02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2997)

143. mál, Landspítalamálið

Jónas Jónsson:

Jeg vil vekja athygli á því, að þetta er ekki vandalaust mál, sem hjer er til umræðu. Eins og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) tók fram, urðu hinar stóru teikningar í fyrra til þess að spilla fyrir málinu, og er ekki hægt að segja, hvað málið hefir skaðast við þær.

Það er rjett, að í þingsályktuninni fellst ekki annað en að láta rannsaka málið á þessum grundvelli. Og að því er snertir 3. lið tillögunnar, vil jeg taka það fram, að jeg tel hann eitt stærsta og þýðingarmesta atriði tillögunnar, því að hitakostnaður slíkra fyrirtækja er oftast stærsti útgjaldaliðurinn. Tel jeg því mikla nauðsyn á, að samið sje sem fyrst við bæjarstjórnina um afnot af hinu heita vatni Lauganna til upphitunar fyrir landsspítalann. Þetta tel jeg svo stórt atriði, að vel getur komið fyrir, að jeg beinlínis verði á móti byggingu landsspítala á næstu árum, ef bærinn vill ekki sýna máli þessu þá velvild og það víðsýni að leggja fram ókeypis náttúrugjöfina, heita vatnið.