01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

17. mál, eftirlit með lyfjabúðum o. fl

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Í sjálfu sjer þarf jeg engu að bæta við nál. fjhn. Bæði er það, að málið er næsta einfalt og frv. líka mjög óbrotið. Frv. miðar að því, að ljett sje af ríkinu kostnaðinum við eftirlitið með lyfjabúðunum og útgáfu lyfjaskrár. Og þar sem það mun venja annarsstaðar, að lyfjabúðirnar sjálfar beri kostnaðinn af þessu að mestu eða öllu, þá fanst nefndinni rjett, að sú venja yrði líka hjer tekin upp, og hefir því fallist á frv., eins og sjá má af nál.

Nefndin hefir leitað umsagnar lyfsölustjóra um það, hvort ekki væri ástæða til að jafna kostnaðinum á hina einstöku niður eftir verslunarveltu, en hann taldi það óþarft, þar sem upphæðin, sem til þessa færi frá hverri einstakri lyfjabúð, væri svo lág, að hún myndi ekki íþyngja neinni þeirra að neinum mun.

Þá töldum vjer rjett, að þess væri getið í lögunum, að gjaldið ætti að renna í ríkissjóð og eins, að það mætti taka lögtaki. Ætlast fjhn. til, að frv. verði samþykt með þessum breytingum.