19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

100. mál, verðtollur

Frsm. (Jakob Möller):

Háttv. þm. hafa nú athugað efni þessa frv. Það er í sjálfu sjer mjög einfalt, og sje jeg því ekki ástæðu til að halda langa framsöguræðu.

Tildrög þess, að frv. er fram komið, hafa verið skýrð í sambandi við annað mál, sem sje frv. um að veita stjórninni heimild til að innheimta tolla með gengisviðauka. Eins og frá var skýrt í sambandi við það mál, komst öll fjhn. fljótlega að þeirri niðurstöðu, að ekki myndi nást, þó það frv. gengi óbreytt fram, nógu mikill tekjuauki til að bæta úr þeim kröggum, sem óhætt er að segja, að ríkissjóður sje nú kominn í vegna stöðugs tekjuhalla ár eftir ár. En sá tekjuhalli stafar aðallega af gjöldum, sem greidd hafa verið utan fjárlaga, og þar sem ekki virtist auðvelt að kippa þeim í burtu og bæta þannig ástandið, virtist ekki vera nema um tvær leiðir að ræða.

Önnur var sú, að hækka gengisviðaukann, og kom það til tals í nefndinni að heimila stjórninni að heimta inn alla tolla með gullgengi, en við nánari athugun taldi nefndin slíkt ekki tiltækilegt, því með því móti hefðu sumir vörutollarnir orðið óbærilega þungir; jeg skal t. d. nefna kolatollinn, sem hefði orðið 6–7 kr. á tonnið, og virtist ótækt að leggja svo þungan toll á atvinnuvegina. Þá kom til álita, hvort meiri tolla mætti ekki setja á munaðarvörur, en það þótti ekki gerlegt að ganga lengra í því efni en gert er, því nú eru tollar þeirra vara í mörgum tilfellum hærri en verð vörunnar, t. d. er tollurinn á vindlum nú 8 kr. pr. kíló, en innheimtur með gullgildi yrði hann 16–17 kr. á kassa, en tóbakstollur 8–9 kr. kíló. Virtist því sú leið að auka þá tolla ekki álitleg til að auka tekjur ríkissjóðs.

Yfirleitt komst nefndin í heild sinni að þeirri niðurstöðu, að ótiltækilegt væri að tolla nauðsynjavörur meira en nú er gert, og var þá ekki önnur leið eftir en sú, sem hjer í frv. er gert ráð fyrir að farin verði, sú, að leggja verðtolla á 3., 6. og 7. flokk vörutollslaganna.

Það var athugað, hvort fært væri að ná þessum tollauka með því að hækka gildandi vörutoll þessara vara, en hann er þegar orðin svo hár, að það þótti ekki tiltækilegt. Hefði þá t. d. þurft að tífalda tollinn á vefnaðarvörum og sex–sjöfalda tollinn á 7. flokki. Ber þess að gæta, að svo hár þungatollur hefði komið illa við, orðið ljettastur á þeim vörum, sem mest ástæða var til, að yrðu fyrir þessum lögum. Eins er eftirlit og innheimta þess tolls ekkert auðveldari en verðtolls þegar tollurinn er orðinn svo hár, en sá er þó eini kostur þungatolls, hversu auðveldur hann er í framkvæmdinni, en hann hefir verið svo lágur hingað til, að menn hafa ekki haft ríka tilhneigingu til að fara í kringum hann eða skjóta vörum undan honum. En með því að hækka vörutollinn eins og þyrfti til að fá tekjuaukann, og leggja t. d. 18 kr. á hver 10 kg. af vefnaðarvöru, yrði mjög hætt við því, að kaupendur hefðu reynt að villa fyrir eftirlitinu með umbúðum o. fl.

Yfirleitt er nefndin sammála um, að verðtollur sje sanngjarnari en vörutollur og ekkert erfiðari í framkvæmdinni. Auðvitað er það, að hann verður þó nokkuð erfiður í framkvæmdinni, og þess hærri sem tollur er, þess meiri verður eftirlitsþörfin. Gengur því nefndin að því vísu, að tollainnheimtan verði nokkuð kostnaðarmeiri með þessu fyrirkomulagi, en þegar verið er að ræða um það að afla tekna, má ekki horfa í það.

