06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í C-deild Alþingistíðinda. (2472)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Frsm. (Jón Þorláksson):

Ræður hæstv. forsrh. (SE) og háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) komu undarlega í bág hvor við aðra. Hæstv. forsrh. (SE) gat ekki betur sjeð en að frv., eins og það kom frá allshn., yrði til þess að sendiherraembættið fjelli niður, — hv. 3. þm. Reykv. (JakM) taldi brtt. aðeins látalæti, og yrði sendiherrann kyr eftir sem áður. Jeg held satt að segja, að báðir fari villir vegar, sannleikurinn liggi mitt á milli. Hv. allshn. getur auðvitað ekki lagt þingum framtíðarinnar neinar lífsreglur, en hún leggur til, að á hverjum tíma verði ákveðið í fjárlögum, hvort haldið skuli embætti þessu eða ekki. Er nú skamt að bíða þess, að fjárlagafrv., fyrir árið 1925, verði til umræðu, og er þá nægur tími til að athuga, hvað ofan á verður, ef frv. þetta verður samþykt.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði, að engin þjóð legði niður alla sendiherra sína. Má vel vera, að svo sje, líti hann til ríkja, sem eru margfalt mannfleiri og auðugri en okkar er. En hitt er og alkunnugt, að mörg smáríki á borð við okkur treysta sjer ekki til að stofna nein slík embætti, en láta sjer lynda að sitja í skjóli stærri ríkjanna og undir vernd þeirra. Tjáir ekki að bera okkur saman við miljónaþjóðir, heldur verður í slíkum málum að líta fyrst á okkar eigin ástand og reyna að ráða fram úr því, eftir því sem nauðsyn krefur.

Enginn ber brigður á það, að núverandi sendiherra hafi reynst vel í stöðu sinni. Hvorki hv. flm. (TrÞ) nje háttv. allshn., hafa neitt sett út á starf hans, heldur eru menn fullkomlega ánægðir með það, þótt vitanlegt sje, að erfitt er að dæma um þessi mál, þar sem þm. verða í því efni að fara eftir umsögn annara.

Hæstv. forsrh. (SE) er vitanlega kunnugur þessu embætti vegna stöðu sinnar, en vitnað gæti jeg í menn utan þings, sem nær standa starfinu, og er það álit þeirra, að spara mætti sendiherralaunin og láta sjer nægja með chargé d’affaires. Á þessu byggi jeg miklu meir en á skoðunum hæstv. forsrh. (SE), að þetta sje óverjandi.

Svo sem títt er, þá er rætt er um sparnað, vjeku þeir báðir, hæstv. forsrh. og háttv. 3. þm. Reykv., að þeirri hliðinni, að svo mikill óbeinn hagnaður væri af þessum útgjöldum, að það borgaði sig að halda þeim. Alt þetta tal minnir mig dálítið á sögu, sem gekk einu sinni hjer í bænum, um mann einn, sem sagði öllum það í óspurðum frjettum, að hann væri altaf að græða, og sagði kunningi hans, að hann mundi halda áfram að græða, þar til hann væri kominn á höfuðið. Jeg hygg, að ríkissjóður sje kominn inn á þessa braut. Hann hefir margvíslegan tilkostnað, sem menn halda fram, að hann græði á, en niðurstaðan er sú, að ríkissjóður er að fara eins rækilega á höfuðið og auðið er. Þannig horfir málið við frá mínu sjónarmiði. Jeg geri ekki mikið úr þesskonar mótmælum gegn þessum sparnaði, einkum þar sem þeir, sem málinu eru kunnugastir, telja það vel gerlegt, að spara í þessu efni.

Hæstv. forsrh. (SE) kvað þessa frv. hafa verið minst í erlendum blöðum, og hefi jeg sjeð í skeytum, sem hingað hafa komið, að svo hefir verið. En jeg hygg, að þessarar sparnaðartilraunar verði minst fremur til lofs, einkum í samanburði við annan sparnað, sem nú er talinn nauðsynlegur hjer sem annarsstaðar. En jeg skal fúslega viðurkenna, að jeg hefði verið deigur til þess að ráða mönnum til að leggja þetta embætti umsvifalaust niður, hefði jeg ekki vitað álit þeirra, sem best eru kunnugir málinu.

Hæstv. forsrh. (SE) spurði, hvernig vjer ættum að fá að vita það, sem gerðist í heiminum, eftir að sendiherrastaðan væri lögð niður. Þessu vil jeg svara, að þá vitneskju fáum vjer á sama hátt sem fyr, áður en embættið var stofnað — frá hinni sömu skrifstofu, sem starfað hefir áður um langan aldur, þótt hún væri undir öðru nafni, og ætlast er til, að verði látin starfa framvegis, þó að sendiherraembættið sje afnumið. Það vita allir, að þeir menn munu sitja þar eftir sem áður, sem fullvel má treysta til að gefa stjórninni glöggar upplýsingar um öll þau efni, sem henni er vant að vita.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að svara hæstv. forsrh. (SE) frekar. Það, sem hann sagði, var mest endurtekning á þeim sömu ástæðum, sem hann hefir áður borið fram og jeg hefi svarað, svo sem samanburður við tilkostnað annara þjóða til utanríkismála. Í þeim efnum verður að líta á getu hverrar þjóðar. En því fer fjarri, að jeg vilji gera lítið úr þýðingu utanríkismálanna fyrir oss sem fyrir aðrar þjóðir.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hjelt því fram, að yrði sendiherrastaðan lögð niður, mundi þurfa að greiða sendisveitarritara sem svarar hálfum sendiherralaunum. Hv. þm. hefir ekki gætt þess, að sendisveitarritarastaðan er til nú þegar, og tekur hann laun við sendiherraskrifstofuna í Kaupmannahöfn. Jeg hygg, að menn megi óhætt treysta því, að það sje nálægt rjettu lagi, sem nefndin segir, að þótt greiða verði framvegis eitthvað af þeim kostnaði, sem nú er bundinn við sendiherraembættið, svo sem svarar því, er nú fer í risnufje og húsaleigu, muni sparnaðurinn nema að minsta kosti sendiherralaununum, eða um 20 þús. kr.

Að öðru leyti er það að segja um sparnaðinn af slíkri ráðstöfun sem þessari, að það veldur mestu, hver á heldur. Þetta má framkvæma á þann hátt, að af því verði ómerkilegur sparnaður, en jeg er í engum vafa um, að einnig má framkvæma það þannig, að sparnaðurinn verði að minsta kosti þessi, sem jeg gat um.

Það, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði um afstöðu þeirra tveggja fyrv. ráðherra í Íhaldsflokknum, til þessa máls, skal jeg ekki gera að umtalsefni. En í þessu sambandi vil jeg minna á, að nú virðist mjer að nokkru leyti horfin ein aðalástæðan, sem borin var fram fyrir stofnun þessa embættis, sem sje sú, að vjer teldum oss hafa rjett samkvæmt sambandslögunum til þess að skipa sendiherra. Það þótti þó nokkurs virði að fá þessu slegið föstu í reyndinni, og var þessu haldið fram sem mikilvægri ástæðu af hálfu formælenda þessarar embættisstofnunar. Nú er þessi ástæða horfin, þar sem því hefir verið slegið föstu, með lagasetningu og í framkvæmd, að vjer höfum þennan rjett, sem vjer teljum oss hafa samkvæmt sambandslögunum og fullveldi landsins.