29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Árn. (JörB) sagði nú síðast um eftirlit með verði á innlendri iðnaðarvöru, sem nýtur verndar þessa tolls, hefi jeg þetta að segja: Jeg tel, að í brtt. við 1. gr., sem sett var inn í frv. við 2. umr., felist heppileg heimild fyrir landsstjórnina til þess að líta eftir þessu.

Þessi innlendu fyrirtæki vinna öll úr útlendum efnivörum, og þar sem stjórninni er heimilt að undanskilja þær tollinum, getur hún bundið þá undanþágu því skilyrði, að iðnaðarfyrirtækin haldi sæmilegu verði á framleiðsluvörum sínum.

Hvað sápugerðina snertir álít jeg, að stjórnin hafi hæfilegan hemil á verðlagi innlendrar sápu með þessu móti. Hefir hún og að vísu fyrri lög og heimildir til að ákveða hámarksverð, ef til þarf að taka.