10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

20. mál, kennaraskóli

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það má segja um hv. þm. Borgf. (PO), að hann sje furðu tortrygginn um alt, er lýtur að útgjöldum ríkissjóðs. Hv. þm. hefði heldur átt að sýna þessa tortryggni sína við 1. eða 2. umr. þessa máls, en bíða ekki þannig til síðustu stundar, eins og hann nú hefir gert. Hefði hv. þm. Borgf. haft nokkra von um að hindra framgang þessa frv., átti hann að gera tilraun til þess þegar málið kom fyrst fyrir í deildinni, en ekki nú, er frv. hefir verið samþykt til 3. umr. með 18 atkvæðum. Ástæðan til þess, að jeg tók til máls, var aðallega sú, að sýna, út á hverjar villigötur sparnaðarhugur sumra hv. þm. er kominn, er þeir vilja ekki lengur spara fjeð eingöngu, heldur og krafta opinberra starfsmanna ríkisins. Frv. fer fram á, að kennarar kennaraskólans vinni einum mánuði lengur ár hvert en þeir hafa gert, og þeir hinir sömu óska þessa sjálfir og krefjast engrar launaviðbótar fyrir, en hv. þm. Borgf. er svo mikill sparnaðarmaður, að hann vill ekki leyfa þetta. Hann er hræddur um það, að ef einhver opinber starfsmaður er látinn vinna eitthvað að ráði, verði einhver stórfeld hætta á því, að hann kunni að fá launahækkun eftir á. Jeg hygg, að hv. þm. sje óhætt að bíða með þann ótta þar til krafan um launahækkun er komin fram; enda sje jeg ekki, að nokkur þurfi að álíta, að þó hann greiði atkv. með þessu frv., þá hafi hann þar með viðurkent ókomnar kröfur kennara um launahækkun.

Hv. þm. telur frv. hafa aukin útgjöld í för með sjer. Jeg vil því hjer með óska þess, að hann beri nú þegar fram ákveðinn útreikning yfir þau útgjöld, í stað þess að koma með óákveðnar dylgjur, sem eingöngu eru bygðar á misskilningi. Jeg hygg, hv. þm. hafi varla lesið nál. til hlítar, eða að minsta kosti ber það ekki vott um nákvæman lestur, er hann hefir ekki lesið það, sem stendur í nál., að til þess að bætt verði við enskri tungu sem skyldunámsgrein, þarf að klípa af öðrum námsgreinum, sem þar eru kendar, nálega sem svarar því, sem við er bætt í stundatali. Er þá auðskilið, að kostnaðurinn við kensluna verður ekki meiri en hann er nú. Þess er og getið í nál., að skólinn er að nokkru leyti starfræktur alt þetta tímabil, frá 1. okt. til 15. maí, vegna æfingadeilda skólans. Ljós og hiti verður því vart meira notað en nú er gert, en að mun betur notað en ella, ef frv. verður að lögum. En hv. þm. Borgf. er svo mikill sparnaðarmaður, að hann vill ekki nota starfskrafta kennaranna betur en áður, og auk þess bannar hann einnig, að ljósið og hitinn verði betur hagnýtt en nú er. Hvað sem þessum aukna kostnaði líður, er hv. þm. hræðist, verður hann aldrei meiri en sem nemur 200–300 kr. Geti ríkissjóður ekki staðist þennan kostnað, ætti hv. þm. Borgf. að koma með frv. um, að kennarar skólans tækju sjálfir á sig þennan aukakostnað, og veit jeg, að þeir mundu ekki undan því skorast, ef það eitt er því til fyrirstöðu, að þessar umbætur fáist á skólanum.

Þá talaði hv. þm. um enskunámið og taldi, að að litlu gagni mundi verða á svo stuttum tíma. Það er alkunna, að undirstöðuatriði þessa máls má læra á skömmum tíma, en til þess að læra það til fullnustu þarf aftur á móti mjög langan tíma. Sá, sem lært hefir undirstöðuatriði enskunnar í tvö ár, getur haldið náminu áfram í tíu ár og altaf verið að læra betur. Um þetta deili jeg ekki við hv. þm. Borgf. Hann hefir ekki betur vit á þessu máli en jeg.

Það, sem felst í þessu frv., er því það, að kennaraefni eiga að fara betur undirbúin frá skólanum til síns starfs en áður var. Hv. þm. lítur ekki á gagnið, sem kennararnir hafa af auknu námi, og ekki á þann hag, sem þjóðin hefir af bættri mentun þeirra; nei, hann lítur á þann kostnað einan, sem námsfólkið hefir, og atvinnumissi. Svo jeg víki aftur að nál., þá er það ljóslega tekið fram, að þetta svokallaða atvinnutjón nemenda er ekki svo mikið, að nemi þeim mánuði, sem námið lengist um. Ferðum er svo háttað hingað, að kennaraskólanemendur verða oftlega að vera komnir hingað til Reykjavíkur 1. okt. Hefir þetta mál verið borið undir þá, og hafa þeir óskað eftir lenging skólatímans. Fátækir nemendur, sem kostnaðurinn lendir á, óska eftir honum, og eru því æðimiklu örlátari en hv. þm. Borgf., þótt minni hafi þeir fjárráðin. Þegar jeg hlusta á fræðslumálaræður hv. þm. Borgf., koma mjer í hug afskifti hans af þeim málum á fyrri þingum, en mjer kemur einnig í hug ræða, sem jeg heyrði konu úr kjördæmi hans halda í vor sem leið hjer í Rvík. Það var eldheit áhugaræða móður, sem kappkostar að uppfræða börn sín sem best, en ræða hennar var um leið þungur dómur yfir þeim mönnum, er vilja svifta mæðurnar þeirri litlu hjálp, er þjóðfjelagið veitir þeim. Jeg spurðist fyrir um það, hvaðan sú kona væri, og þá undraðist jeg ekki, er jeg frjetti, að hún væri úr kjördæmi hv. þm. Borgf., þótt nokkurs hita kendi í ræðu hennar. Þetta frv. verður alls ekki til aukinna útgjalda, heldur þvert á móti til mikils sparnaðar, er meira gagn verður að því fje, sem veitt hefir verið til barnafræðslunnar, vegna þess að kennararnir verða að mun betur undir starfa sinn búnir. Ef hv. þm. Borgf. skilur ekki þann sparnað, sem í þessu er falinn, má vel segja um hann, að sparnaðarhugur hans vaði áfram með auðar augnatóftir og „slái alt hvað fyrir fyrir er“, án tillits til, hvort gott er eða ilt.

Þótti mjer hálfundarlegt að heyra hann lá hæstv. stjórn, að hún kom fram með frv. þetta, því hjer er hún í fullkomnu samræmi við stefnu þess flokks, sem hv. þm. telst til. Fyrir örfáum dögum stóð með skýrum stöfum í stefnuskrá þess flokks, að hann myndi kappkosta að styðja atvinnuvegi þjóðarinnar með löggjöfinni, þar sem ekki væri um bein útgjöld ríkissjóðs að ræða. Hjer er um engin aukin útgjöld að ræða fyrir ríkissjóðinn, en hinsvegar einsýnn hagur að breytingunni. Hv. þm. hefir því augsýnilega láðst annaðhvort af tvennu, að íhuga nægilega vel stefnuskrá Íhaldsflokksins áður en hann skrifaði nafn sitt undir hana, eða hitt, að gera sjer nógu ljóst, hvers eðlis þetta frv. er, áður en hann reis á móti því.