22.03.1924
Efri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2377 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

Stjórnarskipti

forsætisráðherra (JM):

Vjer þrír, er nú höfum gengið í ráðuneytið, höfum nýlega ásamt öðrum flokksmönnum Íhaldsflokksins undirritað yfirlýsing um verkefni þess flokks. Vjer munum leggja alt kapp á að starfa að þeim verkefnum, sem þar um ræðir, og í anda þeirrar yfirlýsingar. Fyrst og fremst með því að gera alt, sem í voru valdi stendur, til þess að reisa við fjárhag ríkissjóðs, fella niður öll þau gjöld hans, sem vjer telum án mega vera. Það verður sennilega ekki hjá því komist í bili að auka að einhverju álögur á þjóðina til þess að rjetta við hag ríkissjóðs. En vjer vonum, að það takist með góðri samvinnu að þessu leyti við Alþingi að draga svo úr gjöldunum, að bráðlega megi lækka álögurnar, sjerstaklega þær, sem þyngst hvíla á atvinnuvegum landsins. Vjer munum gera alt, er vjer megnum, til þess að styðja atvinnuvegina til lands og sjávar.

Og þótt vjer búumst við, að til þess verði að taka um sinn að leggja höft nokkur á verslunarviðskifti út á við, til þess að rjetta við hag landsins í heild, þá viljum vjer gera vort til, að hagað verði svo til, að sem minstur bagi verði fyrir heilbrigða verslun, hvort er kaupmanna eða kaupfjelaga.

Vjer munum leggja alt kapp á að varðveita vináttu annara þjóða, fyrst og fremst sambandsþjóðar vorrar, Dana, og hinna annara þjóða, er við eigum viðskifti við.

Það er að vísu svo, að erfiðleikar þeir, er vjer eigum við að stríða um þessar mundir, eru með meira móti. En ekki má örvænta fyrir því. Jeg veit það, að eyjan hvíta

á sjer enn vor, ef fólkið þorir

guði að treysta, hlekki hrista,

hlýða rjettu, góðs að bíða.

Hret hefir verið um alllanga stund, en jeg hygg aðeins vorhret. Og mjer sýnist ýms merki til þess, að það sje farið að birta í lofti. Eftir þeim skýrslum, er fyrir hendi eru, sýnist útkoman á verslunarskiftum vorum við útlönd árið sem leið tiltölulega góð, og nú er árvænlegt. Jeg vona, að þjóðin hristi af sjer þá hlekki, sem leggjast ætla á traustið og trúna á framtíð landsins, treysti guði, hlýði rjettu, og bíði svo örugg góðs.

Og jeg treysti því, að hvernig sem afstaða Alþingis er og verður gagnvart oss þremur, sem ráðuneytið skipum, þá vinni allir alþingismenn af heilum hug með oss að þeim viðfangsefnum, er jeg hefi sjerstaklega nefnt, sparnaði á ríkisgjöldunum og efling atvinnuveganna. Verði það, þá mun vel fara.