26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í C-deild Alþingistíðinda. (2503)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Jónas Jónsson:

Mig langar til að segja fáein almenn orð um mál þetta nú, af því að ekki er víst, að til þess gefist tækifæri síðar á þessu þingi. Fyrst og fremst er ekki að vita, nema að frv. verði nú þegar felt frá 2. umr., og svo er engin sönnun fyrir því, að enda þótt því verði vísað til nefndar, þá verði það ekki svæft þar. Það hefir sem sje orðið býsna langur áfangi fyrir frv., frá því að það var afgreitt frá hv. Nd. og þar til nú, að það er tekið hjer á dagskrá til 1. umr. Er svo að sjá sem blýsakka hafi verið bundin við það síðan, og er því ekki ósennilegt, að því reynist erfitt flugið í gegnum þessa hv. deild.

Þegar embætti þetta var stofnað, var það meðfram gert til þess að sýna, að við værum fullvalda þjóð. Var einmitt lagt mikið upp úr því, að ef við hefðum sendiherra í Danmörku og Danir sendu hingað sinn sendiherra, þá sýndi það vel, að við værum fullvalda. Nú er það mjög óalgengt, að þjóðir sjeu í miklum vafa um það, hvort þær sjeu fullvalda eða ekki. Veit jeg ekki til, að það hafi komið fyrir nema hjer hjá okkur. Og það var einmitt þessi efi manna, jafnvel einkum þeirra, sem munu vilja telja sig hafa staðið framarlega í samningagerðinni 1918, sem hratt því í framkvæmd, að embættið var stofnað.

Nú vildi svo illa til, að sambandsþjóð okkar sendi hingað sendiherra, sem svar við ákvörðun okkar, en sá ljóður er á, að þessi sendiherra hefir ekki verið talinn í embættisflokki með öðrum sendiherrum, heldur hefir embætti hans heyrt undir annað ráðuneyti, eins og væri hann embættismaður innanlands. Sama máli er að gegna með sendiherra okkar í Kaupmannahöfn. Danir skipa honum ekki á bekk með öðrum erlendum sendiherrum, heldur miklu fremur meðal æðstu embættismanna sinna, eða svo hefir reynslan verið við ýms hátíðleg tækifæri. — Það hefir því farið svo fyrir okkur í þessu máli, að:

„Þetta, sem helst nú varast vann,

varð þó að koma yfir hann,“

því að ekkert styrkir það fullveldi íslensku þjóðarinnar, þó að sendiherrann í Kaupmannahöfn sitji veislur á bekk með Sjálandsbiskupi, hæstarjettardómurunum og öðrum æðstu embættismönnum Dana.

Jeg álít, sem sagt, að öll röksemdaleiðsla um það, hvort við sjeum fullvalda þjóð eða ekki, eins og aðstöðu okkar er nú háttað, sje harla þýðingarlítil og efli á engan hátt fullveldið. Við höfum gert samning við Dani til ársins 1940, og samkvæmt þeim samningi eiga þeir að fara með utanríkismál okkar; þar um verður engu þokað.

