17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2859)

78. mál, kennsla heyrnar og málleysingja

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg verð að fylgja þessari tillögu úr hlaði með nokkrum orðum af hálfu fjvn.

Jeg geri ráð fyrir, að engum deildarmanni hafi komið þessi till. á óvart. Jeg þykist vita, að þeir muni allir hafa lesið athugasemdir endurskoðunarmanna landsreikninganna 1922 um þessa skólastofnun. Í 21. aths. þeirra segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til kenslu heyrnar- og málleysingja hafa á árinu eyðst um 18000 kr., auk húsnæðis, sem ríkissjóður leggur til. Reikningar forstöðukonunnar sýna, að flest hafa verið þar átta börn og stundum aðeins eitt. Að meðaltali virðast börnin hafa verið 5–6. Af þessu sjest, að hvert barn hefir kostað ríkissjóð um 3000 kr., og virðist það óhæfilega hátt, enda bera reikningarnir það með sjer, að t. d. fæði barnanna er dýrara en fæði handa fullorðnum á matsölustöðum hjer í bænum. Ýmislegt fleira virðist þessu líkt“.

Þannig farast endurskoðendum landsreikninganna orð, og hratt þetta fjvn., af stað til að íhuga málið. Nefndin athugaði, hvað þetta skólahald hefir kostað undanfarin ár, og skal jeg nú lesa upp þær tölur.

Árið 1916 voru veittar 7000 kr. til skólahaldsins, en kostnaðurinn varð kr. 9615,73. 1917 aftur áætlaðar 7000 kr., en varð kr. 12123,62. 1918 áætlaðar. 7000 kr., en varð kr. 12070,00. 1919 enn áætlaðar 7000 kr., en reikningurinn varð kr. 12685,00. 1920 áætlun enn 7000 kr., varð kr. 21933,33. 1921 enn áætlaðar 7000 kr., varð kr. 23231,89. 1922 voru áætlaðar 15000 kr., en reikningurinn varð kr. 17966,67, og 1923 áætlaðar 12000 kr., en kostnaðurinn reyndist um 14000 kr.

Auk þessa kostnaðar við skólahaldið skal jeg geta þess, að á fjáraukalögum 1918—1919 sjest, að keypt hefir verið hús undir skólann austan við bæinn, og kostaði það kr. 20925,31, auk veðskulda, sem hvíldu á eigninni. Þá var gert við húsið fyrir kr. 330,19, og árið 1920 var enn gert við það fyrir kr. 1481,73. Auk þessa kostnaðar, sem jeg las upp, hefir skólinn því haft ókeypis húsnæði að minsta kosti 5—6 síðustu árin.

Nefndinni óx þessi kostnaður svo mjög í augum, að hún taldi sjálfsagt að spyrjast fyrir um, hvort ekki mundi mega reka skólann á hagkvæmari hátt. Sneri hún sjer því til manns, sem kunnugur er skólanum frá fornu fari, sjera Gísla Skúlasonar á Stóra-Hrauni, er áður stýrði þessum skóla. Fjekk nefndin umsögn frá honum, sem að vísu er samin í flýti, og skal jeg nú skýra stuttlega frá henni.

Sjera Gísli segir í fyrsta lagi, að mjög hafi verið misráðið að flytja skólann úr sveit, en það mun hafa verið gert 1907. Um það atriði er nefndin honum samdóma, og kem jeg síðar að því. Hann gerir tillögur í stórum dráttum um það, hvernig reka megi skólann í sveit. Hugsar hann sjer, að skólinn væri settur niður á jörð, er ríkið ætti eða keypti í þessu skyni. Þar væri bústjóri, sem ræki bú á eigin reikning, en seldi skólanum allar nauðsynjar. Nemendur fengju vinnu hjá honum og lærðu þannig landbúnaðarstörf. Þá skuli vera eftirlitsmaður, er bæri ábyrgð á skólahaldi og viðurgerningi og kendi eitthvað að auki.

Nefndinni kom til hugar, að skólann mætti ef til vill setja þarna austanfjalls og fá til hans litla og laglega jörð nálægt Stóra-Hrauni, svo að sjera Gísli gæti verið eftirlitsmaður hans.

Þá er gert ráð fyrir einni kenslukonu, og gerir sjera Gísli ráð fyrir, að ekki þurfi fleiri kennara en hana og eftirlitsmanninn. Eftir bráðabirgðaáætlun, sem sjera Gísli hefir gert, ætti skólahaldið að kosta þarna um 9000 kr. með núverandi verðlagi, og er þá gert ráð fyrir 8 nemendum.

Þessar eru tillögur sjera Gísla í stórum dráttum, og er aukaatriðum þá slept.

Þegar fjvn. hafði kynt sjer þessar tillögur, rjeð hún strax við sig að flytja þessa þál.till. um að skora á stjórnina að athuga, hvort þessi flutningur muni tiltækilegur, og framkvæma hann, ef hún teldi heppilegt.

Jeg skal í þessu sambandi benda á, að 1922 voru samin ný lög um skólann, oger þar ekki kveðið á um, hvar hann skuli standa. Frá lagalegu sjónarmiði er því ekkert til fyrirstöðu því, að skólinn verði fluttur í sveit, og þarf enga lagabreytingu til þess. Húseign skólans er áreiðanlega mikils virði. Hann á gott hús og góða og stóra lóð. Ef sú eign væri seld, mundi andvirðið langdrægt nægja til að reisa viðunandi skólahús þar austur frá og kaupa jörð, ef hentug landssjóðsjörð er þar ekki fyrir skólann.

Jeg skal að lokum geta þess, að það var að vísu fjárhagsatriðið, sem hratt nefndinni af stað í þessu máli. En þó að þetta væri tilefnið, þá var öllum nefndarmönnum hugleikið, að á engan hátt yrði þrengt kosti þeirra aumingja, er skólann sækja. Nefndin var þvert á móti samhuga um það, að betur mundi að þeim búið og hollara fyrir þá að alast upp í sveit. Þar gætu þeir lært sveitastörf og búið sig undir það að ala aldur sinn í sveitinni, sem nefndin telur þeim farsælla. Frá þessum tvennum sjónarmiðum vill nefndin mæla með því, að hv. deild taki þessu máli vel og taki undir þessa bendingu til hæstv. stjórnar, að hún rannsaki, hvort eigi megi reka skólann á hagkvæmari hátt í sveit, og hvort þar yrði ekki búið betur að þessum aumingjum.

þar sem menn verða að láta sjer lynda að hafa heilan kennara annarsstaðar.

Af öllum þessum ástæðum er jeg því mótfallinn, að farið verði nú að taka til þeirra ráða að flytja skólann burt úr Reykjavík. Og að fara nú að spara á þessum hluta þjóðarinnar, finst mjer engu líkara en að taka lambið fátæka mannsins og skera það. Hitt er alt annað mál, að reynt sje að koma skólahaldinu hjer svo fyrir, að það geti orðið ódýrara, án óþæginda fyrir nemendurna. Að það sje æskilegt, býst jeg við, að allir geti verið sammála um.