17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

46. mál, vélgæsla á íslenskum mótorskipum

Pjetur Ottesen:

Breytingartillögur þær við lögin um vjelgæslu, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) flytur nú, eru að sumu leyti þær sömu og hann flutti hjer á síðasta þingi, en voru þá feldar. Þó er rjett að geta þess, að sú brtt., sem lengst gekk móti aðaltilgangi þessara laga, sem sje þeim, að tryggja góða meðferð vjela, hefir ekki komið nú. Jeg sýndi rækilega fram á skaðsemi hennar við umræður þá, og mjer þykir vænt um, að hv. þm. eru svo minnisstæð þau viðskifti okkar, að hann hefir ekki freistað að koma með þá brtt. nú. Afstaða mín gegn þessum breytingum er enn sú sama og í fyrra. Jeg get ekki fallist á þær fremur nú en þá. Hvað viðvíkur til dæmis að taka brtt. við 3. gr., þá virðist mjer það alls ekki næg trygging, að sá maður fari með 50 hestafla vjel, sem einungis hefir stundað vjelgæslu einhvern ákveðinn tíma, en hefir ekki gengið undir neitt próf og getur ekki lagt fram neitt skírteini um þekkingu sína í þessu efni. Það er svo ábyrgðarmikið verk, að mjer finst sjálfsagt, að þeim, sem falið er að stjórna svo stórri vjel, sje gert að skyldu að hafa gengið undir próf, þegar þá er ekki lengra gengið en að heimta próf frá vjelgæslunámsskeiði Fiskifjelagsins. Það er auðvelt að afla sjer þeirrar þekkingar. Eins og alkunnugt er, er það eitt helsta hlutverk Fiskifjelagsins, sem það leggur nú mikla áherslu á, að halda uppi þessum námsskeiðum. Hjer er hvergi nærri gætt nægs öryggis og ekki nærri nógu tryggilega um búið, ef gefin er þessi undanþága. Jeg er ekki hjer með að gera lítið úr praktisku námi. Það er gott. En hitt er tryggara, að maðurinn hafi jafnframt skírteini, er sýni, að hann hafi til brunns að bera þá þekkingu, sem nauðsynleg er í þessu efni.

Þá er brtt. við 5. gr. Hjer er sem sje felt burtu, að ekki þurfi annað en að hafa fullnaðarpróf frá vjelstjóraskóla Íslands til þess að hafa fullan rjett til þess að vera 1. vjelstjóri á mótorskipi með 150 hestafla vjel og auk þess, samkvæmt lögunum, að hafa verið aðstoðarvjelstjóri á mótorskipi með 50 ha. vjel eða stærri a. m. k. 3 mánuði. Hjer er farið fram á lengri tíma, 12 mánuði. Jeg sje alls ekki ástæðu til að breyta lögunum í þessu atriði, úr því að jafnframt er krafist praktisks náms. Þessi breyting er því óþörf, því að þó einkum sje kend meðferð gufuvjela við vjelstjóraskólann, þá er hjer ekki um svo óskilt mál að ræða, að svo mikil þekking hljóti ekki að koma að góðu haldi við mótorvjelar, því fremur sem krafist er, að mennirnir vinni við þær nokkuð lengi.

Þá er brtt. við 7. gr. Eins og nú er, eru 2 málsgreinar í 7. gr., og hljóðar 2. málsgrein þannig — með leyfi hæstv. forseta — :

„Þeir yfirvjelstjórar og vjelstjórar á mótorskipum, sem gegnt hafa því starfi lengur en 1 ár áður en lög þessi öðlast gildi, eiga rjett til að halda stöðu sinni á samskonar skipi og þeir hafa áður á verið.“

Það er rjett, að það getur verið nokkuð mikið álitamál, hvernig þetta beri að skilja: „á samskonar skipi“, en nú hefir verið skorið úr því nýlega með úrskurði í stjórnarráðinu þannig, að þeir menn, sem hafa verið eitt ár við vjelgæslu á mótorskipi, haldi rjetti sínum til vjelgæslu á fiskiskipum, án tillits til skipsstærðar eða vjelar, en bundið við fiskiskip eingöngu. Hjer er fyllilega skorið úr því, við hvað hjer sje átt, og því engin þörf neinna breytinga á þessari grein.

Þá virðast mjer breytingarnar á 3. gr. frv. sumpart til skemda og að öðru leyti óþarfar. Eina tækilega breytingin er sú, sem felst í brtt. minni á þskj. 153, sem nú var útbýtt í deildinni, um viðbót við 6. gr. vjelgæslulaganna. En þar segir svo — með leyfi hæstv. forseta —:

„Á mótorskipum með vjel yfir 150 hestöfl skal vera vjelalið samkvæmt ákvæðunum í 1. málsgr. 12. gr. nefndra laga 3. nóv. 1915.“

Mjer skilst, þegar ræða er um skip, sem stunda eingöngu fiskiveiðar, þá sje þetta óþarflega hart ákvæði, að heimta 2 lærða vjelgæslumenn. Hjer hagar alt öðruvísi til en um skip, sem sigla milli landa. Hjer er það aðalverkefni 2. vjelamanns að gæta vjelarinnar meðan 1. vjelstjóri hvílist. Þar sem ekki er um langa útivist að ræða að jafnaði, virðist ekki háskalegt, þó að slakað væri á þessari kröfu hvað fiskiskipin snertir. Jeg get því gengið inn á það, til þess að ljetta á útgerðarmönnunum — því mennirnir eru því dýrari, sem meiri þekkingar er krafist, — að það sje látið nægja, að 2. vjela maður fullnægi þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra, sem fara með 12–50 hestafla vjelar. Með öðrum orðum, uppfylli skilyrði 2. gr. frv.

Jeg legg til, að brtt. nefndarinnar verði feldar og mun greiða atkvæði á móti þeim. En jeg tel rjett, að tekin sje til greina þessi brtt. mín á þskj. 153.