En þá er spurningin sú, hvort við höfum betri skilyrði til að njóta fullveldis okkar, eins og því er nú varið, þó að við höfum sjerstakan sendiherra í Kaupmannahöfn. Það er rjett, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði, að sendiherrann hefir farið víða í erindum okkar, t. d. til Englands. En það er rjett að benda á lántökuna í Englandi árið 1921. Að henni vann sendiherrann og hefir eflaust unnið vel; um það efast jeg ekki. En hvernig varð svo niðurstaðan? Þrátt fyrir aðstoð sendiherrans er sannanlegt, að um 100 þús. kr. gengu af láninu til þess að greiða öðrum mönnum með aðstoð við lántökuna. Til samanburðar vil jeg láta þess getið, að S. Í. S. lætur sína fulltrúa erlendis eina gera alla nauðsynlega samninga, hvort heldur um vörukaup eða peningalán er að ræða. Það þarf ekki á neinum aðvífandi milliliðum að halda. Jeg get þessa dæmis til þess að sýna, að ef til vill hefir mistekist að nota aðstoð sendiherra okkar erlendis, þegar mest lá á. — Það er langt frá því, að jeg vilji kasta rýrð á mann þann, sem nú gegnir sendiherraembættinu. Með því að hann er mjög ötull maður, þá býst jeg við, að hann hafi gert meira úr starfi sínu en upphaflega lá í því og rækt að miklu leyti venjuleg ræðismannsstörf, með því, að sinna löndum, sem leitað hafa til hans, á allan hátt. Enda er mjer kunnugt um, að svo hefir verið. En nú vil jeg spyrja: Getur íslenska stjórnarskrifstofan í Kaupmannahöfn ekki gegnt þessum störfum, eins og áður tíðkaðist og eins og gert er ráð fyrir að verði framvegis? Þarf til þess sjerstakan sendiherra? Nú er svo komið, að telja má víst, að sendiherrann segi embættinu lausu og beri því við, að launin nægi ekki. Ef að við þá viljum hafa sendiherra áfram í Kaupmannahöfn, má telja víst, að til þess þurfi alls ekki minna fje en hingað til hefir verið veitt, því að núverandi sendiherra mun alls ekki vera mjög eyðslusamur. En sendiherra, sem stöðu sinnar vegna verður að umgangast háttsetta menn, sem hafa nægu fje úr að spila, getur ekki komist af með lítil laun. Titillinn einn skuldbindur hann til að vera örari á fje en ella.

Það, sem nú er að gerast í þessu máli, bendir í þá átt, að menn telji ekki lengur eins nauðsynlegt að hafa sjerstakan sendiherra í Kaupmannahöfn og áður. Hv. Nd. hefir nú felt niður úr fjárlagafrv. þá upphæð, sem sendiherranum hefir verið greidd, og hæstv. forsrh. (JM) hefir lýst því yfir, að stjórnin muni ekki skipa nýjan mann í embættið, þó að sá, sem nú gegnir því, segi af sjer, sem reyndar er talið alveg víst. Vilji hv. Nd. í máli þessu er ótvíræður, hvort sem hann er rjettur eða rangur. Með því bæði að samþ. þetta frv. og fella fjárveitingu til sendiherrans niður úr fjárlagafrv., hefir sú hv. deild lýst því yfir, að hún vilji afnema embættið. Ennfremur sýnir afstaða hæstv. stjórnar það, að hún vill ekki halda því til streitu, að nauðsyn sje að halda embættinu við líði. Má sjá það á því, að hún ætlar ekki að skipa mann í embættið, ef að það losnar, þó að lögin standi, og gæti hún þó sjálfsagt látið fjárlagaákvæði þoka fyrir frumlögunum.

En ef að við getum vel komist af, án þess að hafa sendiherra í Kaupmh. árin 1925–27 t. d., þá getum við engu síður komist af án þess árin 1928–29, eða yfirleitt til ársins 1940.

Það gengur sú saga, að núverandi sendiherra í Kaupmh. leggi ekki mikla áherslu á það, að nauðsyn beri til að halda embættinu áfram. Jeg veit ekki, hvort þessi orðrómur er sannur og sel hann ekki dýrara en jeg keypti hann; en mjer sýnist sem skoðanir hæstv. stjórnar sjeu ekki langt hjer frá.

Jeg er ekki fylgjandi þessu frv. af sparnaðarástæðum fyrst og fremst. Jeg myndi ekki vera því fylgjandi að spara á þessum lið, ef að jeg áliti það rjett form og heppilegt, að við hefðum sendiherra í Kaupmh. En jeg álít, að við verðum að taka afleiðingunum af því að hafa falið annari þjóð að fara með utanríkismál okkar til 1940. Auk þess er jeg ekki viss um, að svo mikið gagn sje að því að hafa sendiherra í Kaupmh. Það liggur nær mjer að halda, að við það sje tiltölulega lítið unnið; sje miklu fremur dýrt og innantómt form.

