur og stórgripir vaðið inn á hið girta svæði. Mundi hv. 2. þm. Rang. vera hollara að fullyrða minna og athuga betur sinn gang, áður en hann talar. Virðist þm. ganga nokkuð blindandi í gegnum lífið. Þetta dæmi, um girðinguna við Rauðavatn, bregður ljósi yfir dómgreind þessa þm. Þúsundir manna fara um veginn árlega. Allir sjá, að girðingin er í rústum, allir nema sá eini, sem þjáist og hefir alla æfi þjáðst af magnaðri sálarblindu.

Þá hjelt hv. þm. (EP) því fram, að hann hafi fallið við kosningarnar 1919 vegna þess, að hann hafi ekki viljað komast að. Duldist þó engum, að þm. sýndi a. m. k. alla ytri tilburði. Hann bauð sig fram, fór á alla fundi, sendi út smala, skreið inn í hvert kot, alveg eins og hann er vanur endranær, bað óvini sína griða og miskunnar. Þrátt fyrir alt þetta segist hann það ár hafa viljað falla. En skýring hans er einkar-góðgjarnleg gagnvart kjósendum hans. En kjósendurnir hafa sjeð inn í hug hans, sjeð valdalystarleysi hans, sjeð, að honum var best að falla. Og um það er jeg þeim alveg sammála.

Svo sagði hv. þm., að jeg legði sig í einelti. Hann ályktar af því, að jeg hefi nokkrum sinnum neyðst til að sýna fram á, hversu hann skortir greind og þekkingu. Einnig hefi jeg leitt rök að því, að hann er hvorki rökfimur nje stiltur. Jeg veit vel, að þetta hlýtur að vera á ýmsan hátt óþægilegt fyrir þingmanninn, en við það verður að sitja. Þá mintist þm. á, að hundar á bæjum kæmu oft þjótandi í ferðamenn til að gera þeim óskunda, og talaði á þann hátt, að ekki varð betur sjeð en að hann væri að sneiða að sumum sveitungum sínum í sambandi við fundinn fræga á Stórólfshvoli. Að vísu var þar nokkuð af ölvuðum, ómentuðum ræflum, sem æstir höfðu verið upp. En hvort líking prófastsins á að takast bókstaflega, geta hlutaðeigandi sóknarbörn hans best borið um.