10.04.1924
Efri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

11. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. er vel undirbúið. Fyrst og fremst var þetta mál undirbúið af milliþinganefnd, sem starfaði fyrir nokkrum árum. Síðan hefir hæstv. stjórn tekið það að sjer, að jeg held í samráði við forstöðumann stýrimannaskólans. Síðan fór það til mentmn. Nd. og var samþykt í hv. Nd. með miklum atkvæðamun. Mentmn. þessarar deildar leggur til, að það verði samþykt hjer.

Það hefir verið alment álit, að þessi skóli væri að sumu leyti of ljettur og að þaðan útskrifuðust fleiri menn en nauðsynlegt er fyrir siglingar landsins og útveg. Hafa því undanfarið heyrst raddir um að þyngja skólann, svo að þangað. leituðu ekki miklu fleiri en nauðsynlegt er. Á togurum og millilandaskipum hefir stundum verið alt að því helmingur skipsmanna prófaðir skipstjórar. Aðsókn að skólanum er mikil, en inntökuskilyrði væg og duglegir menn eru látnir sitja sama bekk og hinir miður hæfu; þeir fá því ekki jafnmikla og ítarlega kenslu og þeir verðskulda. En liðljettingarnir fljóta með.

Í nál. mentamálanefndar er það tekið fram, að við leggjum mikla áherslu á það við hæstv. stjórn, að reglugerðin, sem frv. ræðir um, verði höfð þung, svo að ekki komi aðrir í skólann framvegis en þeir, sem ástæða er til að halda, að geti notið vel námsins og fullnægt öðrum skilyrðum. Komið hefir til tals að heimta gagnfræðamentun til inngöngu í skólann. En menn, sem starfa við skólann, telja það miður heppilegt, því þó það sje æskilegt, að nemendur hafi bóklegan undirbúning, má ekki um of einblína á bóklega þekking í þessum efnum. Það er ekki happ fyrir útveginn að hafa völ á mörgum stofulærðum skipstjórum, ef þá skortir hreysti, harðfylgi og veiðisælni sjómanna. Þess vegna verður að sigla milli skers og báru, og tjáir ekki að hafa bókleg inntökuskilyrði alt of þung. Það þarf að gera mismunandi kröfur til þeirra, sem eiga að vera skipstjórar á fiskiskipum, og hinna, sem eiga að stýra fólksflutningaskipum hjer við land eða milli landa. Slíkir menn þurfa að vera vel mentaðir menn að bókþekkingu.

Það hefir viljað svo vel til, að um leið og íslenski flotinn myndaðist voru til margir duglegir skipstjórar, sem hafa orðið landinu til sóma fyrir hreysti og harðfylgi. En þeir munu viðurkenna fúslega, að þeim hafi á æskuárum ekki verið veitt nægileg bókleg mentun. Á millilandaskipum er það stundum bagalegt, að skipstjóri skuli ekki geta fleytt sjer sæmilega í ensku. En til þess eru dæmi. Þetta segi jeg alls ekki í niðrunarskyni. Þessir menn hafa komist lengra í bóklegum fræðum en búast mátti við eftir aðstöðunni. Jeg hefi minst á þetta svo sem til leiðbeiningar við samningu reglugerðarinnar.

Tilgangur skólans á að vera tvenskonar: að undirbúa dugleg fiskimannaefni fyrir stöðu sína og ennfremur að veita þeim mönnum, sem eiga að taka að sjer stjórn á mannflutningaskipum, nægilega bóklega mentun, sem hæfir þeirra stöðu. Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að sumir skipstjórar á Sameinaða fjelags skipunum hafa fengið þann undirbúning á æskuárum, að hafa numið þrjú stórmál, og tala þau eins og t. d. menn hjer tala dönsku. Við getum tæplega í framtíðinni komist af með lægri kröfur til okkar skipstjóra á fólksflutningaskipum.

Vil jeg mæla með því, að frv. verði samþykt óbreytt. Í því er gengið eins langt með kröfur og kostur er á, þó að ekki sje bætt fullkomlega úr því, sem þörf er á í framtíðinni.