15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í C-deild Alþingistíðinda. (2403)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þetta frv., sem hjer er um að ræða, fer fram á að banna innflutning á ýmsum tollvörum. Jeg hefi athugað, hve mikil tekjurýrnun ríkissjóðs verður, ef frv. nær fram að ganga. Tillögurnar hafa að vísu gengið mislangt, en jeg hefi miðað við frv. með brtt. minnihl. Niðurstaða mín varð sú, að tekjurýrnunin á tollvörunum einum saman yrði um 450000 kr., ef miðað er við verslunarskýrslur frá 1921. Jeg hefi líka reynt að reikna þetta út eftir verslunarskýrslum frá 1922, en þær eru ekki svo fullkomnar ennþá, að hægt sje að komast að öruggri niðurstöðu. Vindlar og vindlingar eru þar t. d. gefnir upp í einu lagi. Þó virðist tollurinn heldur hærri samkvæmt þessum skýrslum. En jeg hygg samt, að 450000 kr. sje sú upphæð, er næst verður komist. Þar að auki mundi tapast einhver vörutollur, en um það tjáir ekki að fást.

Hingað til hefir það ekki þótt fært, sökum fjárhags ríkissjóðs, að banna innflutning á tollvörum, enda sje jeg ekki, að hann megi við því. Og það er að minsta kosti alveg óverjandi að ætla að svifta hann þessum tekjum án þess að koma með tillögur í tæka tíð um að bæta honum þetta upp á annan hátt.

Eins og kunugt er, lagði stjórnin fyrir Alþingi frv. um 25% hækkun á tollum og sköttum, sökum gengislækkunar. Þetta frv. er nú orðið að lögum. Það mun láta nærri, að það frv. auki tekjur ríkissjóðs um þá fjárhæð, er þetta haftafrv. vill minka þær um. Jeg fæ ekki sjeð, að hv. deild geti varið það, eftir að hún hefir afgreitt fjárlögin með lítilfjörlegum tekjuafgangi, að fara nú að lækka stórkostlega tekjur ríkissjóðs.

Það er satt, að mikil þörf er á að rjetta við greiðslujöfnuðinn, og öllum skynsamlegum tilraunum í þá átt mun vel tekið. En hinu mun síður vera vel tekið að auka á tekjuhalla ríkissjóðs. Ef einhver ber það traust til núverandi stjórnar, að hún geti bætt hag ríkissjóðs, enda þótt hann sje sviftur tekjuaukum sínum, þá er það annaðhvort oftraust á núverandi stjórn eða vantraust á hina fyrverandi. Ef hv. deild vill fara þá leið að beita innflutningshöftunum, verður hún að taka svo mikið tillit til ríkissjóðs, að fella burtu tollvörur hans. Það má ekki bregðast, eins og jeg þykist hafa sýnt fram á.