28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1516 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg gæti skilið þær kröfur, sem fram hafa komið um fljóta afgreiðslu haftamálanna, ef nokkur sjerstök hætta væri á miklu aðstreymi þeirra vörutegunda, sem banna ætti. En sú hætta er ekki á ferðum. Það er búið að byrgja þann brunn, með því að gefin hefir verið út bráðabirgðareglugerð, sem bannar með öllu innflutning á öllum þeim vörum, sem til mála getur komið, að bannaðar verði til frambúðar. Stjórnin getur lýst því yfir, að hún mun láta þá reglugerð standa, a. m. k. lítið breytta, á meðan þingið hefir haftamálin til meðferðar. Og hvað liggur þá á að flýta svo mjög afgreiðslu haftafrv.? Alt öðru máli er að gegna um þetta tollhækkunarfrv. Vörur, sem tollskyldar verða samkv. því, streyma til landsins strax næstu daga, og því ríður á, að tollhækkunin nái til þeirra. En höftin eru þegar komin á hvort eð er, og fæ jeg því ekki skilið, að skift geti miklu máli, hvort haftafrv. verður afgreitt hálfum mánuði fyr eða síðar. (KU: Ef það verður þá afgreitt). Jeg veit, að það var aldrei ætlun fjhn. að setjast á það frv., og hefi jeg áður skýrt frá því, hvers vegna afgreiðsla þess hefir dregist, af eðlilegum ástæðum. Jeg veit, að bæði hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og aðrir hv. þm. geta fallist á, að aðstaðan í þessu máli og haftamálinu er svo ólík, að engin ástæða sje til þess að hefta framgang þessa frv. hennar vegna.