22.02.1924
Efri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (3428)

23. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jónas Jónsson:

Vegna þess, að ekki kemur skýrt fram í dagskrártill. hv. þm. Vestm. (JJós), hvort fjhn. skuli bæta við sig tveim mönnum, ef till. verður samþ., skal jeg beina þeirri spurningu til hv. flm. (JJós), hvort hann telji dagskrártill. vera bindandi fyrir fjhn. í þessu efni.

Annars fæ jeg ekki betur sjeð, en að mun heppilegra verði að skipa nefnd samkv. till. okkar. Mál þau, er nú liggja fyrir, eru þess eðlis, að enda þótt þau sjeu að vísu fjárhagsmál, þá heyra þau ekki sjerstaklega undir fjhn., heldur verða þau að ræðast á viðskiftagrundvelli.

Auk þess má vænta þess að þetta verði í eina skiftið, sem sum þeirra, t. d. norska kjöttollsmálið, þarf að ræða hjer á þingi það viljum við a. m. k. vona. Þá er gengismálið mál, sem ekki þarf að ræða á „normal“ tímum. Yfirleitt má segja, að mál þau, er hv. flm. (EÁ) tók fram, að ætlast væri til að hyrfu undir starfssvið væntanlegrar viðskiftamálanefndar, sjeu þess eðlis, að þau heyri engan veginn til hinum venjulegu úrlausnarefnum fjhn., og er því full ástæða til að samþ. þáltill. og skipa nefnd þá, er þar um ræðir. Mun jeg því greiða atkv. á móti dagskrártill., en vil þó gjarna fá áður umbeðna skýringu.