22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (3321)

92. mál, þegnskylduvinna

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) virtist óttast það mjög, að lögboðin þegnskylduvinna drepi allan „idealisma“. En ef svo væri, þá er ekki unt að hugsa sjer nokkra ættjarðarást, þar sem er herskylda, eða fróðleiksfýsn, þar sem skólaskylda ríkir. Hjer er ekki heldur farið fram á neina þvingun. Við flm. till. höfum kappkostað að fara hjer meðalveg milli þvingunar og sjálfræðis, þá leið, að meirihluti ráði úrslitum um þegnskylduvinnu í hverju hjeraði.

Það er gamall og góður siður að tala um þrælkun í sambandi við þetta mál. En þrældómur er ekki kominn undir því, hvort kaupið er hátt eða lágt. Sá er oft mestur þræll, sem vinnur fyrir hæstu kaupi.

Þá er það auðvitað, að ýmsir annmarkar geta verið á framkvæmdum í þessu efni. Til eru ekkjur, sem eiga aðeins einn son, eins og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) benti á. En slík dæmi gerast líka í löndum, þar sem herskylda er, og engum dettur í hug að láta slíkar undantekningar standa fyrir framkvæmd þegnskyldunnar, í hvaða mynd sem er.

Jeg lít svo á, að þetta sje eitt merkasta málið, sem liggur fyrir þessu þingi. Það verður tekið eftir atkvæðagreiðslunni um það um land alt. Það eru fleiri ráð til viðreisnar en að skera af fóðrum. Menn verða að hafa það hugfast að viðreisnin er aldrei eingöngu fólgin í sparnaði og niðurskurði. Þótt íhaldið sje nauðsynlegt, verður framsóknin að fylgja, ef vel á að fara. Viðreisn verður aldrei, nema örðugleikunum slái inn og veki þrek og þor með þjóðinni, þjóðrækni og þegnskyldu. Það eru flestir farnir að sjá, að eina ráðið til að verklegar framkvæmdir falli ekki því sem næst niður, er að taka upp þegnskylduvinnu. Við stöndum nú á tímamótum. Ný stjórn tók við völdum í dag. Síðasta málið, sem var felt, áður en hæstv. stjórn tók við, var frv. um að fella niður prentun þingtíðindanna. Fyrsta málið, sem samþykt yrði, ætti að vera sú tillaga um þegnskylduvinnu, er við berum hjer fram, þótt jeg sje ekki stuðningsmaður hæstv. stjórnar, virðast mjer þetta góð sólarmerki, ef mark er á slíku takandi.