12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (3176)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi ekki getað sannfærst af rökum hv. þm. Vestm. (JJós). Jeg get að vísu þakkað honum hið hlýja hugarþel til landbúnaðarins, sem kom í ljós í ræðu hans, en þó fanst mjer það vafið inn í nokkuð viðamiklar umbúðir, sem hæglega geta gert hinn góða innmat nálega einskisvirði. Það var tekið fram áðan, að nægilegt væri, að bæði fyrverandi og núverandi forstjórar sjóðsins hefðu lýst því yfir, að landbúnaðarlán úr sjóðnum ættu, að þeirra áliti, að ganga fyrir öðrum lánum. En þessar yfirlýsingar verða ekki mikilsvirði, þó að jeg vilji ekki draga hinn góða vilja forstjóranna í efa, þegar það er athugað, að langmestur hluti sjóðsins stendur nú í kaupstaðalánum. Hvernig stendur á þessu? Ekki er það vegna þess, að þörfin sje ekki fyrir hendi í sveitunum. Annaðhvort stafar þetta af heimsku þeirra, sem í sveitunum búa, eða þá ókunnugleika. Mönnum kemur saman um það, að veð í fasteignum í sveit sje öllu tryggara en í húseignum í kaupstöðum, og þó hefir lítið sem ekkert verið gert til þess að vekja eftirtekt bænda á sjóðnum. Nei, eins og jeg tók áður fram, hafa bændur hjer í nærsveitunum orðið stórfrægir, hafi þeim tekist að fá lán úr sjóðnum. Þessvegna er hætt við því, að þrátt fyrir hin fallegu orð forstjóranna, haldi sjóðurinn áfram að verða fastur í kaupstaðalánum, ef formi hans verður ekki breytt.

Annars vil jeg geta þess, að mjer leikur grunur á, að hv. meirihl. fjhn. hafi ekki orðað nál. sitt í sameiningu, því að hv. 1. landsk. (SE) var ekki eins grimmur í ræðu sinni eins og stendur í álitinu, þar sem svo er komist að orði, að það væri jafnvel móðgun við stofnanda sjóðsins, að lögum hans yrði breytt í nokkru. (SE: Jeg tel það enga móðgun). Nei, mjer heyrðist á ræðu hv. þm. (SE), að við værum þar sammála. Í þessu sambandi má og minna á það, að hæstv. forsrh. (JM) hefir, með því að taka við Staðarfellsgjöfinni á sínum tíma, litið svo á, að breyta megi gjafaskrám að formi til. Þetta er ekki sagt hæstv. forsrh. (JM) til lasts, þó að þessi ráðstöfun hafi ef til vill komið sjer vel fyrir „interessur“ nokkurra manna við Breiðafjörð, heldur til þess að sýna, að hann lítur svo á, að breyta megi stofnskrám slíkra sjóða sem Herdísarsjóðsins. Þá hefir reglugerð Hannesar Árnasonar sjóðsins og verið breytt. Og svona vill oft fara. Þó að sjóður hafi verið gefinn í ákveðnum tilgangi, þá verður reglugerð hans breytt, eftir því, sem með þarf, að dómi síðari síma. Falla því mótbárur þeirra hv. þm. Vestm. (JJós) og hv. 1. landsk. (SE) gegn því, að breyta megi starfsaðferð þessa sjóðs, svo að hann fái tryggari veð fyrir lánum sínum, máttlausar. Eða vilja þessir tveir hv. þm. halda því fram, að ólöglegt hafi verið að breyta stofnskrám Herdísarsjóðsins og sjóðs Hannesar Árnasonar?

Jeg þykist vita, að mikið af lánum úr Söfnunarsjóði sje trygt með veði í timburhúsum, vegna þess, að, eins og allir vita, þá eru flest hús í kaupstöðum, og einkum hin eldri, úr timbri. Svo er t. d. hjer í Reykjavík, og þar stendur langmestur hluti sjóðsins. Hvort er nú tryggara veð, timburhús hjer í Reykjavík eða jarðeign úti á landi? Um það verður ekki deilt. Jeg tek undir með hv. þm. Vestm. (JJós), að af öllum jarðneskum hlutum eru það jarðeignirnar, landið, sem er varanlegasta eignin. En meiri hluti sjóðs þessa er bundinn gegn veði í timburhúsum.

