02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (3067)

142. mál, framhaldsnám í gagnfræðaskólanum á Akureyri

Forsætisráðherra (JM):

Jeg skal játa það, að jeg skil ekki til fullnustu, hvað farið er fram á í þessari till. Það er rjett hjá hv. þm. Ak. (BL), að ekki þarf að leita samþykkis þings eða stjórnar um það, hvort kennarar megi nota þann tíma, sem afgangs er lögákveðnum kenslustundum þeirra, til kenslu við framhaldsnám. Það eru þeir alveg sjálfráðir um, og ekki nema fallegt af þeim að greiða götu fátækra en efnilegra pilta.

En væri svo, að ekki þyrfti að nota hinar lögákveðnu kenslustundir, 24–27 á viku, við gagnfræðanámið, og væri farið fram á, að einhverju af þeim tíma væri varið til framhaldskenslunnar, þá er hjer öðru máli að gegna. Sje þetta rjett skilið, þá hefir það í för með sjer kostnað fyrir ríkissjóð, þar sem hann þarf þá í raun og veru að kosta nýjan bekk, sem yrði einskonar 4. bekkur. Og sje þessu svona farið, þá er eðlilegt, að kennararnir snúi sjer til þingsins eða kenlumálastjórnarinnar, sem rjettara hefði verið. En það getur verið, að þetta sje misskilningur hjá mjer. Ef ekki er lengur þörf á öllum kenslukröftum, sem nú eru við gagnfræðaskólann, þá liggur beint við að fækka kennurunum, eða sleppa tímakenslu að einhverju leyti.