29.03.1924
Efri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. 5. landsk. þm. (JJ) hjelt því fram, að haftafrumvarpið ætti að ganga gegnum þingið samhliða eða á undan þessu frv., sem nú liggur fyrir. Það er rangt á litið. Landsstjórnin verður fyrst og fremst að gæta þess, að fjárhag ríkissjóðs sje borgið. Haftafrv. fer fram á að banna innflutning margra vörutegunda, sem falla undir hæsta tollflokk. Frv. fer því fram á að rýra að miklum mun tekjur ríkisins. Það er ekki unt fyrir neina stjórn að leggja slíku frv. lið sitt, nema sjeð sje um leið fyrir fullri uppbót þeirra tekna, sem þar tapast. Með þessu frv., sem nú liggur hjer fyrir, er sjeð fyrir þessu. Virtist hv. 5. landsk. þm. halda, að þessu frv. væri ætlað að koma að öllu leyti í stað innflutningshafta. Jeg get hiklaust lýst yfir því, að svo er ekki. Stjórnin mun framkvæma bann gegn innflutningi óþarfavarnings að svo miklu leyti, sem ríkissjóður þolir það.

Hv. 5. landsk. þm. hjelt því fram, að hjer væri eiginlega um tvær stefnur að ræða. Önnur væri sú, að spara almenningi útgjöld með því að hefta innflutning óþarfrar vöru. Hin legði aðeins áherslu á að rjetta við búskap ríkishirslunnar.

Jeg kannast ekki við, að hjer sjeu tvær stefnur; þetta hvorttveggja eru bara tveir þættir úr margþættri ráðstöfun til þess að rjetta við hag ríkisheildarinnar.

Það er enginn vafi á því, að tekjuhalli ríkissjóðsins á mestan þáttinn í falli ísl. krónunnar. Mun mjer sjálfsagt gefast tækifæri til að víkja nánar að þessu síðar. En um þessa tvíþættu ráðstöfun get jeg meðal annars vísað til ummæla í ársskýrslu banka þess í Kaupmannahöfn, sem ríkissjóður hefir sín aðalviðskifti við, Köbenhavns Handelsbank. Skýrslan fjallar svo að segja eingöngu um gengismál. Segir þar hiklaust, að fyrsta skilyrðið fyrir vænlegri afkomu sje, að búskapur ríkissjóðs sje rekinn tekjuhallalaust.

En jeg er sammála hv. 5. landsk. þm. um, að hina leiðina, haftaleiðina, beri líka að ganga. Hv. þm. spyr, hvort stjórnin vilji hjálpa til að spara 5 milj. króna. Mjer persónulega þætti ekki of langt farið, þótt innflutningur minkaði um 5 milj. kr. Annars eru ekki til skýrslur frá árum með sambærilegt ástand. Sökum þessa verður spurningu hv. 5. landsk. þm. ekki svarað að fullu. — Þá spyr hv. þm., hvort landsstjórnin ætli að nota reglugerðina frá 1920 eða hvort hún vill styðja framgang haftafrumvarpsins og nota það. Stjórnin tekur enga afstöðu til þess, hvort ný lög verða sett eða gamla heimildin látin nægja. En komi engin lög, mun stjórnin nota gömlu heimildina. Stjórnin ætlar sjer ekki að fella niður innflutningshöftin, ef engin lög verða sett.

Hv. 5. landsk. þm. lagði mikla áherslu á það, hve miklu þægilegra það væri fyrir stjórnina að hafa ný lög við að styðjast heldur en að nota gömlu heimildina. Jeg þakka háttv. þm. mjög fyrir velvild hans og umhyggju fyrir daglegri vellíðan stjórnarinnar. En jeg hugsa, að ráðherrarnir meti meira þjóðarheill en þægilega daga. Annars vil jeg lýsa yfir því, að stjórnin vísar að öllu leyti til yfirlýsingar sinnar í gær um það, að hún mun framkvæma innflutningshöft á óþörfum varningi eftir því, sem frekast er unt án þess að ganga of nærri ríkissjóði, en tekur enga afstöðu til þess, hvort um þetta mál verða sett ný lög á þessu þingi eða notuð heimildin samkvæmt lögunum frá 8. mars 1920.

Þá nefndi sami hv. þm. hveititoll. Jeg er ekki viss um, að ríkissjóður fengi mjög miklar tekjur af þeim tolli, ef hann væri mjög hár, og auðvitað þyrfti þá einhver að verða til þess að flytja frv. um slíkan toll, ef á honum ætti að byggja. Jeg segi fyrir mitt leyti, að jeg treysti mjer ekki til þess. Hveiti hefir hingað til verið talin hin mesta nauðsynjavara og er ein af þeim vörutegundum, sem t. d. verkamenn byggja útreikning sinn á um dýrtíð, þegar þeir eiga í kaupgjaldsdeilum.

Þá talaði hv. 5. landsk. þm. um eignaskatt eða eignanám. Þetta hefir verið orðað víðar, og komst það svo langt í Sviss, að það var lagt undir þjóðaratkvæði. Í upphafi virtist þessi hugmynd hafa allmikið fylgi, en svo fór, að áður en atkvæðagreiðslan fór fram, urðu menn hræddir, þegar þeir sáu rás viðburðanna. Því að þá var alt fjármagn að flýja úr landi, og var fyrirsjáanlegt, að örbirgðin ein mundi sitja eftir. Það voru því ekki greidd nema örfá atkvæði með þessu og kom ekki nándanærri fram alt atkvæðamagn þess flokks, sem barist hafði fyrir málinu. Í Bretlandi kom þetta mál einnig upp, og var gert að kosningamáli af hálfu jafnaðarmanna, en það er sá flokkur, sem hefir alstaðar beitt sjer fyrir þessu máli. Svo fór fyrir rás viðburðanna, að sá flokkur myndaði stjórn, sem gert hafði þetta að kosningamáli, en gaf þá jafnharðan út þá yfirlýsingu, að hann mundi ekki hefjast til framkvæmda í málinu. Það eru svo miklir annmarkar á þessu, að það getur ekki komið til mála, og að minsta kosti þyrfti að koma fram þingleg tillaga um það.

Hv. 5. landsk. þm. mintist þessu næst á gulltollinn, og er jeg honum að mestu leyti. samdóma í því efni. Jeg hefi í fjhn. Nd. beitt mjer fyrir að vinna þeirri skoðun fylgi, að heimta ætti með gullgengi toll af öllum óþörfum og miður þörfum tollvörum. Er þess getið í nál., sem sú nefnd hefir látið fara frá sjer, að jeg hafi haldið þessari skoðun fram. En jeg gat ekki unnið þessari skoðun fylgi í nefndinni, ekki einu sinni hjá flokksmönnum hv. þm. Sá jeg því ekki til neins að róa einn með þessa skoðun inn í hv. Nd., þar sem jeg taldi vonlaust um, að hún næði fram að ganga á þessu þingi, þegar fjhn. vildi ekki fallast á hana.

Loks mintist hv. þm. á skatt á húseignum í Reykjavík. Jeg býst við, að erfitt muni að afla ríkissjóði tekjuauka á þann hátt, enda ekki sanngjarnt, að höfuðstaðurinn leggi einn fram það, sem til þarf.