06.05.1924
Efri deild: 64. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í C-deild Alþingistíðinda. (2622)

42. mál, einkasala á áfengi

Jónas Jónsson:

Jeg er sammála hæstv. fjrh. (JÞ) um það, að ekkert sýnist á móti því, að ríkissjóður fái meiri tekjur af þeim lyfjavínanda, sem notaður er í landinu, en verið hefir hingað til.

Frumástæðan fyrir því, að svo lítið var upphaflega lagt á þennan vínanda, var sú, að sjúkdómum landsmanna myndi ekki svo varið, að líklegt væri, að neysla þessara lyfja yrði mikil.

En síðan hefir það komið í ljós, að heilsufar okkar Íslendinga er þannig, að tiltölulega mjög mikið af vínanda þarf til þess að hressa okkur með.

Þó að ekki sje rjett að leggjast yfirleitt á sjúka menn með skattaálögun, þá munu kringumstæður margra þeirra, sem þessi lyf nota mest, vera þannig, að ekki sje ástæða til að hafa mikið samviskubit, þó að frv. þetta nái fram að ganga.

1. gr. frv. er í samræmi við meðferð þingsins á öðrum málum. Það var tilviljun, sem olli því, að þessar tvær greinar verslunar ríkisins voru aðskildar. Mun það meðfram hafa stafað af því, að lögin um sjerstakan áfengissöluforstjóra voru komin áður en afnám bannlaganna var samþ. í þeirri mynd, sem það nú er.

Þessi sjerstaka forstaða áfengiseinkasölunnar er landinu mjög dýr. Laun forstjórans — kr. 18000 — eru hæstu embættislaun, sem greidd eru hjer á landi, að fráskildum launum bankastjóranna, og er þannig heimtað, að hann sje töluvert duglegri starfsmaður en sjálfir ráðherrarnir.

Jeg geri ráð fyrir því, að ein ástæða þess, hversu frv. þetta fjekk mikinn stuðning í hv. Nd., muni vera sú, að með því sje ríkissjóði aflað tekna, bæði með því að selja lyfjaáfengið dýrara en hingað til, og svo með því að spara — og það ekki alllítið — á forstöðu áfengiseinkasölunnar.