05.05.1924
Sameinað þing: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (3224)

104. mál, fækkun ráðherra

Jónas Jónsson:

Jeg get tekið undir með hv 1. þm. S.-M. (SvÓ), um andófsaðstöðu Framsóknarflokksins. Okkur kemur ekki beinlínis við, hvort ráðherrar Íhaldsflokksins eru tveir eða þrír. Við berum ekki ábyrgð á gerðum núverandi stjórnar og rjeðum því ekki, hverjir þar eiga sæti. En þar fyrir skiftir það máli fyrir álit núverandi stjórnarflokks, hversu hann rjeð fram úr málinu. Og jeg vil nota tækifærið til þess að segja nokkur orð um afstöðu þess flokks til málsins, hvað hann hefir sagt, og hvað hann svo gerir. Íhaldsflokkurinn var ekki formlega til í fyrra; þó hjeldu menn hans saman, höfðu sameiginleg fundahöld og gengu saman til kosninga, og nutu aðstoðar sömu blaða og þeir hafa nú. Þessir menn halda enn saman og hafa bætt einstöku nýliðum við.

Núverandi atvrh. (MG) bar í fyrra fram brtt. á stjórnarskránni, um að aðeins skyldi vera einn ráðherra. Naut hann fylgis flestra sinna núverandi samherja. En við Framsóknarmenn vildum ekki veita þessari till. fylgi, því að okkur þótti of langt gengið að leggja alt stjórnarstarfið og ábyrgðina á því á einn mann.

Í vetur bar 4. landsk. (JM), núv. forsrh., fram brtt. á stjórnarskránni, um að hafa aðeins einn ráðherra. Meðal þeirra, sem studdu þá till. var hv. 1. þm. Rang. (EP), og raunar alt Íhaldið í efri deild. Er mjer nú óskiljanlegt, að þessir menn skuli ekki verða manna fyrstir til að fallast á till. hv. 1. þm. Árn. (MT). Óneitanlega er hún spor í áttina.

Hæstv. forsrh. (JM) kvaðst ekki munu taka neitt tillit til þess, hvort till. hv. 1. þm. Árn. (MT) nær samþykki eða ekki. Hann hefir þá alveg hringsnúist í þessu máli á fáeinum dögum. Er enn ósjeð, hvernig honum tekst að afsaka þennan snúning sinn gagnvart þjóðinni.

Þótt stjórnarskráin geri ráð fyrir þremur, eða að minsta kosti fleiri en tveimur ráðherrum, hafa bæði núv. og fyrv. forsrh. skapað fordæmi um, að komast mætti af með tvo. Óska jeg að fá skýringu á því, hvað valdi þessari stefnubreytingu hæstv. forsrh. (JM) og flokks hans. Liggur nærri að ætla, að þegar til kom, hafi græðgi stjórnarflokksins Í ráðherradóm verið svo mikil, að hann vildi heldur hverfa frá fyrri stefnu sinni en missa af bitunum. Hefir löngunin verið svo mikil, að flokkurinn hefir ekki sjeð sjer fært að hafa tölu ráðherranna lægri en 3. Nú skildist mjer á hæstv. forsrh. (JM), að flokkurinn hafi ekki fengið þessu ráðið, heldur formaður núverandi stjórnar. Vænti jeg þess því, að flokkurinn sýni nú hvað hann vill. Eða fær stjórnin og flokkurinn skipanir frá útlöndum? Það er alkunna, að meðal aðalstuðningsmanna flokksins eru erlendir menn, sem leggja blaði flokksins rekstrarfje og hafa barist með flokknum við kosningar. Þykir mönnum þessir menn hafa gerst óþarflega hlutsamir um íslensk mál. Standa sumir þessara manna á mjög lágu menningarstigi, eftir vitnisburði fyrv. aðalritstjóra Íhaldsflokksins, sem mest kynni hefir af þeim haft. Ætti flokkurinn að snúa sjer að því að berja þá til bókar, þótt vonlítið sje talið um suma þeirra, að þeir skáni nokkuð. (BK: Jeg held þá, að heppilegast væri að byrja á hv. 5. landsk.) Hv. 2. þm. G.-K. (BK) hefir aldrei lært neitt nema að gefa þjóðinni vottorð um andlega og efnalega örbirgð sína. Hann ætti því síst að spilla fyrir, að húsbændur hans fengju hæfilegra uppeldi en verið hefir.

Hjer hefir Íhaldsflokkurinn gengið móti orðum sínum og á móti vilja þjóðarinnar. En Framsóknarflokkurinn heldur fast við sína skoðun. Reynslan undanfarið ár sýnir, að nóg er að hafa tvo ráðherra. Aðalatriðið fyrir stjórnarflokknum er að skýra, hversvegna nálega allir flokksmenn hafa snúist, án tilefnis, ef þeir eru nú með þremur ráðherrum. Með atkvgr. festa þeir snúning sinn skjallega.