12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Það er óþarfi að hefja umræður um þetta mál af miklum hita og vígamóði, eins og hv. samþm. minn, 2. þm. Reykv. (JBald), sem vill láta sálga frv. nú þegar. Hitt er mjer ljóst, að það væri mikil fljótfærni, ef það næði fram að ganga íhugunarlítið eins og það liggur fyrir. Jeg held, að frv. þetta og afleiðingar þess hafi ekki verið athugaðar eins gaumgæfilega og vera ætti. Jeg hjó eftir því hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að hann taldi mikla nauðsyn á því að varast það að íþyngja atvinnuvegunum. Væri þeim íþyngt um of, yrði alþýða ver farin, af því að þá brigðist atvinna. Þetta er vitanlega rjett, en hitt liggur í augum uppi, að tekjuskattur, sem er miðaður við hreinan ágóða, getur aldrei komið neinu fyrirtæki á vonarvöl. Það eru miklu frekar útflutnings- og innflutningsgjöld, sem geta orðið hættuleg í þessu efni. Hæstv. fjrh. var að taka dæmi um framkvæmd þessa frv., ef það gengi fram. Gert er ráð fyrir því, að skattinum sje jafnað á ágóða þriggja síðustu ára. Nú má hugsa sjer, að stórgróði verði tvö árin, en skatturinn yrði samt ekki hár vegna lítils gróða að undanförnu. En á þriðja ári yrði stórtap, en þá yrði atvinnureksturinn að greiða mjög háan skatt, sem gæti miklu frekar komið honum í kröggur heldur en ef hann væri látinn greiða ákveðið hundraðsgjald af ágóða hvers árs jafnóðum. Þessi breyting, sem á að ljetta undir með atvinnurekstrinum, gæti komið honum á kaldan klaka fremur en hitt. Jeg veit, að frv. er fram komið af því, að mönnum ofbýður sá skattur, seni útgerðarfjelögin verða að greiða fyrir síðastliðið ár, með það í minni, að þau hafa átt í vök að verjast að undanförnu. Jeg skil þetta vek En þess verður að gæta, að ekki sje síðari villan verri hinni fyrri. Jeg skal fullkomlega fallast á það, að það sje vafasamt, hvort hjer sje um tap eða gróða að ræða fyrir ríkissjóð. En tapi hann engu, þá græða hinir heldur ekkert, og þá er frv. tilgangslaust. Þá er það ákvæði, að þetta skuli aðeins ná til hlutafjelaga, sem er fyllilega ranglátt gagnvart einstaklingum, ef hjer væri um rjettarbót að ræða.

Bæði þetta, að það virðist hæpið, að breyting þessi verði til bóta fyrir skattgreiðendur, og eins hitt, að ýmsar raddir hafa látið til sín heyra í þá átt, að gera þyrfti rækilegar breytingar á lögunum í heild, bendir eindregið til þess, að ekki beri að flana nú að neinum handahófsbreytingum, heldur að lögin verði rækilega endurskoðuð sem fyrst, og mun þá ekki veita af því að setja milliþinganefnd til þess að undirbúa það.

Loks vil jeg minna á það, að eftir veltiárin í lok stríðsins var mjög alment haft á orði, að þingið hefði sýnt skammsýni í því að leggja ekki háa skatta á stórgróða stríðsáranna. Man jeg ekki til þess, að nokkur rödd hafi heyrst gegn því, en að vísu var þetta ekki fyr en eftir það, að sá gróði var allur kominn út í veður og vind. Nú er byrjaður annar uppgangstími, og er eðlilegt, að þeir, sem hljóta uppgripagróðann nú, sjeu mótfallnir miklum skatti. En sje nú látið undan þeim andróðri, þá get jeg trúað því, að menn sjái eftir því, þegar næsta þrengingartímabil kemur yfir þjóðina, og finnist þá aftur til um skammsýnina. Til þess eru vítin að varast þau, og á það ekki síst við í þessum málum.

Því hefir verið lengi haldið fram, að háir beinir skattar yrðu til þess að draga úr framtakssemi einstaklingsins. Þetta hefir margsinnis heyrst hjer á þingi í umr. um skattamál. En hvað segir reynslan? Sjá menn mót á því, að framtakssemi einstaklinganna hafi lamast vegna þess, að þeir eiga að greiða þennan skatt? Hefir ekki togaraflotinn verið aukinn nær að þriðjungi nýverið, þrátt fyrir skattana? — Nei. Menn vilja komast hjá því að greiða skatt, en því fer fjarri, að slíkt gjald af hreinum ágóða fæli menn frá framkvæmdum. Það sýnir reynsla síðasta árs. Sú mótbára er því fallin fyrir dómi reynslunnar. En hinsvegar væri bættur skaðinn, þó beinn skattur gæti dregið ögn úr áfergjunni að auka framkvæmdirnar á sviði útgerðarinnar, svo menn yrðu nokkru gætnari í því efni en nú er raun á.