29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla ekki að svara hv. 2. þm. Reykv. (JBald) mörgum orðum, enda heyrði jeg ekki á alla ræðu hans. En jeg vil leiðrjetta þá missögn hans, að skuldir ríkisins hefðu aukist um 2 milj. kr. á 2 mánuðum vegna gengislækkunar. Þetta er fjarri öllum sanni, því gengislækkunin frá áramótum nemur í hæsta lagi 1 miljón. Ástæðan til þess, að gengisbreytingarnar hafa ekki komið harðara niður á okkur en þetta, er sú, að jafnframt því, að ísl. krónan hefir fallið hafa danskir peningar einnig lækkað í verði. Gengisbreytingarnar taka þá ekki svo mjög til skulda okkar, sem eru reiknaðar í dönskum peningum. En áhrif verðfalls íslensku krónunnar á skuldir þær, sem standa í sterlingspundum, eru þó vart meiri en sem svarar ½ milj. ísl. kr.

Jeg vil benda á, að það er misskilningur, að erlendar skuldir ríkissjóðs breytist í verði við gengisbreytingar ísl. krónunnar. Þær breytast því aðeins, að sá gjaldmiðill, sem þær eru greiddar í, breytist að verði til í hlutfalli við gull. Við þurfum að inna af hendi jafnmörg skpd. af fiski eða kg. af ull upp í greiðslur okkar, hvernig sem ísl. krónan okkar hegðar sjer. En hitt er gróði fyrir okkur, ef sá gjaldmiðill, sem skuldin greiðist í, fellur í hlutfalli við gull.

Um mismuninn á því að halda uppi eftirliti með bannlögum og tollum hefi jeg ekki sagt annað en það, sem vitað er, að almenningsálitið fordæmir ekki bannlagabrot, en það fordæmir tollsvik og vinnur með löggæslunni, þegar slík brot eru framin.

Út af orðum hv. 1. þm. Árn. (MT) skal það tekið fram, að jeg sje ekki, hvernig hjá því verði komist að leggja nokkuð meira fje til tollgæslunnar vegna þessara laga en hingað til hefir verið gert, þar sem mjög strangar gætur þarf að hafa með öllum innflutningi.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að brtt. Kem jeg þá fyrst að brtt. á þskj. 249, frá hv. þm. Barð. (HK). Get jeg ekki sjeð neina ástæðu til að leggjast á móti henni, Fellir hún burt úr undanþáguupptalningunni nokkrar vörutegundir, og þó jeg sjái, að hv. fjhn. hafi haft nokkra ástæðu til að undanþiggja þessar vörur, þá verður auðvitað altaf álitamál, hversu langt skuli ganga í þeim efnum, og get jeg fyrir mitt leyti greitt þessum brtt. atkvæði mitt.

Nokkuð öðruvísi horfir þetta við með brtt. á þskj. 250. Skal jeg raunar játa, að það væri mjög æskilegt, ef komist yrði hjá því að leggja þennan toll á nauðsynlegar vörutegundir. En samkvæmt þessari till. á að undanþiggja átta flokka af vefnaðarvöru frá tollinum. Hið síðasta, sáraumbúðir, er talið með í undanþáguupptalningu nefndarinnar, og ætti því að falla burt. Þessar vörutegundir hafa á undanförnum árum numið miklum upphæðum. Það er raunar ekki gott að sjá af verslunarskýrslum frá 1921, hvað mikið hafi flust inn af þeim, en þeir þrír flokkar þeirrar vöru, sem þar eru sjerstaklega tilgreindir, hafa numið um 400 þús. kr. Önnur ástæðan móti þessu er sú, að undanþágur sem þessar gera eftirlitið afarerfitt. Og það er fyrirfram víst, að mestrar varkárni þarf að gæta við vefnaðarvöru, svo fyrirferðarlítill varningur sem hún er, en þó mun það kleift. En þegar farið er að gera miklar undantekningar um einstaka vefnaðarvörur af þeim, sem búnar eru til í sömu verksmiðjunni og látnar eru niður í sömu kassa og tollaðar vörur, þá yrði afleiðingin sú, að helst þyrfti að tæma þá alla, fara í gegnum allar vörurnar, telja þær og bera þær saman við reikningana, og verð jeg að segja, að mjer hrýs hugur við þeim kostnaði og örðugleikum, sem það hefði óhjákvæmilega í för með sjer. Og þar sem lög þessi gilda fyrst um sinn aðeins til ársloka 1925, þá ætti ekki að vera erfitt að komast hjá þessari undanþágu. Menn ættu talsvert að geta sparað sjer kaup á þessum vörum, þó nauðsynlegar sjeu, þar sem um svo stuttan tíma er að ræða. Mætti því gera ráð fyrir, að sala á þeim þennan tíma yrði aðallega til þeirra, sem svo eru efnum búnir, að þeir þurfa ekki að setja þessa verkhækkun fyrir sig eða finni sig knúða til að bíða þess, að þetta tímabil endi. Vildi jeg því mælast til þess, að hv. flm. till. hjeldu henni ekki fram að svo stöddu, en biðu þess, að reynsla fengist um það, hvernig eftirlitið gengi, og væri þá hægt að gera frekari aðgreiningu og hægara að koma með skynsamlegar uppástungur.