25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (3453)

62. mál, kosningar í bæjarmálefnum Reykjavíkur

Frsm. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. er eitt af þeim mörgu smámálum, sem allsherjarnefnd hefir haft til meðferðar og leggur til, að verði samþykt. Frv. þetta er í aðalatriðum þess eðlis, að spara þessum bæ töluvert fje, með því að gera mögulegt að nota sömu kjörskrá til bæjarstjórnarkosninga sem alþingiskosninga. Upphæðin, sem bænum sparast við það fyrirkomulag, skiftir þúsundum króna. Annað mikilvægt atriði frv. er rýmkun kosningarrjettarins til bæjarstjórnarkosninga, að hann sje ekki lengur bundinn við skattgreiðslur. Hv. Nd. og allshn. þessarar háttv. deildar hafa ekki sjeð ástæðu til að amast neitt við þessari breytingu, úr því bæjarstjórn Reykjavíkur vill, að sami kosningarrjettur gildi til þessara tveggja kosninga.