Það liggur í hlutarins eðli, að þegar um svo háan toll er að ræða sem þennan, má við því búast, að það hafi töluverð áhrif á eftirspurnina og dragi úr henni að mun. Það er því ekki auðið að gera sennilega áætlun um tekjur af þessum tolli, og það því síður, sem fyrir nefndinni lágu engar innflutningsskýrslur yngri en frá 1921. Má gera ráð fyrir, að innflutningur hafi breyst eitthvað síðan, en sennilega hefir verðmæti hans ekki minkað til stórra muna. En verðið á vörutegundum þeim, sem taldar eru í 3., 6. og 7. flokki vörutollslaganna, var 1921 um 15 milj. kr., og er þá flutningsgjald talið með. Þegar flutningsgjaldið er dregið frá og verðmæti þeirra vörutegunda, sem í frv. eru undanþegnar tollinum, ætti kaupverð þess varnings, sem verðtollurinn á að ná yfir, að hafa verið ekki minna en 10 milj. kr. Frá þessari upphæð verður að draga það, sem innflutningur mundi minka við þá verðhækkun, sem hlýst af þessum verðtolli, og af því, ef bannaður yrði innflutningur einhverra vörutegunda.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að tollaðar verði flestar þær vörur, sem farið er fram á í frv. á þskj. 88, að bannaður verði innflutningur á. En það er óvíst, og enda ósennilegt, að það frv. verði samþykt eins og það liggur fyrir. Ef það frv. yrði samþykt, yrðu tolltekjur þessar að sjálfsögðu litlar, en að öðru leyti skiftir það ekki máli í þessu sambandi.

Í greinargerð við frv. á þskj. 88 er þess getið, að innkaupsverð þeirra vörutegunda, sem þar um ræðir, hafi árið 1921 verið um 8¼ milj., og verður þá mismunurinn á þessu og því vörumagni, sem hjer er gert ráð fyrir að tolla, um 6 milj. kr., og verði einhverjar tegundir feldar úr því frv., kemur þeim mun meira undir þennan toll.

Nefndin hefir í 1. gr. frv. tekið undan tollinum ýmsar vörur, sem ætla má, að menn noti ekki meir en brýn nauðsyn krefur. Annars var það tilætlun nefndarinnar, að tollurinn næði einkum til þess varnings, sem sennilegt er, að notaður sje meir en brýn þörf er á og komið getur til mála að tala um óhófsnotkun á, jafnvel þó um nauðsynjavörur væri að ræða. Því að nauðsynjavörur má auðvitað nota í óhófi eins og hvað annað. En það er óhófsnotkunin, sem mest ástæða er til að leggja skatt á.

Það getur auðvitað verið álitamál, hverjar vörutegundir skuli undanskilja tollinum. Margar tegundir eru teknar undan aðallega vegna samræmisins, fremur en af því, að það skifti máli. Þetta geta hv. þm. íhugað og komið með brtt. um það við 2. umr., ef þeim sýnist svo.

Nefndin hefir einnig íhugað, hvort þessi tollur ætti líka að ná til sumra vörutegunda í öðrum vörutollsflokkum, og á þetta einkum við um smíðaða muni úr trje, sem koma undir 4. flokk, en í frv. á þskj. 88 er gert ráð fyrir, að bannaður verði innflutningur á ýmsum þeim vörum. Sama er um bifreiðar, sem eru í 2. fl., einkum mannflutningabifreiðar. Verði þær ekki bannaðar, tel jeg sjálfsagt að tolla þær eftir þessu frv. Jeg geri jafnvel ráð fyrir, að einhverjir muni flytja brtt. um að koma enn fleiri tegundum undir þennan toll.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið að sinni, en vænti þess, að það fái tiltölulega greiðan gang gegnum hv. deild. Jeg veit, að fjhn. að minsta kosti sjer enga aðra leið til að bæta úr tekjuþörf ríkissjóðs og þeim tilfinnanlegu kröggum, sem hann er kominn í, en einhverja slíka tollhækkun. Það er ekki sjáanlegt, hvernig framhaldið muni verða, ef ekkert er gert til að bæta úr þeim. Það er mála sannast, að frá því er nefndin byrjaði að íhuga þessi mál hefir hún komist æ betur að raun um, að óhjákvæmilegt er að auka tekjurnar, til þess að forðast hreinasta vandræðaástand á næstunni. Það gæti auðvitað komið til orða, og sennilega mun koma hljóð úr horni í þá átt, að þyki þessi leið ekki fær, verði ekki hjá því komist að auka skatta á eignum manna eða gera hreint og beint eignarnám til þess að inna af hendi óhjákvæmilegar greiðslur ríkissjóðs. Það verður ekki komist hjá því að greiða það, sem greiða ber, en spurningin er aðeins, hvernig skuli afla fjárins.