28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

100. mál, verðtollur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal einungis gera stutta athugasemd. Háttv. þm. Str. sagði, að það gæti þýtt stefnubreytingu hjá mjer, að jeg vildi ekki ganga of nærri ríkissjóði með innflutningshöftum. Svo er ekki. Jeg hefi aldrei ætlað mjer að fylgja því, að of nærri ríkissjóðnum sje gengið. Í haftamálinu má ekki fara svo langt, að ríkissjóður komist í þurð. Þetta veit jeg, að háttv. þm. Str. viðurkennir.

Hv. þm. segir, að einu megi gilda, hvort þetta frv. verði afgreitt nokkrum dögum fyr eða síðar. En það getur oltið á nokkrum hundruðum þúsunda fyrir ríkissjóð, hvort þessi tollur næst af vörum, sem koma með næstu skipum. Ef þær vörur sleppa undan tolli, þá mun hann vitanlega fara í vasa þeirra, sem fá þær. Jeg vil því eindregið skora á þá, sem styðja vilja þetta mál, að stuðla að því, að þetta frv. geti orðið samþykt svo snemma, að það öðlist konungsstaðfestingu áður en næsta skip kemur. Ella fer mikið af þessari miklu tollupphæð í vasa þeirra kaupmanna, er vörur þessar fá.