Því hefir verið haldið fram, að annaðhvort væri hver þjóð „suværen“ eða ekki, og að ekki væri hægt að tala um hálf-fullvalda þjóðir. En þeir, sem fremst stóðu að samningagerðinni 1918, hafa illa aðstöðu að bera saman fullveldi okkar við fullveldi annara þjóða, sem eru full-„suværenar“ gagnvart umheiminum. Það er leiðinlegt, að jafngreindur maður og hv. 1. landsk. (SE) og fleiri skuli ekki skilja það, að enginn myndi telja t. d. Englendinga jafnsjálfstæða eftir sem áður, ef þeir hefðu falið Þjóðverjum að fara með utanríkismál sín.

Vitur maður hefir sagt við mig, að ástæðan til þess, að menn sæktust svo mjög eftir krossum og öðru þvílíku, væri sú, að þeir væru ekki öruggir í vissunni um eigið gildi, að þeir þyrftu að fá slíkar „etikettur“ til þess að friða samviskuna og styrkja sig í trúnni á verðleika sína. Og það er án efa mikið hæft í þessu. En mjer finst dálítið raunaleg samlíking milli þessa og sendiherraembættisins, þar sem höfuðástæðan til þess að það var stofnað var sú, að undirstrika fullveldissannfæringu þjóðarinnar og styrkja hana í trúnni á fullveldi sitt.

Í fyrra fjekk jeg tækifæri til þess að lýsa því, hvernig jeg vildi láta koma utanríkismálunum fyrir á meðan við erum í þessu hálffullvalda ástandi, sem jeg álít alls ekki, að eigi að vera varanlegt. Við ættum að velja 1 eða 2 unga menn árlega til þess sjerstaklega að stunda nám í hagfræði, lögfræði, heimspeki o. s. frv. í hinum stóru menningarlöndum.

Þegar menn þessir kæmu síðan heim, ætti þjóðfjelagið að hafa til handa þeim stöður, þar sem altaf væri hægt að grípa til þeirra, þegar á því þyrfti að halda að senda menn utan til samninga við aðrar þjóðir. Því höfuðgalli þeirra manna, sem við nú gætum notað til slíkra starfa, er, að þeir hafa ekki, þegar á unga aldri, fengið þann undirbúning, sem aðrar þjóðir veita þeim mönnum, sem fara með utanríkismál þeirra.

Það er alkunna, að Svisslendingar hafa engan fastan her; en þrátt fyrir það æfa allir ungir og hraustir menn þar í landi allskonar hernaðaríþróttir í frístundum sínum. Ef að þeir væru ríkari þjóð, myndu þeir eflaust fara að dæmi hinna stærri þjóða og hafa fastan her, en það gera þeir ekki. Samt er það álit manna, að þeir geti hvenær sem er kallað saman vel æfðan og hraustan her, sem ekki stæði að baki herjum annara þjóða í hreysti og kunnáttu.

Við eigum að fara líkt að með utanríkismál okkar. Við eigum að ala upp menn, sem hafa fullkomna mentun til þess að fara með þau og altaf eru til taks, hvenær sem við kynnum að þurfa að grípa til þeirra.

Það er ekki til neins, að við gefum sjálfum okkur selbita í vasann með því að hafa sendiherra, þar sem honum er tekið nærri því eins og hann væri innlendur embættismaður hjá þeirri þjóð, sem hann er sendur til, og getur því í rauninni ekki verið neinn venjulegur sendiherra, af þeirri einföldu ástæðu, að við getum ekki fengið utanríkismál okkar í eigin hendur, fyr en samningurinn er útrunninn árið 1940. Sagan af sendimanninum til Spánar hjer um árið er gott dæmi þessa. Þá vantaði stjórnina hjer heima rjettargrundvöll til þess að gefa honum umboð sem sendimanni sínum þar suður í löndum.

Þessvegna varð danskur maður að undirskrifa þá samninga.