03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í D-deild Alþingistíðinda. (3369)

129. mál, klæðaverksmiðja

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg vil taka undir með hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að jeg tel ekki rjett að svo komnu að samþykkja hjer á þinginu, að bygð skuli ein stór dúkaverksmiðja fyrir landið alt. Það má vel vera, að það reynist ráðlegt á sínum tíma. En nú virðist annað standa nær, sem rannsaka þarf og hrinda í framkvæmd.

Hjer hafa komið fram till. við umr. fjárlaganna um lánveitingar til tóvinnuvjela. En þeim hefir verið hafnað vegna þess, að ekki væri fje til. En ef fjárhagnum er svo komið, að ekki sje fært að samþykkja slíkar tillögur, þá skil jeg ekki, að til sje miljón króna, þegar um þessa þál. er að ræða. Nema nú sje fulla pontan á lofti, þótt sú tóma væri boðin fram, þegar um tóvinnuvjelarnar var að ræða. Nú virðist mest nauðsyn á því að koma á fót kembi- og lopavjelum, sem svo yrðu undirstaða spunavjela, vefstóla og prjónavjela á heimilunum. Þessi atriði þarf ekki síður að rannsaka, og því er það, að jeg fylgi fremur brtt. á þskj. 457 heldur en aðaltill. Brtt. er yfirgripsmeiri. Hún grípur yfir þetta, sem jeg talaði um. og líka hinn stærri atvinnurekstur í þessari grein. Jeg legg áherslu á það, að tíminn er enn ekki kominn til þess að gera ályktun um það að koma upp einni stórri verksmiðju. Til að ákveða slíkt, þarf meira en að kalla á einn Englending. Hjer þarf meira en að reikna og reikna. Það verður að líta á fleiri hliðar málsins en þá „teknisku“. Það er því líkt sem sumum finnist, að alt sje komið, ef fenginn er útlendingur, sem lítur köldum augum á þessa einu hlið málsins.

Í þessu efni er mest vert um menningarhliðina, eins og í öllum málum. Menningargildið er meginhlið allra þjóðmála. Tilgangur allra stjórnarstarfa á að vera sá að gera mennina sjálfa göfuga og líf þeirra glæsilegt. Það vegur miklu þyngra heldur en hið „tekniska“, sem reikna má og teikna. Hjer er verið að veifa áliti útlendinga, sem engan skilning hafa á okkar þjóðlífi, og ekki síst okkar fornu þjóðmenningu, sem sumir kjósa heldur að blómgast megi að nýju í okkar landi, en að þjóðin ani ofan í þá vök, sem stórþjóðirnar hafa búið sjer með stóriðju sinni og vjelamenningu. Menning á að vera okkar leiðarorð í öllum þjóðmálum. Það bendir á þann tilgang okkar þjóðfjelags að efla mennina en ekki vjelar eða fyrirtæki í öðrum tilgangi en þeim, sem menningu í landinu og mentun er fyrir bestu.

Það er stórþjóðunum hið mesta vandræðamál, að allur iðnaður er horfinn af heimilunum í verksmiðjurnar. Því að þótt hægt sje að reikna það út, að ein stór verksmiðja sje arðvænlegri en smærri iðnaðarrekstur, þá er ekki víst, að hún sje eins holl fyrir menningu þjóðarinnar, ef hún á að vera ein um hituna. Það er ekki heldur víst, að ástæður vorar sjeu nú svo góðar, að hægt sje að ráðast í slíkt fyrirtæki. Það má líka teikna og reikna það út, að ódýrara sje fyrir Reykjavík að elda matinn handa borgarmönnum í einu eldhúsi. Það má kanske reikna út, að það yrði hálfu ódýrara en nú er. En samt held jeg, að seint muni verða horfið að því ráði að rýra þannig heimilið. Þetta segi jeg ekki af því, að jeg óttist eina stóra íslenska ullarverksmiðju í sjálfu sjer. Jeg tel hana ekki hættulega, nema að því leyti sem hún dregur út af heimilunum það verk, sem þar ætti að vinna. En svo mun fara, ef nú er einblínt á eina stóra verksmiðju einhversstaðar í framtíðinni, að þá verður vanrækt alt það, sem nú er hægt að gera fyrir tóvinnu á heimilunum, þrátt fyrir alla kreppuna, og sem nú verður að gera einmitt vegna kreppunnar. Nú á það að sannast, að neyð kenni naktri konu að spinna. Að því á nú að beina áhuga þjóðarinnar og kröftum að koma upp kembi- og lyppivjelum til stuðnings heimilisiðnaðinum. Mikill áhugi er víða vaknaður á því að efna til spunavjela, og ástæða virðist til þess að vona, að á þennan hátt takist að bæta úr því mikla tjóni, sem af hnignun heimilisiðnaðar hefir leitt. Það mun enginn iðnaður eins vel til þess fallinn að vera heimilisiðnaður og einmitt tóvinnan. Takist ekki að tryggja heimilunum hana, þá er útsjeð um örlög íslenskrar heimilismenningar.

Jeg fylgi því eindregið brtt. á þskj. 457. Hún felur í sjer rannsókn ullariðnaðarmálsins yfirleitt, án þess, að ákvörðun sje tekin um það, hvaða leið skuli farin í því efni.

Bestu vjelarnar, sem upp hafa verið fundnar, eru ekki þær, sem glamra í verksmiðjum, heldur vjelarnar, sem notaðar eru á heimilunum, prjónavjel, saumavjel, vefstóll o. s. frv. Till., sem nú verður samþykt, mun hafa nokkur áhrif á það, hver háttur verður á tóvinnu hjer á landi framvegis, hvort öll ull verður send til Gilitrutt, eða hún unnin heima, í kembi- og lopavjelum hjeraðanna, spunavjelum hreppanna og vefstólum og prjónavjelum heimilanna.

Kolin hafa yfirleitt reynst allri heimilismenning illa. Land okkar er land hinna hvítu kola, en það er útlit fyrir, að rafstraumarnir, sem veita má inn á hvert heimili, reynist í því tilliti betur. Verður þá iðnaðarsaga Íslands ekki eins sótug og saga stóriðjunnar.