29.04.1924
Efri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (2922)

131. mál, slysatryggingar

Eggert Pálsson:

Jeg ætla ekki að tala langt mál, hvorki með nje móti till. En mjer er ekki vel ljóst, við hvað er átt með orðinu „slysatryggingar“. Við vitum, að orðið „slys“ er notað hjer í mismunandi merkingu. Það er kallað slys, ef menn meiða sig eða missa limi, en það er líka nefnt slys, ef menn farast t. d. voveiflega. Jeg veit ekki, hvort hjer er átt við annað þessara tilfella eða bæði. Ef till. á einnig við líftjón, þá er hjer og um líftryggingar að ræða — og það vildi jeg helst, að almenn líftrygging kæmist á, ef þess væri kostur.

Hinsvegar er mjer ekki heldur fullljóst, hvað felst hjer í till., í orðinu „almenn“, hvort hjer er átt við alla landsmenn jafnt eða ekki. Eftir því, hvernig á að skipa nefndina, þá virðist orðið aðallega ná til verkamanna, og þá einkum við sjávarsíðuna, þar sem Alþýðusamband Íslands á að tilnefna annan manninn, en fjelag botnvörpuskipaeigenda hinn. En, sem sagt, mjer finst till., eins og hún hjer liggur fyrir, ekki vel skýr; en vel má vera, að hún hafi verið skýrð nægilega í hv. Nd.; það er mjer ekki kunnugt um. Annars er jeg ekki með þessum orðum að hafa neitt á móti till., og býst við því, að hún gangi til 2. umr.