28.02.1924
Neðri deild: 10. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Halldór Stefánsson:

Jeg vil einungis gera örstutta athugasemd. Frv. er stutt með þörf ríkisins á auknum tekjum, og skal jeg ekki rengja, að sú þörf sje brýn. En ekkert tillit er tekið til, hvort gjaldþol almennings þolir slíkar álögur. Jeg skal játa, að rjett hugsun liggur á bak við frv. að því leyti, að tekjur ríkissjóðs hafa rýrnað mjög við lækkun krónunnar. En ef það er allur vandinn til þess að koma ríkissjóði úr kreppunni, að fara dýpra ofan í vasa almennings, þá er það viðfangsefni tiltölulega auðvelt. En geta almennings þolir það ekki, því að það er sannast að segja, að þjóðin er nú þegar ofhlaðin sköttum. Gæslan á hag ríkissjóðs verður því fyrst og fremst að byggjast á sparnaði á því fje, sem honum hlotnast. Hvort skyldi vera meira um vert hag ríkissjóðs eða hag almennings! Hagur almennings er undirstaðan undir hag ríkissjóðs, en ríkissjóður er yfirbyggingin á hag alþýðu manna. Um leið og hag hennar er þrengt fram yfir það, sem hann getur borið, er verið að grafa undan hag ríkissjóðs. Það fyrsta, sem gera þarf til þess að bæta hag ríkissjóðs, er því að bæta almenn atvinnuskilyrði í landinu, og þá fyrst með því að ljetta byrðar almennings. Jeg tel, að menn ættu að leggja meiri áherslu á aðrar ráðstafanir til að rjetta við hag ríkissjóðs en hjer er farið fram á. Jeg vildi einnig fá að vita, hve víðtækar og róttækar ráðstafanir þingið vill gera til viðreisnar genginu, sem varðar bæði hag almennings og ríkissjóðs. Þó að reynt verði að kúga meira fje út úr alþýðu með auknum álögum, óttast jeg, að menn fari því óvarlegar með það, sem meira fje er í ríkissjóðnum.