03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í D-deild Alþingistíðinda. (3370)

129. mál, klæðaverksmiðja

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg hefi enga löngun til þess að fara út í ræðu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), svo löng sem hún var og ofan og neðan við efnið. En vegna þess, að mjer virtist hv. þm. (ÁÁ) bera lítið skyn á efnið, þá vil jeg benda á það, að nú er í Englandi Íslendingur, sem er að læra ullariðnað. Hann hefir skrifað um málið og kemst alveg að sömu niðurstöðu og við fim. Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa fá orð úr grein þessa manns. Þar segir svo:

„Verksmiðja með 16 vefstólum mundi framleiða 331/8% minna en verksmiðja með 24 vefstólum, en myndi þó einungis verða ca. 20% ódýrari“.

Ennfremur segir hann, að verksmiðja með svona mörgum vefstólum, er unnið gæti ásamt t. d. Gefjuni alla þá ull, sem við þurfum til dúka, mundi verða ca. 180,000 kr. þetta er furðulágt áætlað, en mig brestur þekkingu til þess að geta sagt, hvað á milli ber. En þessi tilvitnun sýnir samt, hvílík fásinna það er, sem þeir halda fram, hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Ef kembi- og lopaverksmiðja er gerð að fullkominni ullarverksmiðju, þá á hún að verða mannskæð. Þessvegna eigum við að halda áfram með smáiðjuna, þótt hún sje ófullkomnari og miklu dýrari. Þetta er verra en engin skoðun. Það þýðir ekki að blanda hjer inn í neinum fjálgyrðum. Það þýðir ekki að hugsa til þess að koma upp heimilisiðnaðinum í þeim stíl, sem áður var. það er hægt að hjálpa heimilisiðnaðinum með ódýrari ullarkembingu í stórum verksmiðjum, og þessvegna er rangt að vinna að því að leggja byrðar á hjeruðin með því að stuðla til þess, að þau útvegi sjer sjálf litlar lopavjelar.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði, að tekið hefði verið illa slíkum till., er ræða var um fjárlögin. það er rjett. Þessi hv. þm. (ÁÁ) bar þar fram 40 þús. kr. lánbeiðni til þess að koma upp kembivjelum fyrir Vestfirði. Tvær ástæður voru til þess ; önnur sú, að ekkert fje var til. Og hin sú, að nefndin var mótfallin slíkum framkvæmdum.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) taldi, að hjer væri í mikið ráðist með stofnun svo stórs fyrirtækis. En hjer er ekki að sinni um annað að ræða en að halda málinu vakandi og gera þær ráðstafanir, sem hægt er, til þess að tryggja það fyrirfram, að málinu verði stefnt í rjetta átt, úr því að byrjað er að framkvæma það.

Jeg mun svo ekki þrátta meira við hv. flm. brtt. um skoðanamun okkar. Jeg vænti, að framtíðin leiði í ljós, að jeg hafi á rjettu að standa í þessu máli.