Hv. þm. Vestm. (JJós) sagði, að starfsaðferð forstjóra Söfnunarsjóðsins væri í fullu samræmi við hugsun mína, og þyrfti því ekki að samþykkja tillöguna. Jeg vil neita þessari fullyrðingu. Hugsun mín er sú, að framvegis verði næstum því eingöngu veitt lán til sveitabúskaparins úr sjóðnum, en nú er hverfandi lítill hluti hans bundinn í slíkum lánum.

Þá hjelt hv. þm. Vestm. (JJós) því fram, að það riði í bága við frumhugsun laga sjóðsins, að þeim yrði nú breytt í þá átt, sem till. fer fram á, því að þeir, sem fyrir mörgum árum, t. d. kringum 1890, hefðu lagt fje í sjóðinn, hefðu í raun og veru lagt það með því skilyrði, að lán úr sjóðnum væru trygð svo sem þá tíðkaðist.

Nú vil jeg spyrja hv. þm. (JJós), hvort hann haldi, að þessir aðiljar ynnu málssókn á móti landsstjórninni, sem þeir kynnu að höfða vegna þessarar breytingar? Jeg held ekki, og allra síst þegar þess er gætt, að með breytingunni verða veðin aðeins gerð tryggari, og þurfa innlánsmenn síst að kvarta.

Spurningin verður því aðeins þessi: Á Reykjavík að gleypa sjóð þennan, eða eiga sveitirnar að gera það? Það mun nokkurnveginn óhætt fyrir mig að segja Reykjavík, því að aðrir kaupstaðir munu mjög lítið hafa notað sjóðinn. T. d. hygg jeg, að Vestmannaeyingar, kjósendur hv. þm. (JJós), hafi sama og ekkert fengið að láni úr sjóðnum, svo að hann hefir engra sjerstakra hagsmuna þeirra að gæta í þessu efni.

Jeg viðurkenni, að andi till. fer í þá átt, sem forstjórar sjóðsins hafa talið rjettmæta. En einhverra orsaka vegna hefir verið breytt gagnstætt skoðun þeirra. Sömuleiðis hafa báðir þeir hv. þm., sem hjer hafa talað, fallist á stefnu till., þó að þeir vilji ekki samþ. hana. Ennfremur hefi jeg sannað með dæmunum, sem jeg nefndi, Herdísarsjóðnum og sjóði Hannesar Árnasonar, að þar sem stofnskrám þeirra hafi verið breytt, megi engu síður breyta lögum Söfnunarsjóðsins, og það því fremur sem hann er opinber stofnun undir yfirumsjón Alþingis. (BK: Þetta er ekki sambærilegt). Það er rjett hjá hv. 2. þm. G.-K. (BK), að þetta er ekki fyllilega sambærilegt, því að það ætti að vera ennþá erfiðara að breyta gjafaskrám en lögum Söfnunarsjóðsins, sem á sínum tíma voru sett af Alþingi. Annars er þetta harla einkennileg kenning, bæði hjá hv. 2. þm. G.-K. (BK) og öðrum, að ekki megi breyta lögum sjóðsins vegna stofnandans. Það er rjett eins og ef hv. 2. þm. G.-K. (BK) vildi halda því fram, að ekki mætti breyta vörutollslögunum, vegna þess, að það væri móðgun við hann, þar sem hann mun vera faðir þeirra. Vil jeg óska honum til hamingju með það að hafa „slegið sjer upp“ á slíkri kenningu, og mun hafa þetta hugfast, ef til orða kemur í náinni framtíð, að samvinnufjelagalögunum verði breytt. Mun jeg þá minna hann á, að það væri móðgun við hann, þar sem hann var einn þeirra, sem samþyktu þau lög, þegar þau voru sett.

Það renna því öll rök að því, að samþykkja þessa tillögu. Sjóðnum verður komið fyrir í tryggari lánum, starf forstjóra hans verður mun ljettara, og loks verður sjóðurinn með því móti landinu í heild að ólíkt meira gagni en nú, og er það vitanlega aðalatriðið.